Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. desember 2021

Trúnaðarmenn þurfa að vera á tánum

„Dansinn gegnir því mikilvægu hlutverki sama hvort það sé til helgisiða, kátínu, Tik Tok eða listfengis. Hann tengir og hreyfir við fólki og spilar oft á djúpa tilfinningastrengi sem erfitt er að lýsa ...“

Eftir Andrean Sigurgeirsson

Þegar mér barst sú tilnefning að gerast varatrúnaðarmaður Íslenska dansflokksins ákvað ég að ríða á vaðið. Ákvörðun mín um að taka við þessari ábyrgð var því ekki vegna þess að ég hefði einhvern sérstakan áhuga á kjaramálum og stéttarfélögum. Á þeim tíma var ég býsna ólæs á allt stofnanamál og hafði í rauninni ekki hugmynd um hver mín réttindi væru, hvar stéttarbaráttan stæði né hvers konar stuðning og þjónustu stéttarfélagið hefði upp á að bjóða. Þetta var því kjörið tækifæri til þess að kynna mér málin og læra. Það sem ég hafði upp á að bjóða var að vera ágætur í mannlegum samskiptum, sem ég tel vera mikilvægasta eiginleika trúnaðarmannsins sem og hlustun, traust og næmni.


Skýrðist hægt og rólega
Hægt og rólega, eftir því sem oftar var að leitað til mín, varð þetta allt skýrara. Samningarnir urðu skiljanlegri og yfirsýnin varð meiri. Ég fór að átta mig meira á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir réttindum okkar og gæta þess að samningum, siðareglum og loforðum sé framfylgt. Við þurfum nefnilega alltaf að vera á tánum því það er alltaf hægt að gera betur.

Í dag er ég trúnaðarmaður dansara og æfingastjóra flokksins og ég reyni að sinna því starfi af fyllstu alúð. Það er dýrmætt að geta verið samstarfsfólki sínu til halds og traust og í raun er það aðalástæðan fyrir því að maður er að þessu. Við hjá Íslenska dansflokknum erum lítill vinnustaður sem bæði getur verið bölvun og blessun. Stofnanasamningarnir eru flóknir þar sem starf dansarans er fjölbreytt og krefjandi. Við erum í senn listamenn og afreksíþróttafólk. Lífstíminn er stuttur, enda eldist líkaminn þó svo sálin sé enn þá ung og forvitin.


Kjör og réttindi dansarans
Dansinn hefur alltaf fylgt mannkyninu og í raun eru flestir farnir að dilla sér í lendunum áður en fólk lærir að ganga. Dansinn gegnir því mikilvægu hlutverki sama hvort það sé til helgisiða, kátínu, Tik Tok eða listfengis. Hann tengir og hreyfir við fólki og spilar oft á djúpa tilfinningastrengi sem erfitt er að lýsa, eitthvað sem leiklistinni eða öðrum listformum tekst oft ekki. En vegna þeirrar staðreyndar að dansinn krefst ekki talmáls og er oftast tjáður af hópi, gleymist hann oft í umræðunni. Undirbúningur dansferilsins hefst oft frá blautu barnsbeini og fólk undirgengst margra ára þjálfun, allskyns sérþjálfun og strangt nám til þess að eiga einhvern séns í harða dansheiminum. Kjör og réttindi dansarans eiga að endurspegla þennan mikla undirbúning, dugnaðinn, þrautseigjuna, líkamlega álagið, tímabundna ferilinn og þá mikilvægu speglun sem að eini dansflokkur landsins hefur á íslenskt samfélag.

Sameyki hefur staðið sína plikt vel ásamt okkur dönsurum flokksins. Við stöndum loks jafnfætis leikurum í kjaramálum og við erum þakklát fyrir alla þá aðstoð og leiðsögn sem Sameyki hefur veitt með mótun stofnanasamnings okkar og betrumbóta á vinnuumhverfi okkar.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)