Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. október 2021

Að loknum kosningum

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis

Nú hefur íslenska þjóðin enn á ný kosið sér fulltrúa á Alþingi. Með atkvæði sínu eru kjósendur að sýna í verki að þeir treysta á stefnu-mið tiltekinna stjórnmálaflokka og á orð þeirra frambjóðenda sem þar eru í forystu. Eins og dæmin sanna þá getur verið tvísýnt um, og jafnvel verið undir hælinn lagt, hvort að stjórnmálaöfl komi heitstrengingum sínum í framkvæmd. Jafnvel er hægt á stundum að efast um að flokkarnir hafi nokkurn vilja til að vinna að því sem lofað var í kosningabaráttunni. En af hverju er ég að draga þetta fram? Jú, vegna þess að þó að við getum ekki kosið okkur Alþingi nema á fjögurra ára fresti, þá getum greitt atkvæði um það hvern einasta dag hvort við kjósum að bæta samfélag okkar.

Eða ekki.

Í samræðum á vinnustað, í uppeldi barnanna okkar, mótmælastöðu á Austurvelli, þátttöku í kórastarfi, tillitssemi í umferðinni, miðakaupum í dansskóla með makanum, í hlutverki trúnaðarmanna á vinnustöðum, þegar við kaupum happdrættismiða af Blindrafélaginu eða björgunarsveitinni, þá erum við bæði í kosningabaráttu og að kjósa. Svo ekki sé nú talað um virka þátttöku í stéttarfélagi og verkefnum þeirra. Með framgöngu okkar og orðræðu erum við að tala fyrir betra lífi, sanngjarni dreifingu auðæfa, hjálpsemi, samkennd og samvinnu. Og því að enginn sé skilinn eftir í hjálparleysi.

Á aðalfundi Sameykis síðastliðið vor samþykktu félagsmenn meðal annars ályktanir sem snúa að auðlindum í þjóðareigu og þeirri kröfu að eignaréttur þjóðarinnar verði tryggður til heilla fyrir allan almenning, en ekki til auðsöfnunar fárra. Þar var einnig fjallað um spillingu og misbeitingu valds í þágu einkahagsmuna. Þar var einmitt bent á rannsóknir sem sýna að spillingin á Íslandi þrífst helst í kringum auðlindir þjóðarinnar og stjórnmálin í landinu. Einnig var á aðalfundinum rætt um nauðsyn þess að stjórnvöld og atvinnurekendur horfist í augu við skakkt verðmætamat samfélagsins á kvennastörfum og að gripið verði til aðgerða til að útrýma misréttinu sem af því hlýst. Og í umræðunni um umhverfismál og réttlát orkuskipti leggur Sameyki áherslu á að stjórnvöld verði við þeirri kröfu verkalýðshreyfingarinnar að saman verði unnið að stefnu um réttlát orkuskipti hér á landi í þríhliða samstarfi stjórnvalda, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda.

Kosningabaráttan um jafrétti, sanngirni og jöfnuð mun halda áfram þó að kosningum til Alþingis sé nú lokið. Baráttan fyrir hagsmunum almennings heldur áfram og í allri framgöngu okkar þá erum við að greiða því atkvæði í hvers konar samfélagi við viljum lifa.

Kjósum því rétt!

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)