Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. september 2015

Kjarasamningsviðræður árangurslitlar

IMG_0175Samninganefndir SFR, SLFÍ og LL áttu fund með samninganefnd ríkisins fyrir stundu. Á fundinum svaraði samninganefnd ríkisins launakröfum félaganna sem lagðar voru fram í síðustu viku.

Tilboð samninganefndar ríkisins sem lagt var fram í dag olli, svo ekki sé meira sagt, verulegri óánægju í röðum fulltrúa samninganefnda félaganna. Enda var það lítið breytt frá því tilboði sem ríkið lagði fram 27. júní síðastliðinn og alls ekki í takt við launakröfur félaganna sem tóku mið af nýgengnum gerðardómi sem eins og kunnugt er ákvað nýlega laun félaga í BHM og hjúkrunarfræðinga.

Með því tilboði sem ríkið lagði fram í dag sendir ríkið skýr skilaboð til þeirra starfsmanna sinna sem lægra eru launaðir að þeir eigi að bera mun minna úr býtum en aðrir ríkistarfsmenn. Þetta er í algjörri mótsögn við þá stefnu að hækka laun þeirra sem lægri launin hafa sem hingað til hefur verið uppi á borðum.

Árni Stefán Jónsson formaður SFR sagði að loknum fundi að félögin hefðu bent samninganefnd ríkisins á það að ef kjarasamningur yrði gerður á þeim nótum sem tilboð ríkisins í dag boðaði, yrði hann hratt og örugglega felldur af félagsmönnum allra þriggja félaganna, líkt og hjúkrunarfræðingar hefðu gert við svipaðan samning.

Ríkissáttasemjari ákvað eftir að ljóst var að hvorugur samningsaðili myndi sveigja frá sínum kröfum að boðað yrði til fundar aftur í næstu viku til að taka stöðuna þá.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)