Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

31. mars 2016

Skorað á heilbrigðisráðherra að löggilda starfsheiti Félagsliða

Tuttugu og tvö stéttarfélög um allt land á almenna markaðnum og hjá hinu opinbera hafa skorað á heilbrigðisráðherra að löggilda starfsheitið félagsliði. Félagsliðar hafa barist fyrir því að verða löggilt heilbrigðisstétt um árabil en lítið hefur gengið. Löggilding félagsliða er ekki bara mikilvæg fyrir framgang stéttarinnar heldur ekki síst fyrir gæði þjónustu við þann vaxandi hóp sem þarf á aðstoð að halda. Fulltrúar félagsliða gengu á fund heilbrigðisráðherra í nóvember síðastliðnum til að tala fyrir löggildingu en engar fréttir hafa borist af framgangi málsins. Á fræðsludegi félagsliða sem haldinn var nýverið er ljóst að krafan um löggildingu er sterk innan stéttarinnar enda ólíðandi að félagsliðar sitji ekki við saman borð og sambærilegar stéttir.

 Áskorun um löggildingu félagsliða - mars 2016

Stétt félagsliða telur nú hátt í eitt þúsund manns en tólf ár eru síðan námið stóð fyrst til boða. Félagsliðar eru sérmenntaðir til að veita þjónustu í formi aðstoðar og umönnunar einstaklinga á öllum aldri sem vegna félagslegra aðstæðna, líkamlegrar eða andlegra hömlunar eiga erfitt um vik að sjá um sig sjálfir. Félagsliðar hafa aðallega starfað með öldruðum og fötluðum, bæði á stofnunum og sem aðstoð í daglegu lífi.

Félagsliðar hafa barist fyrir því að verða löggilt heilbrigðisstétt um árabil en lítið hefur gengið. Löggilding félagsliða er ekki bara mikilvæg fyrir framgang stéttarinnar heldur ekki síst fyrir gæði þjónustu við þann vaxandi hóp sem þarf á aðstoð að halda.

  • Félagsliðar eru vaxandi stétt sem mætir vaxandi þörf í samfélaginu fyrir sérþekkinguna sem námið veitir. Sífellt meiri áhersla er á að sinna fólki heima hjá sér og veita aðstoð við allar dagslegar athafnir.
  • Félagsliðar eru sérmenntaðir í að auka lífsgæði skjólstæðinga bæði félagslega og andlega og við daglegar athafnir.
  • Í greiningu sem Starfsgreinasamband Íslands vann á fræðsluþörf fyrir aðstoðarfólk fatlaðs fólks kemur fram að nám félagsliða uppfyllir þær gæðakröfur sem gerðar eru á Norðurlöndunum um menntun fyrir aðstoðarfólk.
  • Vegna skorts á löggildingu er ekki tekið tillit til félagsliða í mönnunarmódelum stofnana og því er síður auglýst eftir fólki með félagsliðamenntun. Stofnanir verða því af mikilvægri þekkingu starfsfólks.
  • Til að viðhalda stéttinni og efla hana enn frekar til að mæta framtíðakröfum er nauðsynlegt að sýna stéttinni tilhlýðiðlega virðingu og er löggilding stærsta skrefið í þá átt.
  • Það er vanvirðing við starf félagsliða að stétt þeirra skuli ekki vera talin með fjölmörgum öðrum fagstéttum sem löggilt starfsgrein í lögum um heilbrigðisstarfsmenn.

 

Við skorum á heilbrigðisráðherra að löggilda stétt félagsliða hratt og örugglega!

Félag íslenskra félagsliða, SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsgreinasamband Íslands, Stéttarfélag Vesturlands, Framsýn stéttarfélag, Verkalýðs- og sjóm.f. Keflavíkur og nágrennis, Eining – Iðja, Efling stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Drífandi stéttarfélag, Aldan stéttarfélag, Verkalýðs- og sjóm.f. Sandgerðis, Verkalýðs- og sjóm.f. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, AFL starfsgreinafélag, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýsðfélag Grindavíkur

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)