Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

22. janúar 2013

Grein formanns SFR í Morgunblaðinu um kynbundinn launamun

ArniStJonsson_2006Síðustu daga og vikur hefur launafólk beðið í ofvæni eftir því hvernig endurskoðun kjarasamninga reiðir af. Kjarasamningum á almennum markaði hefur verið flýtt og atvinnurekendur, ríkið og stéttarfélögin reyna að finna leiðir til að leiðrétta kjararýrnun og launaþróunina í landinu.

Það er margt sem hvílir á næstu kjarasamningsgerð. Eitt af því stærsta er kynbundinn launamunur. Árlega sýna launakannanir bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði að kynbundinn launamunur er á bilinu 10 – 15% ár eftir ár og tekur hægfara breytingum þrátt fyrir mikla umfjöllun og mikinn alvarleika málsins. Um þetta þurfa næstu kjarasamningar meðal annars að snúast um. Kynbundnum  launamun verður ekki útrýmt nema með auknu fé af hálfu atvinnurekanda.

Nokkrar naprar staðreyndir:

  • Launamunur vex með starfsaldri. Munur á heildarlaunum milli karla og kvenna er minnstur meðal fólks með hvað skemmstan starfsaldur.
  • Launamunur er mestur meðal þeirra sem hafa minnsta menntun.
  • Launamunur er meiri meðal eldra fólks en yngra. Sem dæmi má nefna að hjá SFR hafa konur 82% af launum karla í yngsta hópi svarenda en 76% af launum karla í hópi 60 ára og eldri.  Mögulega kann þetta að vera vísir að breytinum og tilefni til bjartsýni, og munur á launum eftir starfsaldri styður það. En einnig getur verið að aldur sé konum meiri fjötur um fót á vinnumarkaði en körlum. 
  • Launin eru lægst í þeim störfum þar sem konur eru fleiri en 70% starfsfólks. 

Launakannanir SFR
SFR hefur látið gera árlegar launakannanir síðan 2007, en þar er kynbundinn launamunur meðal annars mældur.  Árið 2007 sýndi launakönnun SFR stéttarfélags í almannaþjónusta 14,3% kynbundinn launamun. Í síðustu könnun SFR frá árinu 2012 var hann 12,1%. Launamunurinn er áþekkur hjá öðrum stéttarfélögum. Hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar er munurinn  11,8%, hjá VR 9,4% og 13,1% hjá BSRB félögunum í heild.

Mikill munur er á milli starfsstétta eftir því hvort þar eru í meirihluta karlar eða konur eins og nýjasta umfjöllun í Blaði stéttarfélaganna sýnir.  Í dag hafa  félagskonur SFR  79% af heildarlaunum karla. Mestur munur kemur fram í starfsstéttinni „sérhæft starfsfólk og tæknar,“ en þar hafa konur 24% lægri laun en karlar. Í hópi stjórnenda hafa konur 12% lægri heildarlaun en karlar.  Ekki einn einasta starfsstétt eða starfahópur þar sem konur eru í meirihluta telst hálaunastétt – er þetta tilviljun?

Kynskiptur vinnumarkaður
Launakönnun SFR sýnir það svart á hvítu að kynbundinn launamunur meðal ríkisstarfsmanna er stórt vandamál  sem þarf að leysa. Í síðustu samningum lagði SFR til við ríkið að samið yrðum sérstakan jafnréttislaunapott að norrænni fyrirmynd. Hugmyndin var hluti af kröfugerð félagsins og var hún vandlega kynnt forsætis- og fjármálaráðherra. Þessari hugmynd var hafnað. Þess í stað var farið af stað með umræður um fleiri kannanir og rannsóknir á stöðunni.  Það segir sig sjálft að launamunur kynjanna verður ekki leiðréttur nema til komi aukið fjármagn. 

Vilji eða vandræðagangur?
Stjórnvöld hafa oftsinnis lýst yfir þeim vilja sínum að jafn laun kvenna og karla. Flestir gætu haldið að þar væru hæg heimatökin þar sem ríkið er einn af stærstu atvinnurekendur landsins. Markmið stjórnvalda eru sannarlega góð og gild, en þar vantar allar tímasetningar og fjármagn.

Nýverið verið gefnar út leiðbeiningar um jafnlaunastaðal en með honum er ætlað að vera verkfæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að reka skilvirkt jafnlaunakerfi. Ákvæði jafnréttislaga um jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf felur ekki í sér að þeir einstaklingar sem ákvæðið tekur til skuli fá nákvæmlega sömu krónutölu í laun. Lagaákvæðið kemur heldur ekki í veg fyrir að litið sé til einstaklingsbundinna þátta, hópbundinna þátta  eða sérstakra hæfni starfsmanns við launaákvörðun. Í jafnlaunastaðlinum er tilgreint að atvinnurekandi skuli við innleiðingu hans ákvarða hvort og þá hvernig umbunað er fyrir einstaklingsbundna eða hópbundna þætti, þ.e. hvaða málefnalegu viðmið þar skuli lögð til grundvallar. Þetta atriði er eitt af grundvallaratriðunum til að koma í veg fyrir mismunun í launum karla og kvenna, því niðurstöður rannsókna sýna að karlar fá frekar greitt fyrir einstaklingsbundna þætti en konur, meðal annars má sjá það í aukagreiðslum og hlunnindum.

Nú hefur verið skipaður aðgerðahópur þar sem BSRB á m.a. fulltrúa. Verkefni aðgerðahópsins eru meðal annarra að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, annast gerð áætlunar um kynningu jafnlaunastaðals og sinna upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja. Markmiðin eru sannarlega háleit, en mun þetta skila einhverju? Munu félagsmenn SFR og aðrir ríkisstarfsmenn sjá það gerast að kynbundinn launamunur verði afnuminn?

SFR hefur margoft bent á leiðir til að vinna á kynbundnum launamun. Ríkið hefur ekki fallist á samvinnu um þær leiðir. Afleiðingin er sú að kvennastéttirnar búa við framkvæmd launastefnu sem framkallar kynbundinn launamun. Er það í lagi?

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)