Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. mars 2013

Jafnréttismál á aðalfundi

adalfundur-1Á aðalfundi SFR í síðustu viku var ályktað um jafnréttismál, en félagið hefur verið í fararbroddi að benda á kynbundinn launamun meðal opinberra starfsmanna. Í ályktuninni krefst SFR þess að stjórnvöld, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur taki höndum saman um leiðréttingu kynbundins launamunar. 

Þá ályktaði fundurinn einnig um leiðréttingu launa kvenna hjá Landspítala en enn er beðið eftir aðgerðum. Fundurinn krefst þess að viðræður um stofnanasamning félagsins við Landspítala verið hafnar á tafar enda hafi fjármálaráðherra þegar staðfest að kjör kvenna innan SFR hjá Landsítala skuli verða leiðrétt. 

Ályktun aðalfundar SFR um jafnréttismál
SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu krefst þess að stjórnvöld, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur taki höndum saman um leiðréttingu kynbundins launamunar. Tími rannsókna og skýrslugerðar er löngu liðinn. Fjármagna þarf raunhæfar aðgerðir til að útrýma þessum svarta bletti í lýðræðissamfélagi okkar og hafa ber sjónarmið beggja kynja að leiðarljósi í allri ákvörðunartöku.
Aðalfundur SFR krefst þess einnig að hugað verði að launajafnrétti í víðasta skilningi þess orðs. Vinna þarf markvisst að því að uppræta kerfisbundinn launamun og fagnar SFR því jafnlaunastaðlinum. SFR bendir þó á að meta þarf sambærileg störf með sama hætti hjá ríkinu og verður það ekki gert nema litið verði á ríkið sem einn atvinnurekanda.  
Aðalfundur SFR krefst þess að vinnutími vaktavinnufólks verði aldrei lengri en 80% af vinnutíma dagvinnufólks. Lýðheilsufræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á heilsuskaðleg áhrif vaktavinnu án þess að stjórnvöld hafi brugðist við. Vinnutími sem fellur að mestu á kvöld, helgar og nætur gerir fólki illmögulegt að sinna þörfum fjölskyldunnar. Jafna þarf tækifæri beggja foreldra til þátttöku í uppeldi barna sinna og stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Aðalfundur SFR krefst þess að vinnuvikan verði stytt í 36 stundir.

 

Ályktun um leiðréttingu launa kvenna hjá Landspítala:
Aðalfundur SFR stéttarfélags í almannaþjónustu telur yfirlýsingu stjórnvalda frá 13. febrúar, um að kynbundinn launamunur verði leiðréttur vera skref í rétta átt en þar eru heilbrigðisstéttir sérstaklega tilgreindar. Um 900 starfsmenn Landspítala eru félagsmenn í SFR. Um 70% þeirra eru konur.
Aðalfundur SFR  krefst þess að viðræður um stofnanasamning félagsins við Landspítala verði hafnar án tafar. Fjármálaráðherra hefur þegar staðfest að kjör kvenna innan SFR hjá Landspítala verði leiðrétt í kjölfar nýgerðra samninga hjúkrunarfræðinga. SFR minnir á að yfirlýsing stjórnvalda um leiðréttingar á launum kvenna nær til allra félaga. 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)