Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. júlí 2015

Vinnukvíði eftir sumarorlof?

alma netAlma Lísa Jóhannsdóttir ráðgjafi hjá SFR kemur úr sumarfríi:

Fjögurra vikna sumarfríi er lokið. Liðnar vikur hafa snúist um samveru með fjölskyldu og vinum, afslöppun og ævintýri. Fyrir utan skrifstofugluggann skín sólin eins og svikari. Grámi hversdagsins fyllir hugann og þú finnur fyrir smá depurð og kvíða. Orkan ætti að vera á hápunkti en er jafn fjarverandi og rigningarskýin fyrir utan gluggann. Skjalabunkinn á borðinu hefur náð nýjum hæðum og stresshrukkurnar eru við það að myndast þrátt fyrir afbragðs kaffibolla í upphafi dags. Fyrsti vinnudagur eftir frí.

Umbreytingin úr afslöppun og huggulegheitum í rútínu, væntingar og bunkar af verkefnum getur verið andlegt og líkamlegt erfiði. Nokkurra daga aðlögun að nýjum veruleika er því holl. Að fara í frí, vera í fríi og að hefja vinnu aftur eftir frí fylgir breyting á daglegri rútínu. Slíkar breytingar hafa alltaf í för með sér aukið álag á líkama og sál. Því á enginn að hafa samviskubit yfir því að upplifa að þessar umbreytingar eru snúnar.
Hvernig er hægt að draga úr þessari upplifun af að verða stressaður og pínu kvíðinn og dapur eftir langt og gott frí?
Í fyrsta lagi er gott að horfast í augu við að aðlögunin að hversdagsleikanum í vinnunni tekur smá tíma. Mikilvægt er að sætta sig við að það sé eðlilegt að vera dálítið mæðulegur eftir langt og gott frí. Þetta er tímabundið, eðlilegt ástand. Reyndu að vera jákvæður. Spjallaðu við samstarfsfólk, segðu frá fríinu þínu og takið pásur saman. Vertu heiðarlegur. Segðu frá því ef þú upplifir smá depurð, stress og tímaklemmu.
Reyndu að búa þér til einhverja gulrót. Það er auðveldara að vera jákvæður og bjartsýnn ef þú hefur eitthvað að hlakka til.
Snúðu sólarhringnum á réttan kjöl. Farðu snemma á fætur. Þá hefur þú góðan tíma og ert laus við stress. Líkaminn fer einnig fyrr í venjubundinn rytma. Rútína getur hjálpað þér á aðlögunartímanum.
Ef þú vinnur við tölvu og ert í miklum samskiptum í gegnum tölvupóst skalt þú gefa þér góðan tíma til að fara í gegnum innhólfið þitt. Taktu frá tíma í dagatalinu þínu þar sem þú getur einbeitt þér að þessu verkefni. Farðu svo skipulega yfir póstinn, flokkaðu hann og svaraðu honum eftir mikilvægi. Það gefur þér yfirsýn yfir verkefnið, bútar það niður og það virðist auðveldara. Ef þú hefur tök á því getur verið gott að velja sér verkefni í byrjun sem þú getur klárað fljótt en það skapar jákvæða tilfinningu og er hvetjandi.

Í fyrstu vinnuvikunni er gott að fara hægt af stað. Líkaminn er búinn að vera í frí og þarf smá aðlögunartíma. Fáðu þér göngutúr í hádeginu ef það er mögulegt og þegar þú kemur heim, spilaðu tónlist við vinnunna, farðu út og fáðu þér ís, það lyftir huganum og kætir andann. Ef þú hangir yfir verkefnunum sem hafa hlaðist upp í fríinu, án pásu, munt þú bara verða þreyttur og aðlögunin verður einungis þyngri. Sleiktu sólina, farðu í bíó, hittu góðan vin eða annað sem gleður og dreifir huganum frá verkefnunum sem bíða.


Ef þú upplifir streitu þegar þú hefur störf aftur eftir sumarfrí er gott að skoða og meta stöðuna. Spyrja spurninga eins og af hverju er ég kvíðinn? Er það vinnan sjálf? Verkefnin? Get ég gert eitthvað til að bæta stöðuna og breyta líðaninni? Hugsanlega er þetta einungis vísbending um að þú hafir átt frábært frí og hefur náð að slaka vel á. Þú ert að upplifa eftirsjá eftir góðu sumri með góðu fólki og ónotin tengjast því að fara úr léttleika tilverunnar í skipulag og álag atvinnulífsins. Fullkomlega eðlileg líðan og tækifæri til að skipuleggja skemmtilegt haust og næsta frí!

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)