Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. október 2022

Vífils­staðir: Press 1 for English

Annar aðilinn, sá sem þjónustuna veitir, talar ensku. Hinn aðilinn, sjúklingurinn roskni, sem aldrei lærði ensku í skóla, talar sitt ástkæra, ylhýra móðurmál.

Jæja, en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur falið einkafyrirtækinu Heilsuvernd að reka Vífilsstaði, eins og kunnugt er. Þetta fyrirtæki birti heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu um helgina. Fyrirtækið vill framúrskarandi og jákvætt fólk til starfa sem skapi glaðlegt og gott vinnuumhverfi. Í ENSKU MÁLSAMFÉLAGI!!

Eftir Kristófer Inga Svavarsson

I.

Vífilsstaðir, Öldrunardeild H Landspítala, eru fjölþjóðlegt samfélag starfsmanna sem veita 42-45 rosknum Íslendingum aðhlynningu, sinna þeim á allan hátt, allan sólarhringinn, þörfum líkama og sálar. Obbinn af þessum vistmönnum er fólk sem fæddist fyrir 17. júní 1944, þótt lýðveldisbörnum fjölgi óðum í röðum þessara skjólstæðinga því „enginn stöðvar tímans þunga nið“.

Þetta samfélag er íslenskt.

Sjúklingarnir eru nær allir íslenskir, móðurmál þeirra er íslenska. Þar eru ömmur sem kenndu börnum sínum, og oft barnabörnum, fyrstu orðin; dagur og nótt, ást, vinátta, blíða, kærleikur, örlæti, tryggð og hollusta. Svo eitthvað sé nefnt. Þar eru rosknir karlar sem stunduðu sjóinn, erjuðu jörðina, óku vörubílum, fluttu fréttir, byggðu hús og lögðu vegi. Og tjáðu sig á íslensku.

Flestir starfsmenn Vífilsstaða eru útlendingar sem tala íslensku við skjólstæðinga sína, enda væri annað fráleitt. Ágætisfólk frá Filippseyjum og Færeyjum, Taílandi og Indlandi, Rómönsku Ameríku og Úkraínu, Póllandi og Indlandi, Srí Lanka og Serbíu, Kína og Keníu, Nepal og Noregi.

Landspítalinn ræður þetta fólk því aðeins í vinnu að það skilji sjúklingana og þeir skilji það. Allt annað væri glundroði. Gremja á einum stað, farsi á öðrum, enda byggja flestir gamanleikir á endalausri röð fáránlegra atvika, þar sem allir misskilja alla.

Landspítalinn hefur því kostað íslenskunám erlendra starfsmanna sinna. Þannig hafa þeir stundað íslenskunám hjá Mími símenntun. Þar er kenndur grunnur íslenskrar tungu auk starfstengds orðaforða.

II.

Maður er nefndur Ármann Jakobsson. Ármann er formaður Íslenskrar málnefndar. Þann 19. þessa mánaðar birti Ármann ritsmíð þar sem hann viðraði áhyggjur sínar af þessum hornsteini íslenskrar menningar og sjálfstæðis; þjóðtungunni. Eftir að hafa prísað sig sælan að búa á Íslandi þar sem allir una glaðir við sitt og „engin pólitísk kreppa ríkir“ segir hann:

„Það merkir þó ekki að engar hættur steðji að fullveldi Íslands og mesta hættan felst í því að þrengt er að íslensku af ofurvaldi ensku en Íslendingar hafa verið deigir við að kenna nýjum íbúum íslensku þó að það sé mannekla á landinu eins og bent hefur verið á. Auðvitað tala nýir íbúar landsins ekki íslensku frá upphafi og ef ekki verður tekið á er hætt við að litlir hvatar verði til að þeir læri málið. Þar með er sjálfstæði Íslands auðvitað ógnað því að ef íslensk tunga og íslensk menning hverfur fækkar mjög rökunum fyrir því að þessi fámenna þjóð sé sjálfstæð. Hér fer því ótvírætt mesta ógn sem hefur stafað að sjálfstæði Íslands seinustu áratugi.“

III.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætti að kynna sér þessa ritsmíð. Hún fetar sig hægt og varlega áfram stíginn ekki aðeins að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, heldur enskuvæðingu þess. Einkavæðing er reyndar orð sem vekur hlýju og vellíðan hjá þorra Íslendinga eftir farsæla og árangursríka einkavæðingu bankakerfisins á sínum tíma. Glitnir, Kaupþing, Icesave, sællar minningar. Og enn er verið að. Íslandsbanki, sei, sei, jú, mikil ósköp! Og mikið vill meira, ágirndin er óseðjandi, matarholan er mörg. Vífilsstaðir í dag, Nýi Landspítalinn ohf. á morgun!

Jæja, en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur falið einkafyrirtækinu Heilsuvernd að reka Vífilsstaði, eins og kunnugt er. Þetta fyrirtæki birti heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu um helgina. Fyrirtækið vill framúrskarandi og jákvætt fólk til starfa sem skapi glaðlegt og gott vinnuumhverfi. Í ENSKU MÁLSAMFÉLAGI!!

Því aðeins er tekið fram að sjúkraliðar og iðjuþjálfar þurfi að kunna móðurmálið; hafa gott vald á íslensku, mæltu máli og rituðu. Forstöðumaður kunni bæði íslensku og ensku. Ekkert er minnst á íslenskukunnáttu hjúkrunarfræðinga og í dálkinum um þá sem eiga að veita almenna umönnun og aðhlynningu stendur þetta um menntunar- og hæfnikröfur:

„Góð íslenskukunnátta og/eða enskukunnátta, skrifuð og töluð.“

Eða enskukunnátta! Alkunna er að allur þorri starfsmanna í öldrunarþjónustu á Íslandi er útlendur og ófaglærður. Á Vífilsstöðum eru íslenskir sjúkraliðar teljandi á fingrum annarrar handar, óbreyttir fótgönguliðar bera hita og þunga samskipta og þjónustu við skjólstæðingana. Meira en helmingur aðflutt prýðisfólk.

En framvegis gætu samskiptin orðið dálítið stirð. Annar aðilinn, sá sem þjónustuna veitir, talar ensku. Hinn aðilinn, sjúklingurinn roskni, sem aldrei lærði ensku í skóla, talar sitt ástkæra, ylhýra móðurmál.

Starfsmaður: Good morning here! Rise and shine!

Sjúklingur svarar: Góðan og blessaðan daginn!

Starfsmaður: To be or not to be - that is the question.

Sjúklingur svarar: Því Gunnar vildi heldur bíða hel, en horfinn verða fósturjarðar ströndum ...

Og vilji menn ræða heimsmálin, til að mynda hernaðarbrölt Pútíns í Úkraínu:

Starfsmaður: „Lo! thy dread empire, Chaos! is restored;

Light dies before thy uncreating word;

Thy hand, great Anarch! lets the curtain fall,

and universal Darkness buries All.“

Hverju sjúklingur svarar:

„Og berjist þeir og berjist

og brotni og sundur merjist,

og hasli völl og verjist

í vopnabraki og gný.

Þótt borgir standi í báli

og beitt sé eitri og stáli,

þá skiptir mestu máli

að maður græði á því.“

IV.

Til þessa hefur markmið heilbrigðiskerfisins verið þjónusta þjónustunnar vegna. Innheimtumaður ríkissjóðs, Bjarni Benediktsson, eða einhver annar skattmann, hirðir drjúgan hluta af tekjum almennings. Almenningur muldrar kannski, en sættir sig við þetta kerfi í trausti þess að skatturinn sé eins konar trygging. Fólk stundar nám, fólk veikist, fólk eldist. Skattféð stendur straum af þjónustu sem fólk þarf vegna þess arna.

Markmið einkafyrirtækis í rekstri er hins vegar ágóði. Menn fjárfesta í bönkum, byggingarfyrirtækjum og síldarbræðslum til að græða. Þegar heilbrigðiskerfið er einkavætt taka heilbrigðisfyrirtæki við af heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er vitaskuld að fjárfestar hafi tekjur af sjúklingunum.

Hægri stjórn, eins og sú sem nú fer með völd á Íslandi, ríkir fyrir þá sem vilja hámarksávöxtun af braski sínu. Þessa sér strax stað í ofannefndri auglýsingu. Þannig er það fundið fé að kosta ekki starfsmenn til náms í íslensku, það er ansans ári dýrt! Og ef velviljað ríkisvald lætur svo í té húsnæði, tæki og tól, lyf og jafnvel eitthvað af launakostnaði, þá má búast við að glatt verði á hjalla á næsta hluthafafundi Vífilsstaða!

Svo eykur það vitaskuld hagnað þessa einkafyrirtækis að skera niður þjónustu, mat, drykk og annað. Má þá kannski búast við því að ljósin verði slökkt klukkan 8 á kvöldin og hafragrauturinn naumt skammtaður á morgnana? Þótt ekki sé mikið yki það ágóðahlut fjárfesta. Smáframlag í púkkið.

„... þá skiptir mestu máli/að maður græði á því.“

Höfundur er trúnaðarmaður Sameykis á Vífilsstöðum.

Pistillinn birtist fyrst á visir.is

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)