Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. september 2014

Fjárlagafrumvarpið – stefna stjórnvalda um skipulagsbreytingar og umbætur í ríkisrekstri

alma netAlma Lísa Jóhannsdóttir, ráðgjafi hjá SFR skrifar:

Fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun að Ísland væri ekki að færast frá Norðurlöndunum þrátt fyrir að hlutur samneyslunnar af vergri þjóðarframleiðslu fari undir þau mörk sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Þá kom einnig fram að fjármálaráðherra telur þjónustustig og gæði þjónustunnar á Íslandi vera eins og best getur. 

Engu að síður boðar fjárlagafrumvarpið stórfelldar breytingar. Verkefni stjórnvalda breytast svo sannarlega. Leiðin sem hér er valin til þess að leysa þær áskoranir sem bíða okkar er kerfisbreyting. Fjármálaráðherra vill láta einkamarkaðinn sjá um velferðar- og heilbrigðisþjónustuna.

Nauðsynlegt er að búa þannig að starfsfólki hins opinbera að það geti uppfyllt skyldur sínar og veitt framúrskarandi þjónustu. Í frumvarpinu má sjá að áherslur stjórnvalda í þessum efnum lúta að því að þetta sé framkvæmt þannig að ríkið verði ekki launagreiðandi þeirra.  Þá kemur einnig fram að verkaskipting hins opinbera og einkaaðila geti beinst að þjónustu, fjármögnun, skipulagi eða rekstrarformi. Þetta þýðir með öðrum orðum að til stendur að úthýsa verkefnum hins opinbera. Forsendurnar fyrir því að þetta gangi upp hvað starfsfólk varðar er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að lagarammi kjara- og mannauðsmála verði endurskoðaður og lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna einnig. 

Einokunarstaða einkaaðila

Markmiðið með tilfærslu verkefna frá ríki til einkaaðila hlýtur ávallt að vera hagkvæmni og aukin eða bætt þjónusta. Þegar slíkt er gert í umhverfi þar sem engin samkeppni ríkir er einkaaðilinn í raun kominn í einokunarstöðu. Ef við skoðum þessa stöðu í ljósi þess umboðs sem stjórnvöld hafa má sjá að þegar aðilar utan stjórnsýslunnar fá verkefni sem áður voru á hendi stjórnvalda getur það leitt til vandamála sem tengjast pólitískri og lagalegri ábyrgð. Framkvæmdaraðilinn er ekki lengur sá sami og sá sem hefur formlegt umboð til að annast stjórnsýsluna. Þessi einokunarstaða getur því boðið upp á ákveðinn umboðsvanda. Huga ber að því að slík ráðstöfun getur raskað áhrifa- og valdajafnvæginu innan velferðarkerfisins.

Stjórnvöld hafa með málflutningi sínum reynt að sannfæra okkur um að hið opinbera geti ekki sinnt heilbrigðis- og velferðarþjónustunni nægilega vel, að það vanti fjármagn og að verkefnunum sé betur farið í samkeppnisumhverfi utan hins opinbera. Þetta er ekkert annað en tilraun til að skilgreina vandamálið, afmarka það og sýnir okkur einungis eina afmarkaða hlið málsins. Sannleikurinn er ekki að fullu sagður. Enda eru þar rök að finna sem hnekkja málflutning þeirra. Í íslenskri heilbrigðis- og velferðarþjónustu er varla og sjaldnast samkeppnisumhverfi og þar af leiðandi er ekki hægt að nýta krafta markaðarins og af því leiðir að einkaaðilinn er í einokunarstöðu utan ramma stjórnsýslunnar en að sinna verkefnum í almannaþjónustu sem leiðir óhjákvæmilega til umboðsvanda. Staða starfsfólks í slíku umhverfi er einnig allt önnur en innan hins opinbera þar sem þeir heyra ekki lengur undir kjara- og lagaramma ríkisins.

Fram kemur að áfram verði unnið að fækkun stofnana og einföldun í ríkisrekstri. Þetta er í sjálfu sér gott. Reynslan segir okkur þó að hér er ýmislegt sem nauðsynlegt er að skoða. Ákvörðun ráðherra um að flytja Fiskistofu í sumar er aðeins eitt dæmi um hvernig óvönduð vinnubrögð geta beinlínis haft neikvæð áhrif og er engan veginn í anda þeirrar mannauðsstefnu og sjónarmiða sem ráðherrann boðar í frumvarpinu.

Í ljósi þessa er boðuð kerfisbreyting og umbætur í ríkisrekstrinum opinberum starfsmönnum afar mikið áhyggjuefni. Stjórnvöld daðra enn á ný við frjálshyggjuna, nýskipan í ríkisrekstri og sjónarmið sem mörgum þykja úrelt enda ætti markmiðið að vera að styrkja og efla almannaþjónustuna en ekki að brytja hana niður.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)