Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. febrúar 2025

Kulnun á íslenskum vinnumarkaði

Kulnun er heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Mynd gerð af gervigreindarfottir/AI

„Aðrar þjóðir sem notað hafa sama mælitæki til að meta kulnunareinkenni hafa birt tölur á bilinu 6,6% (Finnland) til 25,7% (Japan) varðandi mikla hættu á kulnun. Þessar niðurstöður á íslenskum vinnumarkaði benda því til að við séum nokkurn veginn fyrir miðju af þeim löndum sem hafa birt niðurstöður sambærilegra rannsókna.“

Eftir Guðrúnu Rakel Eiríksdóttur

Undanfarin ár hefur mikið verið fjallað um kulnun hér á landi. Haustið 2020 var sett af stað þróunarverkefni innan VIRK tengt kulnun. Upphaf verkefnisins má að mörgu leyti rekja til aukinnar umræðu um þennan vanda á íslenskum vinnumarkaði. Í þessu samhengi þótti mikilvægt að skýrt lægi fyrir hvað átt er við með hugtakinu kulnun, ekki síst til að tryggja þeim einstaklingum sem eru að takast á við slíkan vanda þjónustu við hæfi og tryggja jafnframt viðeigandi forvarnir.

 

Skilgreining kulnunar samkvæmt WHO
Í íslensku heilbrigðiskerfi er stuðst við alþjóðlegt flokkunarkerfi sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála sem gefið er út af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) 1,2. Samkvæmt WHO er skilgreining kulnunar eftirfarandi:

Kulnun er heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Einkenni kulnunar eru á þremur víddum: 1) Orkuleysi eða örmögnun; 2) Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað; 3) Minni afköst í vinnu. Kulnun vísar til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að vera nýtt til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins.

Í skilgreiningu WHO er einnig komið inn á mikilvægi þess að mismunagreina, þ.e. að meta hvort einkenni geti betur skýrst af öðrum orsökum. Þannig er mögulegt að veita rétta og viðeigandi meðferð. Þegar kulnun er ein meginástæða tilvísunar í starfsendurhæfingu skoða sérfræðingar hjá VIRK beiðni læknis, svör einstaklinga á rafrænum spurningalista og í sumum tilvikum er haft samband við einstaklingana sjálfa til að fá nánari upplýsingar um aðstæður þeirra og líðan. Að því loknu eru þær upplýsingar sem liggja fyrir speglaðar við ofangreinda skilgreiningu WHO á kulnun.

Árið 2024 bárust VIRK alls 3774 beiðnir um starfsendurhæfingu og af þeim heildarfjölda beiðna voru 341 sem flokkuðust í kulnunarverkefnið. Eftir nánari skoðun sérfræðinga hjá VIRK uppfylltu 5% af heildarfjölda beiðna sem bárust VIRK viðmið WHO fyrir kulnun í starfi. Á þessum tímapunkti hefur VIRK safnað tölfræði yfir fjögur almanaksár eða frá árinu 2021 til 2024 (sjá mynd 1).

Þó svo að WHO hafi þrengt skilgreiningu á kulnun og tengt hana vinnustaðnum þá dregur það ekki úr vanda margra einstaklinga sem kljást við heilsubrest og erfiðar aðstæður af ýmsum toga. Margir sem leita til VIRK með heilsufarsvanda eru til dæmis að takast á við afleiðingar áfalla eða langvarandi álags vegna streituvalda sem ekki eru vinnutengdir. Þá er mikilvægt að veita þjónustu í samræmi við þann vanda sem er til staðar.

Athygli skal vakin á að hér að framan er eingöngu verið að skoða beiðnir sem berast til VIRK og því varhugavert að draga af þessu ályktanir um fjölda einstaklinga sem glíma við einkenni kulnunar í samfélaginu. Ef tekið er mið af erlendum rannsóknum má gera ráð fyrir að talsverður fjöldi einstaklinga sem glímir við afleiðingar kulnunar þurfi ekki að leita til VIRK heldur nái fyrri heilsu og starfsgetu með öðrum leiðum, t.d. með aðstoð frá heilbrigðiskerfinu.

 

Algengi kulnunar á íslenskum vinnumarkaði
Í október 2023 var gerð rannsókn á algengi kulnunareinkenna á íslenskum vinnumarkaði út frá skilgreiningu WHO og þeim þáttum sem hafa verið notaðir í rannsókninni innan VIRK. Rannsóknin var samstarfsverkefni VIRK og Háskólans í Reykjavík í samvinnu við Gallup sem sá um framkvæmdina. Tæplega tvö þúsund þátttakendur svöruðu spurningalista sem skimar fyrir hættu á kulnun (e. burnout complaints). Til þess að meta þá hættu var mælitækið Burnout Assessment Tool (BAT)3 notað en listinn byggir á traustum fræðilegum grunni. Niðurstöður sýndu að 12,2% svarenda voru í mikilli hættu á kulnun, 12,7% svarenda voru í nokkurri hættu á kulnun og 75% mældust ekki í hættu á kulnun (sjá mynd 2).



Aðrar þjóðir sem notað hafa sama mælitæki til að meta kulnunareinkenni hafa birt tölur á bilinu 6,6% (Finnland) til 25,7% (Japan) varðandi mikla hættu á kulnun. Þessar niðurstöður á íslenskum vinnumarkaði benda því til að við séum nokkurn veginn fyrir miðju af þeim löndum sem hafa birt niðurstöður sambærilegra rannsókna.

Frumniðurstöður sýna svo ekki verður um villst hversu flókið samspil er á milli kulnunareinkenna og aðstæðna í umhverfi fólks. Ýmislegt bendir til þess að einstaklingar sem eru að glíma við flóknar aðstæður, sem mögulega eru tímabundnar, mælist í meiri hættu á að þróa með sér kulnun en aðrir einstaklingar. Sem dæmi má nefna að hlutfall þeirra sem flokkast í „mikla hættu á kulnun“ er rúmlega tvöfalt hærra hjá einstaklingum sem voru bæði í námi og vinnu borið saman við þá sem voru í hálfu eða fullu starfi. Niðurstöður rannsóknarinnar munu birtast í grein sem unnin verður í samstarfi við HR. Einnig verður ítarlega fjallað um niðurstöðurnar á morgunverðarfundi á vegum VIRK þann 13. febrúar næstkomandi.


Höfundur er sviðsstjóri forvarna hjá VIRK

Heimildir
1. World Health Organization. (1992). The ICD-10 classification of mental and behavioural disorders: Clinical descriptions and diagnostic guidelines.
2. World Health Organization. (2019). International statistical classification of diseases and related health problems (11th ed.).Sjá hér.
3. Schaufeli, W. B., De Witte, H. and Desart, S. (2020). Manual Burnout Assessment Tool (BAT) – Version 2.0. KU Leuven.