Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. október 2015

Baráttukveðjur að vestan

Félagsfundur Lögreglufélags Vestfjarða, sem haldinn var í gær fimmtudaginn, sendi frá sér ályktun þar sem SFR og SLFÍ eru m.a. sendar baráttukveðjur í fyrirhuguðum verkföllum. Samstaðan er sannarlega mikils virði.

 Ályktun

Félagsfundur Lögreglufélags Vestfjarða sendir samstarfsfélögum í SLFÍ og SFR baráttukveðjur í fyrirhuguðum verkföllum sem framundan eru ef ekki verður samið hið fyrsta.

Fundurinn bendir á að lögreglumenn hafa dregist verulega aftur úr í launum miðað við aðrar viðmiðunarstéttir.  Þar hefur ekki verið staðið við gerða samninga af hálfu ríkisvaldsins.  Þegar þessi ályktun er gerð hafa lögreglumenn verið samningslausir í 154 daga. Fundurinn krefur ráðamenn þjóðarinnar um að þeir leysi þá kjaradeilu sem LL, SLFÍ og SFR eru í. 

Fundurinn lýsir yfir áhyggjum á fjárskorti til lögreglunnar í landinu.

Fundurinn bendir á að frá árinu 2000 – 2014 hefur lögreglumönnum fækkað um 10,79%, lögreglubifreiðum fækkað um 12,42% og akstur lögreglubifreiða dregist saman um 35,32%.

Á sama tíma hefur íbúafjöldi á Íslandi aukist um 16,71% og ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um 229,34% og ökutækjum á Íslandi fjölgað um 49,3%. Fundurinn bendir á að þessi fjárskortur á sama tíma og fjöldi þeirra sem ferðast um landið fjölgar kemur niður á öryggi lands- og ferðamanna.

Fundurinn skorar á ríkisvaldið að veita því fjármagni sem þarf til að tryggja öryggi lögreglumanna og landsmanna allra. Fundurinn vill beina athyglinni að þeirri staðreynd að slysatíðni innan lögreglunnar er mikil og er rót þess vanda undirmönnun og almennt þjálfunarleysi. Fundurinn vill benda ríkisvaldinu á, sem vinnuveitanda lögreglumanna, að það beinlinis stefni starfsmönnum sínum í voða með þeim gríðarlega niðurskurði sem orðið hefur á fjárveitingum til löggæslumála og þeirri staðreynd sem birtist í sífellt fækkandi fjölda starfandi lögreglumanna um allt land.

Fundurinn bendir á að í löggæsluáætlun ríkisstjórnarinnar er stefnt á að fjölga lögreglumönnum um allt land.  Að mati fundarins mun ríkisstjórninni ekki takast það með þessu áframhaldi.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)