Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. desember 2021

Ertu giggari?

Mikilvægt er heilbrigt vinnusamband við launafólk sem tryggir því sjálfsögð réttindi á vinnumarkaði. Norræna velferðarmódelið byggir nefnilega á því að á vinnumarkaði ríki jafnivægi sem eykur velsæld allra þegar rétt er gefið.

Eftir Axel Jón Ellenarson, kynningarfulltrúa hjá Sameyki.

 

Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands og Herdís Pála Pálsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri hjá Deloitte á Íslandi sendu nýverið frá sér bókina Völundarhús tækifæranna. Þar fjalla þær um byltingu svonefndra giggara á vinnumarkaði eins og nú er í tísku að kalla verktaka.

 

Verktaki þá, giggari nú
Í Morgunútvarpinu á RÁS 2 var fjallað um fyrirbærið giggara og sögðu þær að orðið giggari virtist strjúka sumum öfugt og einhverjir ættu erfitt með að skilja hvað í því felist. „Við höfum verið að nota orðið verktaki og sjálfstætt starfandi en nú er komið orðið giggari,“ segir Herdís og lýsir giggi sem afmörkuðu tímasettu verkefni. „Það er vel skilgreint og hefur upphaf og endi, þannig að giggari er kannski eitthvað sem hefur verið til mjög lengi en við höfum kallað það annað. Sífellt eru að opnast fleiri möguleikar yrir giggara þar sem vinnuveitendur kjósa að þiggja þjónustu þeirra.“

Niðurstöður Árelíu Eydísar og Herdísar Pálu sýna að ánægja ríkir meðal þeirra sem hafa giggað í afmörkuðum verkefnum í stað þess að vera í föstu starfi. „Menn voru búnir að ná að skapa sér öryggi og tekjuflæði, og eins og einn orðaði það: „Ég ræð hvar ég er hverja stund og hvað ég er að gera,“ segir Árelía um upplifun margra af svokölluðum „gigg-störfum“.

 

Vinnuafl sem hilluvara
Í viðtalinu er vitnað í mikinn vöxt á giggurum sem njóta ekki sömu réttinda og launafólk á vinnumarkaði; í Bretlandi, Bandaríkjunum, Japan og víðar. Þarna ríkja viðhorf um að atvinnurekendur geti ráðið og rekið fólk á vinnumarkaði með sama hætti og venjulegt fólk verslar sér vöru úr hillu stórmarkaða. Enn fremur kom fram að þarna liggur vöxturinn á vinnumarkaði, í gerviverktöku. „15,2 prósent af evrópskum vinnumarkaði eru giggarar. Þarna liggur vöxturinn og við erum að halda því fram, og þeir sem eru að skoða vinnumarkaðinn, að þarna verðum við að mestu leyti eftir 10-15 ár og það er eins gott að við förum að undirbúa okkur,“ sagði Herdís Pála.

 

Ábyrgð atvinnurekenda engin
Giggari er það sem kallað er verktakar eða gerviverktakar. Hugtakið er gamalt og vinnufyrirkomulagið er mjög þekkt hér á landi sem og annars staðar í veröldinni. Því hefur verið haldið fram að verktakar, þ.e. þeir einstaklingar sem sinna verkefnum hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum án þess að vera á launaskrá njóti kjara og frelsis framyfir venjulegt launafólk en þegar betur er að gáð er það alls ekki raunin. Hætta er á að verktakar sem hafa starfað á sömu stofnuninni í áratugi við slíkt vinnusambandsfyrirkomulag án þess að greiða í sameiginlega sjóði launafólks hafi ekki nein réttindi á við vinnufélaga sem eru í ráðningarsambandi við vinnustaðinn. Það er hrein og klár gerviverktaka og þeir sem eru í þeirri stöðu eru réttindalausir giggarar. Þegar kemur að því að gerviverktakinn fer á lífeyrisaldur er mikil hætta á því að hann falli í fátæktargildru. Hér er um að ræða vinnusamband þar sem verktakinn vinnur að ákveðnum verkefnum en nýtur engra réttinda. Að sama skapi ber atvinnurekandinn enga ábyrgð á þeim sem starfar fyrir hann í verktöku. Þannig verður gerviverktakinn, eða giggarinn, af réttindum sem annað launafólk nýtur; orlofsrétti, veikindarétti, lífeyrisrétti, styrkjum úr sjóðum stéttarfélaga og öðru sem fylgir því að vera í stéttarfélagi.

 

Norrænn vinnumarkaður fyrirmyndin
Það hljómar vel þegar maður er ungur að vinna eins og mann langar til. Taka frí þegar manni hentar og vera giggari. Vinna á kvöldin en ekki á daginn, jafnvel á nóttunni og þar fram eftir götum. Við þessu vinnusambandi giggarans og vinnuveitenda þarf að gjalda varhug. Samningar stéttarfélaga við vinnumarkaðinn er lykilþáttur í að tryggja að launafólk njóti mikilvægra réttinda á borð við þau sem nefnd eru hér að ofan. Ef til vill er orðið tímabært að tryggja réttindi giggaranna eða gerviverktakanna t.d. með því að treysta stöðu þeirra gagnvart atvinnurekendum þannig að þeir njóti sömu réttinda á vinnumarkaði eins og annað launafólk. Giggarar eru gerviverktakar sem hafa engin réttindi gagnvart vinnuveitanda og vinnuveitandi ber enga ábyrgð gagnvart þeim. Það er áhyggjuefni að talað sé fyrir slíku vinnusambandi. Mikilvægt er að koma á heilbrigðu vinnusambandi við launafólk og tryggja því sjálfsögð réttindi á vinnumarkaði. Norræna velferðarmódelið byggir nefnilega á því að á vinnumarkaði ríki jafnivægi sem eykur velsæld allra þegar rétt er gefið. Atvinnurekendur mega aldrei komast upp með það að umgangast launafólk eins og einnota hilluvöru.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)