Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. september 2014

Starfsmenn Fiskistofu mótmæla harðlega

Starfsfólk Fiskistofu fundaði í dag um fyrirhugaðan flutning stofnunarinnar og sendi í kjölfarið frá sér harðorða ályktun, þar sem ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um flutning höfuðstöðva Fiskistofu er mótmælt. Í ályktuninni er ráðherra m.a. hvattur til þess að falla frá þessum hugmyndum sem eru bæði illa undirbúnar og misráðnar, segir í ályktuninni. Þá er þeim aðferðum sem beitt hefur verið við vinnslu málsins mótmælt enda sé þar verið að bjóta á réttindum starfsmanna. En áform eru uppi um að þvinga þá starfsmenn sem ekki hyggjast fylgja störfum sínum norður til að segja sjálfir upp. Slíkt getur orðið til þess að þeir glata þeim réttindum sem þeir ella hefðu, enda séu þá slit á ráðningarsambandi  á þeirra ábyrgð. Starfsmenn Fiskistofu telja slík vinnubrögð ekki eiga heima í siðuðu samfélagi.

 

Ályktunin í heild sinni:
Starfsfólk Fiskistofu mótmælir harðlega ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um flutning höfuðstöðva stofnunarinnar til Akureyrar og þeim löglausu fyrirætlunum sem kynntar voru í bréfi ráðherra til starfsmanna dagsettu þann 10. september s.l.

Ljóst er að ákvörðunin styðst ekki við lagaheimild og er til þess fallin að skaða starfsemi stofnunarinnar, enda hafa engir starfsmenn, utan fiskistofustjóra, lýst áhuga á að flytjast með henni norður. Hvetur starfsfólk Fiskistofu ráðherra til þess að falla þegar í stað frá hugmyndum um flutning stofnunarinnar, sem virðist afar misráðinn og undirbúningi áfátt.

Mótmælt er áformum þar sem starfsmenn sem ekki hyggjast fylgja störfum sínum norður yrðu þvingaðir til þess að segja sjálfir upp störfum, enda gætu þeir átt á hættu að glata þeim réttindum, sem þeir ella hefðu, ef slit á ráðningarsambandi væri á ábyrgð vinnuveitanda.Vinnubrögð af þessu tagi ættu ekki að tíðkast í siðuðu samfélagi.

Undanfarna daga hefur ráðherra ítrekað látið í veðri vaka í viðtölum við fjölmiðla að unnið sé að verkefninu í samráði við starfsmenn stofnunarinnar. Starfsfólk Fiskistofu vísar þessu alfarið á bug. Skal áréttað að fulltrúum starfsmanna var ekki boðið að taka þátt í gerð tillagna sem starfsmenn ráðuneytisins ásamt fiskistofustjóra unnu að og lagðar voru fyrir ráðherra í ágústlok. Var ráðherra þá gerð skýr grein fyrir því að starfmenn ættu enga aðild að tillögunum. Virðist hann því tala gegn betri vitund.

Í sumar kom fram að ráðherra mæti það svo að flutningur Fiskistofu gæti kostað 100-200 milljónir króna. Nú liggur hins vegar fyrir gróf áætlun fiskistofustjóra þar sem gert er ráð fyrir því að kostnaður við flutninginn geti verið 200-300 milljónir króna, eða tvöfalt hærri en áður hafði verið nefnt og eru sjálfsagt ekki öll kurl til grafar komin í þeim efnum. Vilja starfsmenn vekja athygli á þessu og hvetja ráðamenn til að huga vandlega að því hvernig fjármunum almennings er varið. Vekur athygli að ekki virðist vera gert ráð fyrir þessum kostnaði í þeim drögum að fjárlögum sem fyrir liggja.

Starfsfólk Fiskistofu harmar dapurlega tilburði stjórnmálamanna sem reynt hafa að notfæra sér flutning Fiskistofu til þess að etja saman landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Engu skiptir hver á í hlut þegar með valdboði er reynt að flytja fólk nauðugt viljugt landshornanna á milli. Málflutningur á þessum nótum er óboðlegur og engum til framdráttar.

Ráðuneytið hefur upplýst starfsfólk Fiskistofu um að í forsætisráðuneytinu sé unnið að frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir lagabreytingum sem munu auðvelda valdhöfum að taka ákvarðanir um staðsetningu starfa og stofnana að eigin geðþótta án þess að afla þurfi sérstakrar lagaheimildar hverju sinni. Lýtur þetta að starfsöryggi og réttindum allra opinberra starfsmanna ekki síst í ljósi þeirra ummæla forsætisráðherra frá því í sumar þar sem fram kom að fyrir dyrum stæði flutningur fleiri opinberra stofnana. Starfsfólk Fiskistofu skorar á Alþingismenn að standa vörð um löggjafarvaldið. Það stuðli að lýðræðislegum vinnubrögðum stjórnvalda og standi gegn því að slíkar hugmyndir séu færðar í lög. Starfsfólk annarra opinberra stofnana er jafnframt hvatt til þess að vera á varðbergi og fylgjast grannt með þessari framvindu.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)