Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. febrúar 2025

Viltu vaxa á nýju ári?

Atóm á ferð um heilann. Mynd/AI

Eftir Ingibjörgu Hönnu Björnsdóttur

Hefur þú velt fyrir þér hvernig þú getur vaxið og dafnað í starfi og mætt framtíðinni af öryggi og krafti? Nú á dögum breytist vinnumarkaðurinn svo hratt að við þurfum öll að halda áfram að læra og þróast svo við missum ekki af lestinni. Það er þó ekkert að óttast – þvert á móti opnast ný og spennandi tækifæri á hverjum degi!

Þú getur styrkt stöðu þína og aukið starfsgleðina með því að tileinka þér vaxtarhugarfar og takast þannig á við nýjar áskoranir með opnum huga. Þá getur reynst vel að:

- hugsa greinandi og vera skapandi
- nýta sér aðgang að upplýsingum og gervigreind
- sýna leiðtogahæfni og hafa jákvæð félagsleg áhrif
- búa yfir seiglu og sveigjanleika
- halda forvitninni lifandi og læra eitthvað nýtt

Að taka ábyrgð á eigin starfsþróun getur verið valdeflandi. Starfsþróun snýst ekki aðeins um að sitja námskeið eða fara í skóla. Þú getur lært og þroskast með því að takast á við ný verkefni, bæta verklag, miðla þekkingu til samstarfsfólks eða stunda sjálfsnám. Þetta er ferðalag sem spannar allan þinn starfsferil.

Vaxtarhugarfar er dýrmætt veganesti á þessari ferð. Í stað þess að líta á hæfileika sem eitthvað óbreytanlegt sem við fæðumst með, felst í vaxtarhugarfari sú trú að við getum alltaf þróað okkur og aukið getu okkar. Þetta hugarfar hjálpar þér að læra af mistökum og gefast ekki upp þegar á móti blæs.

Þegar þú finnur einlægan áhuga og innri hvöt til að efla þig verður lærdómurinn bæði merkingarbærari og árangursríkari. Innri hvatning og vaxtarhugarfar styðja hvort annað, því bæði byggja á trú á eigin getu til að vaxa og dafna. Starfsþróun snýst um meira en einungis starfstengda færni – hún snýst líka um þig sem manneskju. Þegar þú eflir persónulega hæfni þína styrkist sjálfsmynd þín og þú öðlast meira sjálfstraust. Þú lærir betur að þekkja styrkleika þína og sóknarfæri, stjórna tilfinningum þínum og takast á við áskoranir. Þessi persónulegi þroski styður við faglega framþróun þína enda eru tilfinningagreind og sjálfsþekking orðnar lykilþættir á vinnumarkaði.

Stundum getur verið erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum og meta hvað skiptir þig mestu máli. Þá getur verið gott að ræða við ráðgjafa sem getur hjálpað þér að kortleggja hæfni þína og gildi, styrkleika og hindranir og skoða í sameiningu næstu skref í þinni starfsþróun.


Höfundur er ráðgjafi hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt