Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. október 2021

Stytting vinnuvikunnar gengin í garð

Guðmundur Freyr Sveinsson deildarstjóri kjaradeildar hjá Sameyki skrifar grein í tímarit Sameykis um styttingu vinnuvikunnar.

Í aðdraganda síðustu kjarasamninga haustið 2018 ríkti gríðarleg samstaða meðal samninganefnda þáverandi félaga SFR og St.Rv. um að stytting vinnuvikunnar væri eitt helsta baráttumál félaganna. Auk þess voru félagar innan annarra stéttarfélaga BSRB á sama máli og úr varð að allir lögðust á eitt að ná þeim markmiðum í gegn. Eftir um 30 mánaða þrautagöngu við samningaborðið tókust að lokum samningar í skugga upphafs Covid tíma á Íslandi, þ.e. í febrúar og mars 2020, um umfangsmestu breytingar á vinnutíma starfsmanna frá því á 8. áratug síðustu aldar. Markmið samninganna var að færa fjölda vinnustunda úr 40 stundum á viku í 36 með undangengnu samráði og umbótaferlum á hverjum vinnustað fyrir sig. Síðasti vetur var að því leyti undirlagður af þessari vinnu en innleiðing styttri vinnuviku dagvinnufólks var áætluð 1. janúar 2021 og vaktavinnufólks 1. maí 2021.

 

Flestar stofnanir ríkis og Reykjavíkurborgar styttu í 36 klst.
Varðandi dagvinnuna var gert ráð fyrir umbótaferli á hverjum vinnustað fyrir sig þar sem stjórnendur og starfsmenn skipuðu vinnutímanefndir sem fylgdu ákveðnu ferli við vinnuna sem gefið var út af sérstakri verkefnastjórn sem aðilar samninganna höfðu skipað. Í því ferli var lögð rík áhersla á þátttöku allra starfsmanna. Kjarasviðið skipulagði að því tilefni námskeið fyrir trúnaðarmenn til að kynna ferlið en samkvæmt því áttu tillögur um styttingu að vera útfærðar á hverjum vinnustað og kosið um þær þannig að niðurstöður lægju fyrir 1. október. Í ljós kom að vinnustaðir náðu sjaldnast að standa við þá áætlun og reyndi því töluvert á félagið og trúnaðarmenn að þrýsta ferlinu áfram með það að markmiði að innleiðing styttingar tækist 1. janúar. Þegar fór að líða nær áramótum fóru jákvæðar fréttir að berast og reyndin varð sú að langflestar stofnanir ríkis og Reykjavíkurborgar náðu að stytta vinnuvikuna niður í 36 klst. en því miður bárust fréttir til BSRB af lakara gengi meðal stofnana á vegum nokkurra sveitarfélaga víðsvegar um landið.

 

Störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari
Varðandi vaktavinnuhópinn þá var staðan öðruvísi að því leyti að ekki þurfti að ná sérstöku samkomulagi á hverjum vinnustað fyrir sig heldur tóku gildi umfangsmiklar breytingar á heildarmynd kjarasamninga þar sem það er tryggt að vinnuvikan fer í 36 klst. og allt niður í 32 klst. fyrir þá sem eru með þyngstu vaktabyrðina. Launamyndun breyttist á sama tíma og tekur nú meira mið af vaktabyrði en áður þar sem vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks hefur unnið hlutastörf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika þeirra til að vinna hærra starfshlutfall. Markmið kerfisbreytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta vinnu og einkalíf þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari um leið og byggt er undir aukinn stöðugleika í mönnun vaktavinnustaða.

 

Starfsfólk fái notið ávinnings af styttri vinnutíma
Tíminn framundan mun snúast um eftirfylgni og áframhaldandi formfestu um þær miklu breytingar sem orðið hafa á vinnutíma starfsmanna í opinbera geiranum til að tryggja að öll markmið samninganna nái fram að ganga. Sú vinna sem unnin hefur verið á þessu sviði fór nær öll fram í skugga Covid áhrifa þar sem erfitt var að ná fólki saman vegna sóttvarna og hafði óneitanlega mikil áhrif á framvindu og framgang umbótaferla. Það má því segja að töluverðar vonir séu bundnar við komandi vetur að því leyti að áhrif Covid verði með sem allra minnsta móti og að starfsfólk og vinnustaðir fái að njóta ávinnings styttri vinnutíma til hins ýtrasta.

Allar nánari upplýsingar um styttingu vinnuvikunnar má finna á heimasíðu stýrihóps um verkefnið undir slóðinni betrivinnutimi.is 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)