Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. janúar 2016

Lífeyrissjóðsmál í brennidepli

trunofundur1Fyrsti fundur trúnaðarmannaráðs SFR var haldinn í gær. Á fundinum kynnti Jóhanna Þórdórsdóttir fræðslustjóri SFR fjölmarga fræðslumöguleika fyrir trúnaðarmenn og hvatti þá til þess að nýta sér þá. Þá fjölluðu þau Árni Stefán Jónsson formaður SFR og Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB um stöðuna í lífeyrismálum. Eins og kunnugt er þá hafa staðið yfir viðræður á milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda um jöfnun lífeyrisréttinda um nokkurt skeið. Sú vinna er nú í fullum gangi og kynntu þau Árni og Elín þær hugmyndir sem nú eru til umræðu.

Ein þeirra er að hækka lífeyrisaldurs um tvö ár en auka um leið sveigjanleika til töku lífeyris, þá hefur einnig verið rætt um að taka upp aldursávinnslu í stað jöfnunarávinnslu áður og fleira. Umræður eru eins og áður sagði enn í fullum gangi og bæði Árni og Elín lögðu á það ríka áherslu að ekki verður skrifað undir neitt samkomulag fyrr en á borðinu liggja tillögur sem BSRB getur sætt sig við. Þau sögðu einnig að þær breytingar sem mögulega yrðu samþykktar myndu alltaf verða innleiddar á löngum tíma og þau réttindi sem fólk hefur þegar unnið sér inn tryggð.

Ef samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda næst verður samkvæmt samkomulagi opinberra starfsmanna og stjórnvalda tekin upp launaskriðstrygging vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það tryggir að launaskrið á almennum markaði skili sér einnig í launaumslag opinberra starfsmanna. Þetta hefur verið mikið baráttumál undanfarin ár og yrði mikill ávinningur fyrir opinbera starfsmenn.

Að loknum erindum Árna og Elínar unnu trúnaðarmenn saman í hópavinnu og ræddu þar m.a. þær hugmyndir sem kynntar voru og áherslur sem þeir vildu sjá í umræðunni.

 

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)