Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. maí 2013

Kröfugerð SFR í vinnslu

ArniStJonsson_2006Á kjararáðstefna trúnaðarmanna SFR sem haldin var í gær voru lagðar línur fyrir kröfugerð félagsins í komandi kjarasamningum. Kjarasamningar félagsins eru lausir um áramót en undirbúningur kröfugerðar og kjarasamningsviðræðna hefur staðið yfir síðan í janúar. Ljóst er að áherslurnar sem fram komu á ráðstefnunni í gær munu verða áberandi í kröfugerðinni.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR segir það liggja ljóst fyrir að félagsmenn SFR horfi til þess að kaupmáttur launa þurfi að aukast og að tryggja þurfi stöðugleika hans. Hvort það verður gert í gegnum víðtæka samvinnu aðila vinnumarkaðarins eða með öðrum hætti er þó ekki ljóst, en það sé mikilvægt að inn í samningsgerðina verði sett samkomulag sem tryggi að launahækkanir velti ekki beint inn í verðlag.

Þá segir Árni það vera skýra kröfu félagsmanna að kynbundinn launamunur verði afnuminn. Félagið hefur unnið ötullega að því að vekja athygli á því skammarlega ójafnrétti sem birtist í launamun kynjanna í launakönnunum ár eftir ár. Hann segir nauðsynlegt að stjórnvöld haldi áfram að vinna að þeim málum og setji fjármuni til að leiðrétta þennan mun eins og þau hafa gert gagnvart heilbrigðisstéttum.

Krafan um styttingu vinnuvikunnar er einnig að birtast sterkar nú hjá félagsmönnum en áður segir Árni. Hana má einnig sjá í ályktunum síðustu BSRB þinga og mál sé komið að hlustað verði á þær raddir og unnið að raunhæfum lausnum.

Áherslurnar sem birtust á kjararáðstefnu trúnaðarmanna munu nú fara til frekari vinnslu hjá félaginu og mun kröfugerð félagsins liggja fyrir strax í haust.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)