Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. október 2013

Kaldar kveðjur ríkisstjórnarinnar

ArniStJonsson_2006„Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ber kaldar kveðjur til þjóðarinnar og starfsmanna ríkisins almennt,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. „Miklar væntingar stóðu til þess að ríkisstjórnin stæði við loforð sín varðandi það að veita nauðsynlegt fjármagn til Landspítalans. Úr þessu frumvarpi má bara lesa stöðnun, sem í reynd er niðurskurður. Hækkun gjalda í heilbrigðis- og velferðarþjónustu er í hrópandi mótsögn við boðun velferðarráðherra um fjölskylduvænna samfélag.

Ég vil vara stjórnvöld við því að sérstakt gjald verði tekið af sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Þar er um að ræða algjöra kerfisbreytingu sem ógnar íslensku velferðarkerfi eins og við þekkjum það. Reyndin er sú að slík gjöld hafa tilhneigingu til að aukast. Þannig hefur kostnaður við göngudeildarsjúklinga aukist og það sama munum við sjá hjá legusjúklingum – smátt og smátt verður það aðeins á færi þeirra efnameiri að nýta sér heilbrigðisþjónustuna. Þetta eru sannarlega ekki þær áherslur í heilbrigðiskerfinu sem við viljum sjá.“

Árni segir að það sé margt fleira í þessu fjárlagafrumvarpi sem ástæða sé til að hafa áhyggjur af. Þá virðist ríkisstjórnin boða kerfisbreytingar á flestum þjónustukerfum ríkisins, þar á meðal fækkun ríkisstofnana eins og fram kemur í frumvarpinu.  „Við þurfum að fara fram af skynsemi í sameiningar og fækkanir ríkisstofnana,“ segir Árni. „Reynslan sýnir okkur að tilhneiging hefur verið til að fara of hratt í slík verkefni sem leiðir til þess að vandamál verða fleiri og sameiningin dýrari. Aðkoma starfsmanna að breytingum af þessu tagi eru mikilvægar. Áhyggjur okkar beinast auðvitað að hlut starfsmannanna, er verið að boða fjölda uppsagnir ríkisstarfsmanna?“

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)