Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. september 2013

Lægst laun hjá hinu opinbera

Launin eru hæst á almennum vinnumarkaði og munar þar talsverðu. Þetta sýna niðurstöður launakannana SFR, St.Rv. og VR. Félagsmenn VR eru með  tæplega 18% hærri heildarlaun en félagsmenn SFR og 28% hærri heildarlaun en félagsmenn St.Rv. að teknu tilliti til mismunandi samsetningar hópanna.

Launin hækka mest á milli ára hjá VR, eða um 7%. Hjá SFR hækka launin um 6% og hjá St.Rv. um einungis 2,3%. Þá njóta fleiri starfsmenn á almennum markaði hlunninda, eða 70% á móti 60% opinberra starfsmanna, en verulega dregur úr hlunnindum á milli ára hjá opinberum starfsmönnum, sérstaklega hjá félagsmönnum St.Rv.

Í ljósi þessara niðurstaðna þarf engan að undra að félagsmenn hjá hinu opinbera eru almennt mun óánægðari með launakjör sín en félagsmenn á almennum vinnumarkaði en tæplega helmingur félagsmanna VR er ánægður með launakjör sín. Félagsmenn St.Rv. eru líkt og í fyrra óánægðastir með  laun sín en aðeins rúmlega 12% félagsmanna St.Rv. segjast ánægðir með launakjör, en 18,6% SFR félaga eru ánægðir.

 

Launaþróun - samanburður

Í krafti reglulegra launakannana er nú auðveldara en oft áður að bera saman laun á milli hópa og stétta. Ef bornar eru saman niðurstöður launakannana sem birst hafa undanfarnar vikur svo og gögn Hagstofunnar frá 2. september síðast liðnum má sjá að laun á almennum vinnumarkaði hafa allt frá árinu 2009 hækkað meira en laun opinberra starfsmanna.

Almenn launaþróun er sú að laun flestra tóku að hækka eftir lækkanir í kjölfar hrunsins á árunum 2009-2010. Laun opinberra starfsmanna virðast þó hækka minna á milli allra áranna að undanskyldum árunum 2008-2009. Þetta skýrir ef til vill hvers vegna launabilið milli almenna vinnumarkaðarins og þess opinbera stækkar ár frá ári.

 Launakönnun2013-Hækkun-launa

Launamunur kynjanna

Heildarlaun karla eru hærri en kvenna í öllum starfsstéttum. Munur á heildarlaunum karla og kvenna hjá SFR í fullu starfi er rúm 21% körlum í hag, en 15% hjá St.Rv. Karlar fá hærri grunnlaun en konur, hærri yfirvinnugreiðslur og oft aðrar greiðslur umfram konur. Launamunur kynjanna er einnig meiri eftir því sem menntun fólks er minni og því eldri sem svarendur eru. Því eldri og minna menntaðir sem svarendur eru, því meiri verður munurinn konum í óhag. Á þetta bæði við um félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR stéttarfélags.

Kynbundinn launamunur (þ.e. tillit hefur verið tekið til þátta sem almennt er talið eðlilegt að hafi áhrif á laun, þ.e. aldur, starfsaldur, starfsstétt, menntun, vaktaálag, mannaforráð og vinnutími) mælist hins vegar 7% hjá félagsmönnum innan SFR, sem er örlítið minna en undanfarin ár. Hjá St.Rv. fer hann hins vegar örlitið hækkandi og mælist nú 9,9%. Á meðfylgjandi mynd má sjá samanburð á launamun kynjanna hjá þeim bandalögum og stéttarfélögum sem nýverið hafa birt niðurstöður launakannana. Eins og sjá má er kynbundinn launamunur mestur hjá BSRB en minni hjá SFR og St.Rv. þrátt fyrir að félögin séu tvö stærstu BSRB aðildarfélögin og telja tæplega helming félagsmanna bandalagsins. Þetta er jákvæð þróun fyrir félögin sem hafa verið í forystu baráttunnar gegn launamun kynjanna undanfarin ár.

 Launakönnun2013-Launamunur-stettarfelog-bandalog

Mikið álag kallar á kröfuna um styttri vinnuviku

Tæplega helmingur félagsmanna St.Rv. og SFR telur að vinnuálag sé of mikið og tæp 70% þeirra segja álagið hafa aukist á síðustu 12 mánuðum. Þá vill nærri helmingur félagsmanna beggja stéttarfélaga fækka vinnustundum í sínu núverandi starfi og segjast þeir flestir vilja vinna færri tíma dag hvern eða færri daga í viku.

 

Áherslur í kjarasamningum

Í launakönnuninni var einnig spurt um hvaða áherslur félagsmenn teldu að félögin ættu að hafa á næstu mánuðum. Ríflega 3 af hverjum 4 nefna áherslur á launahækkanir í komandi kjarasamningum.  Þá nefndu fleiri en áður styttingu vinnuvikunnar sem mikilvæga áherslu í kröfugerð félaganna. Á næstunni munu félögin birta kröfugerðir sínar og munu þær að sjálfsögðu endurspegla vilja félagsmanna.

 Sjá niðurstöður könnunar SFR

SFR stéttarfélag í almannaþjónustu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar (St.Rv.) auk VR hafa haft með sér samstarf um gerð launakannana undanfarin ár. Þetta er í sjöunda sinn sem SFR gerir slíka könnun en Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar  hefur gert könnunina síðan 2011. Með þessum könnunum fást mikilvægar upplýsingar um launaþróun og samanburð milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum. Félagsmenn SFR starfa hjá ríki, sjálfseignarstofnunum og opinberum fyrirtækjum,  félagsmenn St.Rv. starfa hjá Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Seltjarnarnesi og fleiri opinberum fyrirtækjum og stofnunum, en félagsmenn VR vinna á almennum vinnumarkaði. Könnunin var unnin af Capacent Gallup í febrúar og mars 2013 og var framkvæmd með líkum hætti og undanfarin ár.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)