Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

23. mars 2017

Aðalfundur SFR

Aðalfundur SFR var haldinn 23. mars og var fjölmennur að venju. Dagskráin var með hefðbundnu sniði og byrjaði Árni Stefán Jónsson á því að flytja skýrslu stjórnar og rakti þar helstu baráttumál og viðburði ársins 2016. Í máli hans kom meðal annars fram að Saga SFR hefur verið gefin út og mun útgáfunni fagnað á næstkomandi trúnaðarmannafundi. Þórarinn Eyfjörð gerði grein fyrir reikningum félagsins. Að því loknu voru bæði skýrsla og reikningar samþykkt samhljóða.

Lagðar voru fram lagabreytingar sem meðal annars gerðu ráð fyrir því að fjölgað yrði í Félagsráð úr 15 í 20 manns og orðalagi að aðild að félaginu breytt á þann veg að rétt til aðildar eiga nú einnig stéttarfélög sem gera kjarasamning á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þessi breyting var gerð vegna inngöngu Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins í SFR. Auk þess voru samþykktar breytingar á reglum Orlofssjóðs og hlutverk hans útvíkkað aðeins til þess að auka möguleika á því að bjóða félagsmönnum aðra orlofsmöguleika en orlofshús.

Fulltrúi kjörstjórnar kynnti niðurstöður rafrænnar kosningar sem fram fór 12.-22. mars. Ellefu frambjóðendur voru í kjöri en tíu voru kjörnir í stjórn SFR. Alls voru 5505 á kjörskrá en kjörsókn var 19,09%. Nýja stjórn SFR skipa: Berglind Margrét Njálsdóttir Tollstjóri, Bryndís Theódórsdóttir Vinnumálastofnun, Elín Helga Jóhannesdóttir Sanko Gjörgæsludeild LSH Fossvogi, Garðar Svansson Fangelsismálastofnun, Gunnar Garðarsson Vegagerðin, Jóhanna Lára Óttarsdóttir Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Ramuné Kamarauskaité Isavia – flugverndarþjónusta, Sigurlaug Hrefna Sverrisdóttir Háskóli Íslands, Viðar Ernir Axelsson Landhelgisgæsla Íslands og Þórey Einarsdóttir Sjálfsbjargarheimilið. Árni Stefán Jónsson var réttkjörinn formaður SFR en engin mótframboð bárust.

Þá var á fundinum einnig kosið í stjórnir Orlofssjóðs, Starfsmenntunarsjóðs, Styrktar- og sjúkrasjóðs, Vinnudeilusjóðs, skoðunarmenn reikninga og Kjörstjórn. Ákveðið var að iðgjald og skiptingu milli sjóða væri óbreytt. Í Félagssjóð 0,87% og Vinnudeilusjóð 0,23% og rekstraráætlun.
Að venju var tilkynnt um trúnaðarmann ársins en í ár er hann Páll Svavarsson hjá Hafrannsóknarstofnun. Páll var því miður fjarri góðu gamni en fundarfólk klappaði fyrir hinum nýja trúnaðarmanni ársins engu að síður.

Fjórir einstaklingar gengu úr stjórn nú vegna útskiptireglu og var þeim afhentur blómvöndur og þeim þakkað góð störf fyrir félagið undanfarin ár.

Að lokum staðfesti aðalfundurinn inngöngu Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins í SFR en inngangan var heimiluð í stjórn félagsins í júní síðastliðinn.
Ársskýrslu SFR má finna hér.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:

Ályktun aðalfundar SFR um kjaramál
Á undanförnum árum hafa aðilar vinnumarkaðarins unnið að auknum stöðugleika á vinnumarkaði og bættum vinnubrögðum í kjarasamn¬ings¬gerð. Samkomulag aðila vinnumarkaðarins, hið svokallaða rammasam¬komulag sem gert var við kjarasamningsgerðina 2015, grundvallast á norræna samninga-líkaninu sem hvílir á sameiginlegum skilningi og trausti milli aðila vinnumarkaðarins og er því horn-steinn í þessu ferli. Rammasamkomulagið var tilraun til að samræma launaþróun launafólks á vinnu-markaði með það í huga að ná fram og viðhalda efnahagslegum stöðuleika.
Í framtíðarlíkani aðila vinnumarkaðarins sem gengið hefur undir nafninu SALEK hefur djúp áhersla verið lögð á að samfara efnahagslegum stöðuleika verði ríkisvaldið og sveitarfélög að koma að því og tryggja félagslegan stöðuleika.
Viljinn til að standa saman um að tryggja öllu launafólki aukna velferð, sanngjarna tekjuskiptingu og réttlátan hlut í sameiginlegum sjóðum er mismikill. Ekki hefur tekist að sameina alla aðila að því markmiði. Því ber að leggja áherslu á að grunnstoðir almannaþjónustunnar; heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið eru hluti af þessari sátt í norræna líkaninu og eiga því að styðja við ákvarðanir á vinnumarkaði. Þar vantar vilja, skilning og traust stjórnvalda.
Umræðan um SALEK hefur nú legið niðri í nokkurn tíma og óvíst hvort henni verði haldið áfram. Til að svo megi verða þurfa fleiri aðilar að koma að þeirri umræðu. Stjórnvöld verða að leggja sitt að mörkum. Að taka upp nýtt samningsmódel á íslenskum vinnumarkaði er svo stórt mál að áður en það er mögulegt, þá verður að fara fram ítarleg umræða í þjóðfélaginu. Á hvaða grunni samningslíkanið skuli hvíla og hvernig eigi að þroska það og þróa. Nýtt kjarasamningslíkan verður ekki tekið upp nema um það ríki víðtæk sátt í þjóðfélaginu.

Ályktun aðalfundar SFR um áfengisfrumvarpið
Aðalfundur SFR lýsir yfir andstöðu sinni við frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi sem felur í sér afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og heimilar áfengisauglýsingar og hvetur þing¬menn til að hafna frumvarpinu.
Af greinagerðinni við frumvarpið koma að mati SFR ekki fram nein mál¬efnaleg rök fyrir breytingunni. Þvert á móti hafa sérfræðingar lýst áhyggjum sínum af afleiðingum þess á heilbrigði almennings. Rannsóknir hafa sýnt fram á að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu þess. Samhliða þessu eykst samfélagslegur kostnaður og álag á heilbrigðiskerfi sem er nú þegar svelt. Af þessu má leiða að breytingar á löggjöfinni eins og hér eru lagðar til geti haft umtalsverðar afleiðingar fyrir samfélagið í heild.
Eitt af markmiðum stjórnvalda hefur verið að draga úr áfengisneyslu landsmanna. Þetta hefur m.a. verið gert með því að takmarka aðgengi að áfengi með aðhaldsaðgerðum á sölu. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að stuðla að heilbrigði landsmanna og bættri lýðheilsu. Frumvarpið er beinlínis í andstöðu við þessi markmið.
SFR bendir einnig á að með því að leyfa sölu áfengis í búðum er verið að gera grundvallarbreytingar á þjónustunni. Verið er að heimila einkasölu áfengis í hagnaðarskyni. Núverandi dreifingaraðili áfengis, ÁTVR, hefur ekki hvatt til aukinnar sölu áfengis enda stefna þess að vera fyrirmynd á sviði samfélags¬ábyrgðar og leggur ÁTVR því áherslu á að stuðla að ábyrgri áfengis¬neyslu og umgengi við áfengi. Ekki er gert ráð fyrri að sambærilegar skyldur verði lagðar á einkaaðila og gerðar eru nú til ÁTVR í þessum efnum. Með því að leyfa áfengisauglýsingar er verið að opna á áfengisáróður gagnvart viðkvæmum hópum þar á meðal börnum og markaðsvæða þessa viðkvæmu vöru og þjónustu í nafni frelsis, sem stefnir enn fremur framangreindum markmiðum í hættu.

Ályktun aðalfundar SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins

Á undanförnum misserum hefur kostnaðarþátttaka sjúklinga og einkavæðing í heilbrigðiskerfinu aukist stórlega. Einhliða ákvarðanir sjórnvalda hafa komið í bak landsmanna án umræðu um stefnu-breytingu í málaflokknum. Mikill meirihluti almennings hefur lýst því yfir að heilbrigðisþjónusta skuli vera í höndum stjórnvalda enda sé einungis þannig hægt að tryggja jöfnuð.
Reynsla annarra landa þar sem heilbrigðisþjónusta hefur verið einka¬vædd að hluta eða í heild, sýnir að hún leiðir af sér aukna kostnaðar¬þátttöku sjúklinga og lakari þjónustu.
Aukin kostnaðarþátttaka verður að teljast liður í einkavæðingarferlinu. Með því móti eru sjúklingar vandir við að greiða eigi fyrir þjónustu af þessu tagi og því ólíklegra að til baka yrði aftur snúið.
Aðalfundur SFR telur fullljóst að aðeins með opinberum rekstri heil¬brigðis¬kerfisins sé hægt að tryggja jafnt aðgengi allra að heil¬brigðisþjónustu, óháð efnahag. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins veikir stoðir grunnþjónustunnar og tekur aðalfundur SFR því afdráttarlausa afstöðu gegn öllum aðgerðum í þá veru.
Frekar ætti að færa rekstur heilbrigðiskerfisins í félaglegra horf enda skilar það betri og réttlátari þjón¬ustu og minni kostnaði.

Ályktun aðalfundar SFR um lífeyrismál
Aðalfundur SFR skorar á fjármálaráðherra að koma í gegn breytingum á lögum um lífeyrismál opinberra starfsmanna þannig að þau verði í samræmi við samkomulag sem bandalög opinberra starfsamanna gerðu við ríki og sveitarfélög á síðasta ári. Samþykki fulltrúa bandalaga opinberra starfsmanna var byggt á trausti milli aðila sem nú er rofið. Afstaða opinberra starfsmanna byggði á þeim grunni að áunnin réttindi sjóðfélaga yrðu jafn verðmæt fyrir og eftir breytingarnar og lá það alltaf ljóst fyrir. Þrátt fyrir afar skýrt orðalag samkomulagsins kaus Alþingi að standa ekki við þau fyrirheit og rjúfa það traust sem bandalög opinberra starfsmanna sýndu stjórnvöldum þegar fulltrúar þeirra undirrituðu samkomulagið þann 19. september síðastliðinn.
Aðalfundur SFR fer því fram á að þetta verði leiðrétt og að staðið verði að fullu við samkomulagið frá 19. september á síðasta ári enda grund¬völlur áframhaldandi samstarfs um þessi mikilvægu mál.

Ályktun um aðalfundar SFR um umhverfismál
Sjálfbær nýting auðlinda okkar er undirstaða alls lífs í landinu. Opinberir aðilar verða því að sýna frumkvæði og ábyrgð með því að starfa í anda sjálfbærrar þróunar og vistvænnar hugsunar. Við berum öll ábyrgð í umgengni við náttúruna og því er mikilvægt að atvinnulífið þróist inn á umhverfisvænni brautir. Þannig stuðlum við að efnahagslegri, félags¬legri og vistfræðilegri velferð og tryggjum að ekki sé gengið á arð komandi kynslóða.
Aðalfundur SFR leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að Ísland axli ábyrgð í losun gróðurhúsa-lofttegunda og hvetur til aukinnar notkunar á innlendum vistvænum orkugjöfum og hraðari útskipta á hefðbundnu eldsneyti. Einnig leggur fundurinn ríka áherslu á að ekki verði bætt við nýjum orkufrekum og mengandi iðnaði.
Efla þarf almenningssamgöngur og uppbyggingu innviða samgöngu¬kerfis í þágu hjólandi og gangandi. Gera þarf aðra valkosti en einkabílinn aðgengilegri almenningi og draga þannig úr notkun einkabíla. Mikil¬vægt er að atvinnurekendur hvetji starfsfólk til að nota vistvæna samgöngu¬máta í og úr vinnu t.d. með því að bjóða starfsfólki samgöngustyrki. Aðeins með því að virkja alla í samfélaginu er hægt að tryggja rétt allra til að búa í heilsusamlegra umhverfi.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)