Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

8. febrúar 2021

Rétt fyrir sólarupprás

Sólarupprás á suðurlandi.

Aldrei hefði mig grunað, þegar Háskóladeildin var stofnuð þann 4. Apríl 2019 og ég fékk þann heiður að vera kosinn formaður, að samfélagið okkar og heimurinn myndi verða á þeim stað sem hann er á núna. Það glittir hins vegar í ljósið og margir hafa nýtt þennan tíma til að afla sér þekkingar í gegnum fjarnám sem nú er orðið gríðar fjölbreytt og því ber að fagna.

Eitt af því mikilvægasta sem við í stjórn Háskóladeildarinnar viljum koma til leiðar er að menntun sé metin til launa burtséð frá því hvort þess sé krafist fyrir tiltekið starf eða ekki. Það er kristalskýrt í mínum huga að menntun sé vinna og að reynsla sé menntun.

Félagsmenn Sameykis eru oft að sækja sér menntun með fullu starfi og jafnvel með fjölskyldu, eða einstæðir með börn á framfæri. Það krefst skipulags og aga og ber að verðlauna. Menntun, hvort sem hún er formleg eða óformleg, á háskólastigi eða ekki, er forsenda þekkingar, og þekking er að mínu viti forsenda þess að samfélög séu réttlát og friðsæl.

Vinnustaðir eru lítil samfélög, hvort sem það eru einingar innan stofnana og fyrirtækja eða stofnanir og fyrirtæki í heild sinni. Það hefur ítrekað sýnt sig að einn af stærstu þáttunum þegar kemur að vellíðan í vinnu, fyrir utan launaliðinn, starfsaðstöðu og vinnuanda er það hvernig tekið er á móti fólki þegar það byrjar, sí- og endurmenntun og tækifæri til ábyrgðar. Það er ekki af ástæðulausu sem fólk bætir við sig þekkingu og færni og það verður enn mikilvægara í framtíðinni að hlúa vel að þessum málum og horfa á þá reynslu og þekkingu sem skapast við aukna menntun sem tækifæri til framþróunar.

Ástæðan fyrir stofnun Háskóladeildarinnar var að það þótti mikilvægt að það væri virkt afl innan Sameykis sem héldi utan um þennan ört vaxandi hóp. Í dag eru um 20% félagsmanna með háskólamenntun á ýmsum stigum og af ýmsum toga, sem eru ansi margir einstaklingar í um tíu þúsund manna félagi. Margir hafa skráð sig formlega í deildina en ég hins vegar lít svo á að allir félagsmenn með háskólamenntun, hvort sem þeir eru í námi eða hafa klárað nám, lengra eða styttra, séu í deildinni en sumir eigi bara eftir að skrá sig. Því fleiri sem skrá sig, því meiri slagþungi.

Að lokum vil ég segja að þrátt fyrir allt sem á undan er gengið er myrkrið alltaf mest rétt fyrir sólarupprás.

Kær kveðja, Baldur Vignir Karlsson.
Höfundur er formaður Háskóladeildar Sameykis

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)