Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. apríl 2015

Stéttarfélögin í nútíð og framtíð

Ráðstefna ASÍ og BSRB 21apr2015 (7)Sameiginleg ráðstefna BSRB og ASÍ um hlutverk stéttarfélaga í samfélaginu sem haldin var á Grand hótel í morgun var afar vel sótt. Þar fluttu þau Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Árni Stefán Jónsson formaður SFR og fyrsti varaformaður BSRB og Sigurrós Kristinsdóttir varaformaður Eflingar erindi auk tveggja fulltrúa yngri kynslóðarinnar. Það voru þau Þórdís Viborg frá SFR og Ingólfur Björgvin Jónsson frá ASÍ Ung. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB var fundarstjóri og þau Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Helgi Seljan fréttamenn sátu fundinn og komu með viðbrögð við erindum og spurningar sem brunnu á þeim. Ráðstefnan er nú haldin í aðdraganda 1. maí, meðal annars til þess að undirstrika mikilvægi hans fyrir allt launafólk í landinu.

Ráðstefna ASÍ og BSRB 21apr2015 (2)Gylfi fjallaði um hlutverk og stöðu stéttarfélaga í samfélaginu í fortíð og í nútíð. Hann ræddi m.a. um sérstöðu Íslands í hinu norræna vinnumarkaðskerfi og sagði að um 90% þátttaka launafólks í stéttarfélögum væri sérstaða okkar. Gylfi líkti velferðar- og vinnumarkaðskerfunum við systur. Sem sannarlega væru líkar og hefðu alist upp við svipaðar aðstæður en síðan hefðu þær gifst í burtu og hver þeirra hefði síðan tekið sína stefnu þaðan. Hann var ekki frá því að íslenska systirin hefði gifst til Ameríku þar sem áhrif þaðan mætti glöggt sjá í íslensku samfélagi. Þá sagði hann sérstöðu íslenska vinnumarkaðs- og stéttarfélagskerfisins helsta þá að í því fengi allt launafólk réttindi sín sjálfkrafa við inngöngu. Íslenskt velferðarkerfi er að miklu leyti byggt upp af stéttarfélögunum, sagði Gylfi. Á Norðurlöndunum ætti það sama við, en þar væri í dag meiri samvinna ríkis og sveitarfélaga með framkvæmdinni. Gylfi sagði alveg ljóst að 80% af velferðinni kæmi í gegnum kjarasamninga til launafólks og þau kerfi sem væru í höndum stéttarfélaganna s.s. Virk, Lífeyrissjóðirnir o.fl. væri gott en annað sem hreyfingin hefði sett frá sér í hendur stjórnvalda væri meira og minna ónýtt eða að minnst kosti illa skemmt. Þar nefndi hann m.a. sem dæmi fæðingarorlofskerfið, húsnæðismálin o.fl.

Ráðstefna ASÍ og BSRB 21apr2015 (3)Árni Stefán Jónsson formaður SFR fjallaði um hvernig sjóða og styrkjakerfi stéttarfélaganna væri stór hluti kjara launafólks. Hann nefndi m.a. dæmi frá eigin félagi um það hvað einn félagsmaður með full réttindi gæti tæknilega fengið út úr sjóðakerfi félagsins á einu ári. Sú upphæð var ein og hálf milljón þrátt fyrir að þar væru hvorki reiknaðar með dánarbætur né sjúkradagpeningar. Hann tók annað dæmi um félagsmann sem á einu ári nýtti sér nokkra algenga styrki og var sú upphæð rúmlega 500 þúsund. Þetta er drjúg kjarabót sagði Árni. Hann lagði áherslu á að samtryggingarhugsjónin væri lykilatriði í hugmyndafræðinni á bak við sjóðakerfið og styrkirnir nýttust því þeim einstaklingum sem virkilega þyrftu á aðstoð að halda og eða tækifæri til að ná fram markmiðum sínum bæði þeim og vinnustað þeirra til góða. Árni vísaði einnig til norræna kerfisins en sagði hlutverk stéttarfélaga á Íslandi vera meira að þessu leyti. Hann sagði að spurningin um hvort það væri hlutverk stéttarfélaga að styrkja félagsmenn til símenntunar og forvarna á þennan hátt, hefði stundum komið fram. Svarið væri einfaldlega það að stéttarfélögin hefðu í upphafi stokkið inn í þetta til þess að koma til móts við félagsmenn og það hefði þróast vel, enda væri jöfnunarkerfi ekki við lýði hjá stjórnvöldum í dag. Hann sagði stéttarfélögin stolt af þessum hluta starfseminnar, enda margfaldaði sjóðakerfið verðmæti þess að vera félagsmaður í stéttarfélögum.

Ráðstefna ASÍ og BSRB 21apr2015 (4)Sigurrós Kristinsdóttir varaformaður Eflingar rakti starf stéttarfélagsins og þær áherslur sem það hefur haft í þjónustu við félagsmenn. Hjá henni kom m.a. fram að félagsmenn Eflingar eru 22 þúsund og störfuðu á 1800 vinnustöðum, tæplega helmingur þeirra eru undir þrítugu og um 37% þeirra eru af erlendum uppruna frá 115 þjóðlöndum. Flestir þeirra eru í ræstingastörfum en einnig við byggingavinnu og sem starfsmenn hótela og veitingastaða.Stærsti viðsemjandinn er SA en um 70% félagsmanna heyra undir þann samning. Innan Eflingar eru 6 fræðslusjóðir og Sigurrós sagði félagið bjóða félagsmönnum upp á mörg námskeið og námsleiðir þeim að kostnaðarlausu. Þessir möguleikar eru vel nýttir innan félagsins.

 

Ráðstefna ASÍ og BSRB 21apr2015 (20)

Ingólfur Björgvin Jónsson frá ASÍ Ung fjallaði um verkefni stéttarfélaganna til framtíðar. Hann hefur starfað í nokkur ár með ASÍ Ung þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á kröfuna um eflingu húsnæðiskerfisins, jöfnun búsetuforma og enduruppbyggingu fæðingarorlofsins svo eitthvað sé nefnt. Hann sagði kynningu á starfi stéttarfélaganna og ASÍ Ung mikilvægan þátt í því starfi. Þau vilja að hugað sé að launamálum og réttindum ungs fólks og telur mikilvægt að stéttarfélög almennt setji af stað ungliðahreyfingar innan sinna raða.

Að lokum hélt Þórdís Viborg frá SFR afar uppvekjandi erindi þar sem hún sagði frá sýn ungs fólks á stéttarfélögin. Hún kallaði eftir því að stéttarfélögin legðu sig betur fram við að kynna starfsemi sína og fá yngra fólk til liðs við sig. Að þessu þyrfti að stefna í framtíðinni. Hún sagðist hafa komið til starfa innan stéttarfélags síns fyrir tveimur árum síðan og hafi þá haft litla hugmynd um starfsemi stéttarfélaga almennt. Hún kom í sínu erindi m.a. inn á mikilvægi trúnaðarmanna og stéttarfélagsvitundar ungs fólks.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Helgi Seljan fréttamenn sem sátu sem gestir á ráðstefnunni sögðu það hafa komið sér á óvart hversu stéttarfélögin væru gríðarlega miklar þjónustustofnanir. Þau ræddu samskipti stéttarfélaganna við ríkisvaldið og þörfina á því að kynna starfsemi og hlutverk stéttarfélaganna betur út í samfélagið almennt. Í umræðum á ráðstefnunni kom m.a. fram að stéttarfélögin og fulltrúar þeirra eru mikið í samskiptum við stjórnvöld. Þau eiga fjölmarga fulltrúa í nefndum og starfshópum um ýmis málefni auk þess sem allmörg frumvörp berast félögunum og heildarsamtökunum til umsagnar. Mögulega er þetta pólitíska samstarf sem hefur aukist mikið síðast liðna áratugi mörgum óljóst, enda oftast ekki það sem ratar í fjölmiðla. Þá kom einnig fram að félagsmenn nýta margir þjónustu stéttarfélaganna en mögulega er stundum erfitt að samræma jákvæða ímynd stéttarfélaganna þegar þau eru bæði í þjónustuhlutverki og sem hagsmunasamtök.

Það var samdóma álit þeirra sem ráðstefnuna sátu að hún hefði verið afar fróðleg og mikilvæg. Hægt er að hlýða á upptöku af ráðstefnunni á www.1mai.is

 

Ráðstefna ASÍ og BSRB 21apr2015 (14)

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)