Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. september 2015

Mun rómuð staða ríkissjóðs skila sér inn í kjarasamningsviðræður félaganna í dag?

Ef marka má ræður forsætis- og fjármálaráðherra í gærkvöld hljóta samninganefndir SFR, SLFÍ og LL að fara bjartsýnar á fund samninganefndar ríkisins síðar í dag. Í stefnuræðu sinni rómuðu þeir góðan árangur ríkisins í efnahagsmálum og boðuðu skattalækkanir og betri afkomu heimilanna.

Í ræðu sinni lögðu ráðherrarnir áherslu á að aðilar vinnumarkaðarins, bæði hins opinbera og almenna, stæðu saman að því að verðbólgan fari ekki aftur af stað og ógni þannig verðmætasköpun í samfélaginu.

Enn eiga margir hópar starfsmanna með milli- og lægri tekjur eftir að semja um kjarabætur, þar á meðal stórir hópar ríkisstarfsmanna. Samningar eru víða löngu komnir í hnút og langar setur á fundum með ríkissáttasemjara hafa ekki skilað neinum sjáanlegum árangri. Um þetta sögðu ráðherrarnir hins vegar ekki orð og enn síður útskýrðu þeir þá mismunun sem síðasta útspil ríkisvaldsins inn í kjaraviðræður ríkisstarfsmanna fól í sér - ríkisstarfsmanna í almannaþjónustu sem sinna grundvallar þjónustu landsmanna, mikilvægum störfum fyrir almenning.

Forsætisráðherra var tíðrætt um jöfnuð og misskiptingu í ræðu sinni og sagði stöðuna hérlendis vera þá að misskipting hafi minnkað. Enn fremur sagði hann stærstu réttarstöðu heimilanna vera að styrkja stöðu fólks með milli- og lægri tekjur enda leiði það til aukins jöfnuðar. Í gegnum kjarasaminga þarf ríkið einnig að tryggja jafna stöðu launafólks á vinnumarkaði þannig að bilið milli opinbera markaðarins og hins almenna minnki. Leiðin að þessu er ekki að skilja milli- og lægri tekjuhópa ríkisstarfarmanna eftir og bjóða þeim lakari kjarasamninga en öðrum ríkisstarfsmönnum. Það er aukin misskipting.

Síðar í dag er samningafundur SFR stéttarfélags í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna við ríkið, þar sem ljóst verður hvort stjórnvöld eru viljug til að koma til móts við þessa hópa ríkisstarfsmanna með sama hætti og þá hópa sem nýlega fengu launahækkanir með niðurstöðu Gerðardóms.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)