Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

24. október 2016

Yfirlýsing heildarsamtaka launafólks í tilefni 24. okt.

Í sameiginlegri yfirlýsingu íslensku verkalýðshreyfingarinnar eru konur hvattar til að sýna samstöðu og leggja niður störf klukkan 14:38 í dag til að fylgja eftir kröfu um kjarajafnrétti.

Í yfirlýsingunni, sem forystufólk BSRB, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands hafa sent frá sér er vakin athygli á því að í dag, 41 ári eftir að íslenskar konur vöktu heimsathygli með því að leggja niður störf sé enn þörf á að grípa til aðgerða til að krefjast raunverulegra úrbóta.

Eins og fram kemur í frétt frá Hagstofu Íslands mældist kynbundinn launamunur á síðasta ári tæplega 30%. Óleiðréttur launamunur, sem byggir á reglulegu tímakaupi með yfirvinnu, mældist 17%.

Rétt er að taka fram að skrifstofa SFR og BSRB verða lokuaðar eftir klukkan 14:38 í dag.

Lesa má yfirlýsinguna í heild hér að neðan:
Baráttan fyrir afnámi kynbundins launamunar hefur staðið í meira en hálfa öld. Þokast hefur í rétta átt en ekki hefur tekist að uppræta kerfisbundna mismunum kynjanna á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöður nýrra kjararannsókna verkalýðshreyfingarinnar vitna um stöðu sem er óviðunandi. Enn mælist óútskýrður munur á launum karla og kvenna. Það þýðir að konur fá lægri laun fyrir sömu störf og karlar gegna vegna þess að þær eru konur. Munur á heildartekjum karla og kvenna hérlendis er enn meiri, eða tæplega 30%. Sá munur skýrist meðal annars af því að þau störf sem konur gegna að miklum meirihluta eru minna metin en starfsgreinar þar sem karlar eru í meirihluta. Þá gegna konur hlutastörfum í meiri mæli en karlar. 

Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að í kjarasamningum er samið um sömu laun fyrir konur og karla. Ákvörðunin um að greiða konum lægir laun en karlar fyrir sambærileg störf er tekin í hverri viku á vinnustöðum um allt land. Árið 2016 eru konur minna metnar en karlar í atvinnulífinu. Við það verður ekki unað.

Í dag, 41 ári eftir að íslenskar konur vöktu heimsathygli með því að leggja niður störf og vekja rækilega athygli á vinnuframlagi kvenna, þarf enn að grípa til aðgerða og krefjast raunverulegra úrbóta á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þess vegna munu konur leggja niður störf í dag, mánudaginn 24. október kl. 14:38 og safnast saman á Austurvelli og víða um land. Aðgerðin eru skipulögð af samtökum kvenna og verkalýðshreyfingunni allri. Við hvetjum konur um allt land til að sýna samstöðu með hver annarri í dag kl. 14:38 og kröfunni um kjarajafnrétti STRAX!

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ)
Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ)
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM)

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)