5. maí 2025
Frúin í Þórshöfn

„Að meðaltali skulda íslensk heimili rúmar 20 milljónir króna í húsnæðislán og greiða því rúma eina milljón króna meira í vexti á ári en frændur okkar í Færeyjum.“
![]() |
Eftir Breka Karlsson, |
„Litlu verður Vöggur feginn“ kom mörgum í hug þegar stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir úr 8% í 7,75%. Einungis í fjórum ríkjum Evrópu eru seðlabankavextir hærri en á Íslandi; í Tyrklandi, Rússlandi, Úkraínu og Belarús.
Verðbólga á Íslandi er 3,8% sem þýðir að raunvextir Seðlabankans, það eru vextir að teknu tilliti til verðbólgu, eru rúmlega 3,8%. Einungis í Rússlandi eru raunstýrivextir hærri.
Raunvextir Seðlabanka allra landa Evrópu, nema Rússlands, Íslands, Belarús og Tyrklands eru lægri en 2%, og vextir flestra seðlabanka Evrópu eru um eða innan við einu prósentustigi hærri en verðbólga.
Fyrir þau sem hafa gaman af samanburðartölfræði er miðgildi raunstýrivaxta í Evrópu 0,94% og meðaltal þeirra 1,41%. Þannig eru raunstýrivextir á Íslandi þrefalt til fjórfalt hærri en gengur og gerist í Evrópu.
Vissulega er baráttan gegn verðbólguvánni mikilvæg enda er mikil viðvarandi verðbólga mikil efnahagsleg meinsemd. Meðalið sem beitt er í baráttunni gegn henni, háir viðvarandi vextir, kemur þó einna verst niður á venjulegum skuldsettum heimilum. Það á í raun við hvort sem litið er til eyðileggingarmáttar verðbólgunnar eða til lækningaúrræðisins.
Þannig eiga heimilin mikið undir efnahagsstöðugleika og segja má að tíðindaleysi sé bestu fréttirnar. Krafan hlýtur alltaf að vera lítil verðbólga og lágir vextir.
Förum í samkvæmisleikinn „Frúin í Þórshöfn“:
Algengir vextir íbúðalána á Íslandi eru nú um 9% til 10%. Sambærilegir vextir í Færeyjum eru frá tæpum 5%.
Margfaldaðu 50.000 kr. með fjölda milljóna króna sem þú skuldar í húsnæðislán. Ef lánið þitt stendur í 10 milljónum, er upphæðin 500.000 kr. Standi það í 40 milljónum er upphæðin 2 milljónir króna og svo framvegis.
Þetta er upphæðin sem þú greiðir árlega í vexti af húsnæðisláninu þínu umfram það sem Færeyingar greiða. Ímyndaðu þér svo hvað þú getur gert við peningana sem þú myndir spara ef vextir á Íslandi væru á pari við vexti í Færeyjum. Þú mátt segja já, nei, svart og hvítt!
Seðlabankinn virðist einhverra hluta vegna ekki sjá merki um skuldavanda heimila þrátt fyrir að umboðsmaður skuldara og forstjóri innheimtufyrirtækisins Motus hafi stigið fram og bent á að vanskil séu að aukast til muna. Þá kom fram í nýlegri könnun Prósents að rúmlega fjórða hvert heimili næði með naumindum endum saman.
Ljóst er að vaxtabyrði íbúðalána reynist mörgum íslenskum heimilum þungur baggi að bera. Seðlabankinn hvetur fólk til að flýja í stýrivaxtaskjól með því að skipta úr lánum með óverðtryggðum vöxtum í verðtryggð lán, sem lækkar vissulega greiðslubyrðina, en hinir himinháu vextir hverfa þó ekki, heldur bætast einungis við eftirstöðvar lánsins.
Þess utan þurfa íslensk heimili, ólíkt frændfólki okkar í Færeyjum, að gerast sérfræðingar í lánamálum og stíga öldu verðtryggingar, fljótandi, breytilegra og fastra vaxta. Væri það raunin ef vaxtastig hér á landi væri sambærilegt því sem það er í löndunum sem við viljum bera okkur saman við?
Á meðan raunvextir húsnæðislána á Íslandi eru um 10%, hvort sem lánin eru verðtryggð eða óverðtryggð, með fasta, fljótandi eða breytilega vexti, geta Færeyingar fengið húsnæðislán með um 5% vöxtum, sem þó eru sögulega háir vextir í færeysku samhengi. Þarna munar heilum fimm prósentustigum, eða 50.000 krónum á hverja lánsmilljón í vaxtagreiðslur á ári.
Að meðaltali skulda íslensk heimili rúmar 20 milljónir króna í húsnæðislán og greiða því rúma eina milljón króna meira í vexti á ári en frændur okkar í Færeyjum.
Þannig greiða íslensk heimili samtals um 156 þúsund milljónir á ári umfram það sem þau gerðu, ef íslenskir vextir væru á pari við færeyska vexti. Þá er ótalinn óbeinn kostnaður heimilanna vegna hærri fjármagnskostnaðar íslenskra fyrirtækja sem einnig greiða mun hærri vexti, sem leiðir til hærra vöruverðs.
Þá stendur eftir 156 milljarða króna spurningin: Af hverju eru vextir á Íslandi tvöfalt hærri en í Færeyjum? Svörum henni, göngum í að leiðrétta það og spörum meðalheimilinu eina milljón króna á ári. Það væri til mikils unnið að lækka þessa himinháu vexti. Þar liggur ein stærsta kjarabótin.
Takk fyrir leikinn og baráttukveðjur á verkalýðsdaginn!
Grein Breka birtist í 2. tölublaði tímarits Sameykis 2025 sem kom út á baráttudegi verkalýðsins 1. maí.