Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

4. janúar 2021

Gleðilegt nýtt ár

Gönguhópurinn grjótharðir göngugarpar

Ég vona að árið hafi farið vel með ykkur. Fordæmalaust ár er liðið og kemur ekki aftur og eins og ég heyrði einhvern segja: ,,sem betur fer‘‘. Það er bráðum ár síðan við hittumst síðast en það var á þorrablóti okkar í febrúar á síðasta ári í fallegum sal í Framheimilinu Sogamýri. Við horfum bara bjartsýn fram á veginn því betri tíð með blóm í haga bíður okkar. Við höldum bara ótrauð áfram og hlökkum til að geta hist á ný og gert eitthvað skemmtilegt saman. Við þurftum að fella niður Jónsmessuferðina okkar í júní síðastliðinn sem við ætluðum svo að breyta í haustlitaferð í þeirri von að ástandið hefði breyst til batnaðar en allt kom fyrir ekki, aðstæður í þjóðfélaginu buðu ekki upp á neinar samkomur né ferðalög. Vonandi getum við farið eitthvað á Jónsmessunni í ár. En hvað um það lífið heldur áfram.

Ég vil minna ykkur á skrautfjöðrina okkar Símenntunarsjóð og hvet ykkur til að vera dugleg að nýta ykkur hann. Næsta úthlutun er í maí. Síðasta úthlutun sem var í haust fór snurðulaust fram því tæknin er okkur hliðholl og það er svo margt sem hægt er að gera á netinu og í gegnum síma. Við höfum ekki getað haft aðalfund vegna samkomutakmarkana en við trúum því að þetta sé allt á næsta leyti. Bólusetning er jú handan við hornið og sumir búnir að fá sprautuna. Gönguhópurinn okkar Grjótharðir göngugarpar hefur haldið áfram að hittast á miðvikudögum í hvaða veðri sem er. Að vísu hafa færri séð sér fært að taka þátt en við höldum áfram að hittast á þeim fjórum stöðum sem við hittumst á og fögnum hverjum þeim sem slæst í hópinn. Það er fátt sem bætir geðið meira en útivist og hreyfing og ekki skemmir að vera í góðum félagsskap. Það er mjög gaman hjá okkur, mikið spjallað og mikið hlegið.

Kæru félagar, ég vona að við getur bráðum komið saman á ný.

Hlakka til að sjá ykkur, kær kveðja,
Ingibjörg Óskarsdóttir, formaður lífeyrisdeildar.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)