Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. desember 2022

Kaupmáttarrýrnun er stefna ríkisstjórnarinnar

Þóarinn Eyfjörð formaður Sameykis.

„Ríkisstjórn íhalds og nýfrjálshyggju leggur til að rekstur samfélagsins, innviðanna, komi lóðbeint úr launaumslagi almennings á sama tíma og verðmætustu eignir okkar eru afhentar útvöldum.“

Við ætlum ekki skemma jólahátíðina fyrir fólki ... þó auðvitað viljum við sjá að fari að hægja á.“ Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í fréttum eftir að hafa þrengt að kaupmætti almennings með tíundu stýrivaxtahækkun sinni í röð. Stýrivaxtahækkanir koma verst niður á ungum barnafjölskyldum og láglauna- og millitekjufólki sem er að reyna að koma sér upp heimili og byggja bjarta framtíð. Frábært útspil Seðlabankans í miðjum kjarasamningsviðræðum á almennum markaði. Húrra fyrir þér!

Hverjir bera ábyrgð á þessari hókuspókushagstjórn sem bitnar verst á almennu launafólki? Það er auðvitað ríkisstjórnin og ráðherrar hennar ásamt seðlabankastjóra, þó hann vilji skella skuldinni á tásueigendur á Tene. Fólkið í fílabeinsturninum hefur engan áhuga á högum almennings og heldur því fram í sínum bergmálshelli að þjóðin liggi afvelta undan ströndum Afríku takandi tásumyndir af sér á snjallsímana sína. Þetta segir Ásgeir Jónsson að sé raunveruleikinn hjá þjóðinni og það stjórni stýrivaxtahækkunum hans með góðfúslegu samþykki Katrínar & Co.

Nú hækkar matvöruverð og einnig húsnæðislán. Rekstur heimilanna rýkur upp og laun duga ekki til framfærslu. Fjórða hvert heimili í landinu, rúmlega 38 þúsund manns, áttu erfitt með að ná endum saman árið 2021 og hvað þá nú. Í þessum hópi eru m.a. 52 prósent heimila einstæðra foreldra á Íslandi. Kjarasamningar eru að sigla í strand og stjórnvöld sem eiga að bera ábyrgð á ríkisfjármálum henda þeirri ábyrgð á almenning. Á sama tíma eru tekjustofnar ríkisins vannýttir; bankaskattar, fjármagnstekjuskattar, auðlegðarskattar, hvalrekaskattar og hækkun auðlindagjalda. Ríkisstjórn íhalds og nýfrjálshyggju leggur til að rekstur samfélagsins, innviðanna, komi lóðbeint úr launaumslagi almennings á sama tíma og verðmætustu eignir okkar eru afhentar útvöldum. Það er vaðið áfram á móti þjóðarvilja og mjólkurkúnum slátrað. Íslandsbanki hagnaðist um rúma 30 milljarða 2020 og 2021. Þennan hagnað ætlar Bjarni Benediktsson að færa útvöldum til framtíðar. Húrra fyrir þér!

„Þetta er að ganga hægar en við höfðum vonað og gengið hefur aftur veikst sem er vegna viðskiptahalla,“ sagði seðlabankastjórinn um leið og hann kynnti metnaðarfulla áætlun um að reita krónurnar af launafólki til að færa bönkunum. Nú skal beita aðferðum sem duga og setja almenningi stólinn fyrir dyrnar; það verða engar fleiri tásumyndir frá Tene! Þá hækka ég stýrivextina bara enn meira og þið skuluð nú fá að kaupa nauðsynjavörur á alveg nýju verði; rándýrara smjör, rándýrara brauð og rándýrara álegg út í búð – því allar þessar hækkanir velta út í vöruverð og almennt verðlag.

Það er með miklum ólíkindum að stjórnvöld hagi sér nú eins og þeim komi ekki við hvað er að gerast á vinnumarkaði. Flestallir kjarasamningar eru að losna á næstu fjórum mánuðum og stærstu stéttarfélög landsins eru núna í viðkvæmum kjarasamningsviðræðum á almennum markaði. Ef núverandi stjórnvöld hefðu einhvern snefil af áhuga á að styrkja samfélag okkar á þessari stundu, myndu þau kynna metnaðarfullar aðgerðir til að vernda þá verst stöddu í samfélaginu, hugmyndir um stórtækar aðgerðir í húsnæðismálum, gagngerar breytingar á skattkerfinu og á tekjulíkani ríkis og sveitarfélaga, umpólun á auðlinda- og fiskeldisgjaldi, o.fl., o.fl. En ríkisstjórnin hefur enga framtíðarsýn fyrir almenning í landinu. Hennar áhugi beinist að því að hlaða meira og hraðar undir ríka og fína fólkið og koma í veg fyrir þann óþverra að almenningur skuli mynda tærnar sínar á Tene.

Húrra fyrir ykkur!

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)