Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

5. maí 2021

Fyrir litlu var þér trúað, yfir meira mun ég setja þig

Kosning trúnaðarmanna Sameykis fer fram 29. apríl – 31. maí

Eftir Véstein Valgarðsson

 

Trúnaðarmaður hefur skyldur sem þarf að vanda sig við að uppfylla. Því skiptir miklu að einhver veljist, sem samstarfsfólk treystir. Það hvílir því líka ábyrgð á kjörstjórn, innan hæfilegra marka, að leggja sitt af mörkum til að góðir kostir séu í boði. Hér telst ekki kostur að trúnaðarmaðurinn sé í nánu vinfengi við yfirmanninn. Það getur verið erfitt fyrir aðra undirmenn að leita til trúnaðarmanns sem er talinn persónulegur vinur yfirmannsins.

 

Virðing fyrir trúnaði
Þegar þið hafið kosið trúnaðarmann, berið þá virðingu fyrir ykkar eigin vali og að trúnaðarmaðurinn starfar fyrir ykkur. Virðið það ef hann þarf að fara á fundi eða sinna öðrum trúnaðarstörfum í vinnutíma. Þið gætuð sjálf þurft á því að halda einhvern tímann að trúnaðarmaðurinn hafi tíma til að tala við ykkur, og hann má gera það í vinnutíma, ef hægt er. Ef þið eruð sjálf trúnaðarmaðurinn, umgangist líka þennan rétt af virðingu. Notið hann bara þegar þið þurfið.

Trúnaðarmaðurinn er ekki bara trúnaðarmaður vegna þess að samstarfsfólk hafi trúað honum fyrir því. Hann þarf líka að gæta trúnaðar um viðkvæm mál. Ég get varla lagt nógu mikla áherslu á mikilvægi þess. Þið talið ekki við óviðkomandi um neitt sem er bundið trúnaði. Trúnaður er trúnaður! Og trúnaðarmaður stéttarfélags hefur trúnað jafningja sinna. Hann er ekki trúnaðarmaður yfirmannanna og gengur sem slíkur ekki erinda þeirra.

 

Leitið stuðnings
Það hafa ekki allir skilningsríka yfirmenn, fulla af réttlætiskennd og með rausnarlegar fjárheimildir. Yfirmaðurinn getur verið ágætis manneskja en t.d. átt of annríkt, ekki skilið hlutverk trúnaðarmanna, eða ekki þekkt kjarasamninginn eða lög og reglugerðir sem gilda um okkur. Kannski sníða hans eigin yfirmenn honum svo þröngan stakk, að hann getur ekki mætt réttmætum kröfum okkar eða bónum. Þannig samskipti geta verið krefjandi. Hikið ekki við að leita til skrifstofu stéttarfélagsins ef því er að skipta. Þar getið þið fengið mikilvægan stuðning, bæði praktískan og móralskan, og auðvitað ráð. Skrifstofan er bakhjarl ykkar.

Í krefjandi samskiptum, hugsið meira en þið segið. Látið ekki flakka yfirlýsingar, í málum þar sem þið þurfið kannski seinna að gæta hlutleysis. Staða trúnaðarmannsins er nógu viðkvæm samt; þið getið gasprað um eitthvað annað.

 

Trúnaðmenn þekki hlutverk sitt
Þið þurfið að meta hvað þið gerið umfram skyldu ykkar sem trúnaðarmenn. Ég mæli ekki með að við skiptum okkur af stjórnun, umfram það sem kemur okkur við. Það getur kostað óþarfa árekstra, og rétt eins og yfirmönnum ber að virða okkar trúnaðarmannshlutverk, þurfum við líka að virða þeirra stjórnunarhlutverk. Komi upp erfið mál, mæli ég hins vegar með frumkvæði og eftirfylgd: Það er sjálfsagt að hringja og vita hvernig fólk hefur það, hvort það þarf ráð eða aðstoð, kannski við að leita réttar síns. Það má hringja aftur eftir viku og taka stöðuna. Þessum samtölum haldið þið auðvitað fyrir ykkur, munið: Trúnaður er trúnaður.

Þið þurfið að taka verkefni ykkar alvarlega, bæði lítil og stór. Lítið símtal getur velt þungu hlassi en það getur líka gefið hughreystingu, kjark eða þekkingu til að leysa málin. En það leysast auðvitað ekki öll mál farsællega. Við vitum til dæmis að eineltismálum lýkur oftast með því að þolandinn hættir. Og stundum verður ekki rönd við reist þótt kjarasamningar séu brotnir. Óraunsæjar kröfur eða væntingar þýða ekki neitt. Við erum bara mannleg. Þess vegna þurfum við að gera okkar besta.

Höfundur hefur verið trúnaðarmaður á Kleppi síðan 2006.

 

Fleiri pistla frá trúnaðarmönnum má finna á vef Sameykis hér.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)