Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. maí 2015

Ályktanir aðalfundar BSRB

 

Aðalfundur BSRB sem haldinn var þann 8. maí síðastliðinn samþykkti eftirfarandi ályktanir annars vegar um kjaramál og hins vegar um frumvarp um úthlutun aflaheimilda á makríl.

 

Ályktun aðalfundar BSRB um kjaramál

Aðalfundur BSRB krefst þess að stjórnvöld og launagreiðendur axli sína ábyrgð á þeirri alvarlegu stöðu sem nú er komin upp á vinnumarkaði. Launafólk getur ekki eitt borið ábyrgð á stöðugleika efnahagslífsins. Stjórnvöld og atvinnurekendur verða einnig að leggja sitt af mörkum til að mögulegt sé að skapa sátt á vinnumarkaði. 

Ríkisstjórnin hefur gefið eftir skatta á þá efnamestu á meðan atvinnurekendur greiða sér milljarða í arð og hækka laun sín um tugi prósenta. Á sama tíma eru launahækkanir almennra starfsmanna umfram 3% sagðar ógna efnahagslífinu í heild. Slíkt er aðeins til þess fallið að auka ójöfnuð og skapa ósætti. Stjórnvöld og atvinnurekendur verða að sýna í verki að þau vinni að hagsmunum heildarinnar og halda þegar af braut sérhagsmuna og ójafnaðar.

Grafalvarlegt ástand ríkir nú á vinnumarkaði. Vinnustöðvanir og verkföll eru alfarið á ábyrgð stjórnvalda og atvinnurekenda sem hafa á engan hátt komið til móts við launafólk. Á meðan stjórnvöld sitja aðgerðarlaus hjá er ljóst að vandinn innan heilbrigðiskerfisins magnast enn frekar.

Aðalfundur BSRB krefst þess að stjórnvöld komi nú þegar fram  með raunhæfar lausnir að samningaborðinu til að forða megi samfélaginu frá frekari skaða en þegar hefur orðið.

Í ályktuninni segir að tryggja þurfi forræði þjóðarinnar yfir auðlindunum og tryggja að ríkissjóður fái hámarksverð fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindunum landsins.

 

Ályktun aðalfundar um makrílveiðar

Aðalfundur BSRB krefst þess að frumvarp sjávarútvegsráðherra til laga um makrílveiðar verði þegar í stað dregið til baka eða því breytt, þannig að með afdráttarlausum hætti verði kveðið á um að makrílkvótinn sé ævarandi eign þjóðarinnar. Einnig að aflaheimildir á makríl verði boðnar upp á markaði ár hvert og tryggt að útgerðarmenn greiði markaðsverð fyrir veiðiheimildir. Þannig verði hafist handa við að koma á nýju fyrirkomulagi í úthlutun aflaheimilda og þjóðinni færðar til baka eigur sínar. 

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)