Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. maí 2016

Sigurvegarar í Stofnun ársins 2016

SFR Fyrirmyndarstofnun 2016-01

SFR Hastokkvari 2016-02

SFR Stofnun arsins 2016-01

SFR stéttarfélag hefur nú kynnt niðurstöður úr könnuninni um Stofnun ársins ellefta árið í röð en könnunin sem er ein sú stærsta sinnar tegundar á landinu er unnin af Gallup í samstarfi við VR, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Fjármála - og efnahagsáðuneytið. Val á Stofnun ársins er byggt á svörum tæplega 8.000 starfsmanna hjá ríki og sjálfseignarstofnunum sem starfa hjá 142 stofnunum.
 

Stofnanir ársins 2016 eru þrjár, ein úr hverjum stærðarflokki.
Ríkisskattstjóri
er Stofnun ársins annað árið í röð, í flokki stórra stofnana sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri.
Menntaskólinn á Tröllaskaga
er Stofnun ársins einnig annað ári í röð, í flokki meðalstórra stofnana þar sem starfsmenn eru 20-49 talsins.
Héraðsdómur Suðurlands
er Stofnun ársins þriðja árið í röð í flokki minni stofnana þar sem starfsmenn eru færri en 20.
Titilinn Hástökkvari ársins 2016
fær sú stofnun sem hækkar sig mest á milli ára en það er Framhaldsskólinn á Laugum sem hækkaði um 65 sæti á milli ára.

Í hverjum flokki hljóta efstu stofnanirnar sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun.

Í flokki stórra stofnana eru fimm fyrirmyndarstofnanir. Þær eru auk Ríkisskattstjóra, Fjölbrautaskóli Suðurnesja (sem var einnig í öðru sæti í fyrra), Reykjalundur (sem einnig var í þriðja sæti í fyrra), Vínbúðirnar (ÁTVR) (sem voru í 6. sæti í fyrra) og Fjölbrautaskólinn við Ármúla (sem einnig var í fimmta sæti fyrir ári).

Í flokki meðalstórra stofnana eru fyrirmyndarstofnanirnar einnig fimm. Þær eru auk Menntaskólans á Tröllaskaga,  Einkaleyfastofa (sem einnig varð í öðru sæti fyrir ári og sigurvegari árið þar á undan) og Landmælingar Íslands, sem lentu í fjórða sæti í fyrra, Samkeppniseftirlitið (sem var í 11. sæti fyrir ári) og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins  (sem var í 6. sæti í fyrra)

Í flokki minni stofnananna eru fyrirmyndarstofnanirnar þrjár, þ.e. Héraðsdómur Suðurlands, Hljóðbókasafn Íslands og Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin var einnig í öðru sæti í fyrra.

Um leið og SFR stéttarfélag óskar sigurvegurum innilega til hamingju með árangurinn viljum við senda hvatningu til allra stjórnenda stofnana um að nýta sér niðurstöður könnunarinnar til hagsbóta fyrir starfsfólk og starfsemi stofnunarinnar.

 

 

Úr fréttatilkynningu:

Það er afar ánægjulegt að verða vitni að því í könnun sem þessari hvernig góð stjórnun og áhersla á mannauðsmál skilar sér í aukinni ánægju og stolti starfsfólks. Sumar stofnanirnar hafa margar hverjar vermt efstu sætin ár eftir ár og uppskera þannig það góða starf sem unnið er innan þeirra. Sérstaklega áhugavert er að fylgjast með hreyfingum á listanum og sjá stofnanir fikra sig upp listann á milli ára. Sú stofnun sem hækkar sig hlutfallslega mest á milli ára hlýtur jafnan sérstök verðlaun enda það oftast merki um að jákvæðar breytingar hafa orðið innan stofnunarinnar eða sérstakt átak verið gert í mannauðsmálum sem skilar sér í aukinni ánægju starfsmanna.

Um niðurstöðurnar:
Í könnuninni eru mældir þættir á borð við ánægju og stolt, starfsanda, trúverðugleika stjórnenda, launakjör, sjálfstæði í starfi, vinnuskilyrði, sveigjanleika vinnu, ímynd stofnunar og nú í fyrsta sinn jafnrétti. Starfsmenn svara ítarlegri könnun um alla þessa þætti og er val á Stofnun ársins byggt á þeim svörum. Niðurstöðurnar gefa jafnt stjórnendum sem starfsfólki mikilvægar upplýsingar um stöðu mála innan stofnunarinnar og samstarf félaganna gefa verðmætan samanburð við aðrar stofnanir og fyrirtæki bæði á almennum markaði og hjá sveitarfélögunum.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að heildareinkunn hefur almennt hækkað á undanförnum árum. Af þeim níu þáttum sem mældir eru fá þættirnir sem mældu mat starfsfólks á sveigjanleika vinnu og sjálfstæði í starfi hæsta einkunn en lægsta einkunnin er eins og áður á þættinum sem mælir ánægju með launakjör. Einkunnin sem gefin er fyrir launakjör hækkaði þó nú á milli ára, jafnt hjá SFR og þeim félögum sem þátt eiga að könnuninni. Líklegt má telja að nýafstaðnir kjarasamningar hafi haft áhrif á einkunn þessa þáttar.

Starfsfólk minni stofnana er jafnan ánægðara en starfsfólk stærri stofnana og einnig mælist munur milli kynjanna. Konur gefa alla jafna örlítið hærri einkunn, þær bera til dæmis meira traust til stjórnenda og telja sig bæði fá hvatningu og sveigjanleika í vinnu umfram það sem karlanir telja. Undantekning er þó í spurningunum sem sem snúa að jafnrétti. Færri konur en karlar telja til dæmis að jafnrétti ríkji á vinnustaðnun og þá telja karlar einnig frekar en konur að kynin hafi sömu tækifæri til starfsframa.

Félagsmenn VR á almennum vinnumarkaði eru að vanda ánægðari með vinnustað sinn en opinberir starfsmenn en heildareinkunn allra þátta er að jafnaði hærri hjá þeim en opinberum starfsmönnum. Þegar bornar eru saman niðurstöður síðustu ára má hins vegar sjá að það hefur dregið saman í heildareinkunn á milli almenna og opinbera markaðarins á milli ára þannig að ánægja félagsmanna á opinberum markaði hefur aukist ívið meira en ánægja starfsmanna á almennum markaði.

Allar nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar má finna á hér á vefnum undir Kannanir/Stofnun ársins.

 

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)