Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Leiðari 4tbl 2019

Við látum ekki þagga niður í okkur

Leiðari 4.tbl.2019 í Blaði Sameykis

Samningaviðræður opinberra starfsmanna við ríkið hafa nú staðið yfir í meira en átta mánuði. Á þessu þessum tíma hefur því miður lítill árangur náðst. Í haust vísuðum við deilunni til ríkissáttasemjara í þeirri von að árangur næðist. Þar hefur einnig gengið hægt og það sama má segja um aðra samninga félagsins. Það hangir flest á þeim sameiginlegum kröfum sem við höfum barist fyrir undir hatti BSRB. Við höfum nú einungis fáeina daga til jóla til þess að ná næstu skrefum. Ef þau skref nást ekki með fullnægjandi hætti þurfum við því miður að  ara alvarlega að íhuga þann möguleika að grípa til aðgerða.

Þolinmæði okkar er á þrotum. Það er á brattann að sækja og vonir okkar um að okkar stærstu viðsemjendur tækju kröfunni um styttingu vinnuvikunnar vel hafa svo sannarlega valdið vonbrigðum. Við höfum þurft að berjast fyrir hverju einasta hænuskrefi sem við höfum þó náð í samningunum og oftar en ekki er okkur kippt aftur á byrjunarreit í umræðunni. Vonbrigðin eru mikil því satt að segja lögðum við af stað í viðræðurnar full bjartsýni um breytta tíma og ný vinnubrögð. Fyrir utan almennar kröfur um launahækkanir og breytingar á einstökum kjarasamningsgreinum lögðum við fram þrjár meginkröfur.

Stytting vinnuvikunnar, ekki bara í hátíðaræðum

Í fyrsta lagi þá lögðum við til styttingu vinnuvikunnar. Þar höfum við náð ákveðinni lendingu er varðar dagvinnufólkið okkar, með þeim fyrirvara þó að aðrir hlutir gangi upp, m.a. meiri stytting hjá vaktavinnufólkinu. Það að við höfum verið í samstarfi bæði við ríki og Reykjavíkurborg um tilraunaverkefni í aðdraganda þessara samninga virðast með engum móti hafa hjálpað til í samningaviðræðunum, þrátt fyrir að niðurstöður þeirra verkefna hafi verið afar jákvæðar. Þær niðurstöður gerðu okkur ekki auðveldara fyrir að vinna að málinu, sem er í raun afar undarlegt í ljósi þess að bæði ríki og borg hafa birt þessar jákvæðu niðurstöður í veglegum skýrslum og pólitíkusar haldið um þær fínar og flottar ræður á hátíðastundum. Það er mikið gap á milli þess sem við heyrum stjórnmálamenn tala um og þess umboðs sem samninganefndir ríki og borgar virðast svo hafa í raun og sann. Þessi misvísandi skilaboð eru í raun skandall í ljósi þess að Ísland baðar sig í ljósi jafnréttis- og jöfnuðar í hátíðaræðum og á erlendri grundu.


Jöfnun lífeyrissjóðsréttinda = jöfnun launa

Í öðru lagi er krafa okkar um jöfnun launa milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins ein af forsendum þess að við skrifum undir nýja samninga. Við getum aldrei samþykkt að fara inn í langt samningstímabil án þess að sjá þau mál leyst farsællega. Nú eru liðin þrjú ár frá því að samningur var gerður milli opinberra starfsmanna, ríkisvaldsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um jöfnun lífeyrisréttinda milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Samningurinn var algjör tímamótasamningur því aldrei fyrr hafa svo stór og mikilvæg kjör launafólks verið samræmd milli markaða. Í honum var ákvæði um að launakjör yrðu einnig jöfnuð enda hafa kannanir sýnt að það sé um 16-20% launamunur milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum markaði, opinberum starfsmönnum í óhag. Muninn átti að leiðrétta á næstu 6-10 árum samkvæmt samningnum. Því miður hafa engar leiðréttingar enn átt sér stað þrátt fyrir miklar umræður og þrýsting af okkar hálfu. Það að fara í fjögurra ára samning eins og vonir vinnuveitenda standa til án þess að mörkuð séu skref um jöfnun launa á tímabilinu er óviðunandi.


Launaskriðið þarf að vera tryggt

Þriðja stóra málið sem við höfum lagt áherslu á er útfærsla launaþróunartryggingarinnar eða launaskriðstryggingarinnar eins hún kallaðist í samningunum 2015. Tryggingin er að norrænni fyrirmynd og þykir yfirleitt góð aðferðafræði til að tryggja stöðugleika og jöfnuð í launaþróun á milli markaða. Við höfum sjálf séð hvernig hún virkar til jöfnunar síðastliðin ár og leggjum því mikla áherslu á að samkomulagið um launaþróunartrygginguna verði endurnýjað í þessum samningum. Það kemur sannarlega á óvart að finna ákveðna tregðu hjá viðsemjendum til þess að ganga frá tryggingunni inn í samningana nú. Þessar meginkröfur opinberra starfsmanna eru kröfur um jafnrétti og jafnræði á vinnumarkaði – um þær þarf ekki að deila.


Við erum stór og sterk

Eins og fyrr sagði hafa samningaviðræður nú staðið í rúma átta mánuði. Það að við erum ekki komin lengra er forkastanlegt í ljósi allrar þeirrar umræðu á milli aðila vinnumarkaðarins síðustu misseri um bætt vinnubrögð og árangursríkari viðræður. Við munum leggja okkur öll fram sem eftir lifir þessa árs til þess að ná fram viðundandi samningum, eftir það þurfum við að huga að aðgerðum. Við erum stór og við erum sterk og við ætlum ekki að láta þagga niður í okkur. Við munum ekki fela þá staðreynd að þolinmæði okkar allra er löngu komin í þrot og þá er ekki neitt annað að gera nema að grípa til aðgerða.


Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis
 Garðar Hilmarsson, varaformaður Sameykis

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)