Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. október 2023

Kjarasamningar, samfélag og hamingja

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

Kjarasamningarnir framundan verða væntanlega flóknir og erfiðir. Þær vonir sem stéttarfélög og launafólk batt við ríkisstjórn og atvinnurekendur eru foknar út í veður og vind og ekki að sjá að ríkisstjórnin hafi áhuga á að undirbúa jarðveginn fyrir góðar hugmyndir sem hægt væri að sameinast um og byggja upp samstöðu.

Eftir Þórarin Eyfjörð

Sól fer nú lækkandi á lofti og kjarasamningsvetur nálgast. Ljóst er að næstu mánuðir verða að mörgu leyti endurtekið efni frá síðasta vetri. Þá tóku kjarasamningar mið af því að hagkerfið var ekki að vinna með okkur, stríð og orkukreppa í Evrópu, húsnæðismarkaðurinn og stýrivextir í fordæmalausu hækkunarferli o.s.frv., o.s.frv. Vinnumarkaðurinn setti stefnuna á skammtímasamninga til að gefa stjórnvöldum og aðilum markaðarins tækifæri til að taka á vandanum, grípa til aðgerða og koma böndum á verðbólguna. Þá væri hægt í komandi kjarasamningum að líta til lengri tíma því búið væri að ná tökum á ástandinu – en svo er það nú aldeilis ekki. Maður skyldi ætla að í þeim vandasömu verkefnum sem þjóðin stendur nú frammi fyrir, myndu Seðlabankinn og ríkisstjórnin vinna saman að því að tryggja hagsmuni almennings með róttækum, samhæfðum aðgerðum, sem sérstaklega myndu gagnast launafólki, barnafjölskyldum, öldruðum og þeim sem minna mega sín. Það yrði gert með afgerandi verkefnum í millifærslukerfunum okkar og fjármagnað með bankaskatti, verulegri hækkun auðlindagjalda, skattheimtu á stóriðjuna og hvalreka- og auðlegðarskatti. Með öðrum orðum að ríkið myndi ná í sanngjarnan hlut þeirra auðæfa sem til eru í landinu og nota þær tekjur til að koma traustu öryggisneti þangað sem þörfin er mest. Svo ekki sé talað um að koma fjármagnstekju- og arðgreiðslusköttum á eitthvert vitrænt stig, sem þá yrðu um leið notaðir til að fjármagna sveitarfélögin og þeirra mikilvæga hlutverk í gangverki samfélagsins.

Kjarasamningarnir framundan verða væntanlega flóknir og erfiðir. Þær vonir sem stéttarfélög og launafólk batt við ríkisstjórn og atvinnurekendur eru foknar út í veður og vind og ekki að sjá að ríkisstjórnin hafi áhuga á að undirbúa jarðveginn fyrir góðar hugmyndir sem hægt væri að sameinast um og byggja upp samstöðu. Þvert á móti hefur fjármálaráðherra kynnt áform ríkisstjórnarinnar um 17 milljarða hagræðingu í rekstri stofnana (lesist: niðurskurður) og þar af eigi að lækka launakostnað um 5 milljarða. Þessum markmiðum á meðal annars að ná með uppsögnum á starfsfólki. Þetta eru afar sérstök skilaboð inn í kjaraviðræður og athyglisverðar þakkir frá ríkisstjórninni til þess fólks sem stóð vaktina í að verja samfélagið okkar í þeim versta faraldri sem þjóðin hefur upplifað í langan tíma.

Í stóra samhenginu er einnig hollt að líta aðeins á hvernig núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig í að gera samfélagið okkar sterkara, stuðla að betri lýðheilsu og heilbrigði. Að ógleymdu því mikilvæga verkefni að treysta samfélagið allt, því traustar undirstöður eru forsenda árangurs til lengri tíma og stuðla að samheldni og samstöðu. Árið 2017 töldu 21,2% fullorðinna landsmanna andlega heilsu sína sæmilega eða lélega. Árið 2022 var það hlutfall komið upp í 32,6%. Fyrir ekki svo ýkja löngu töldu 80% fullorðinna landsmanna sig hamingjusama. Þetta hlutfall var komið niður í 55,7% á síðasta ári. Árið 2017 áttu 12,3% fullorðinna erfitt með að ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Árið 2022 var þetta hlutfall komið í 15,5%. Þessar breytingar til hins verra eru ekkert annað en hamfarir. Væru stjórnvöld yfirleitt vakandi myndu þau grípa til neyðaraðgerða til að spyrna við fótum í þessari þróun. Hér spilar allt saman; afkoma, fjárhagsáhyggjur, fjársvelt velferðarkerfi, spilling valdastéttarinnar og grímulaus einkavinavina- og fjölskylduvæðing sameiginlegra eigna þjóðarinnar.

Að líkindum mun reyna verulega á í kjarasamningunum í vetur. Á öllum tímum er samstaðan sterkasta vopn almennings til að breyta samfélaginu, stokka spilin og gefa upp á nýtt. Aðstæður núna kalla á nauðsyn þess að hagsmunasamtök launafólks standi þétt saman og nái árangri sem vonandi getur lagt grunn að vaxandi velsæld þjóðarinnar og spornað gegn þeirri óheillavegferð sem núverandi stjórnvöld hafa markað sér.

Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og 1. varaformaður BSRB.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)