Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

23. maí 2017

Stofnanasamningar SFR - spurt og svarað

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að endurskoðun stofnanasamninga sem gerðir eru á grundvelli kjarasamnings SFR og ríkisins. Stór hluti þeirrar vinnu er að varpa starfsmönnum stofnana í nýja launatöflu, byggða á álagsþrepum í stað aldursþrepa, sem tekur gildi 1. júní 2017. Við vörpunina er tryggt að enginn fái minna en sem nemur 4,5% hækkun en búast má við að flestir hækki á bilinu 4,5-7% þar sem ríkið lagði til sérstakan pott til að auðvelda þetta umfangsmikla verkefni. SFR leggur upp með að vörpunin sé gerð með gegnsæju kerfi svo dregið verði úr einstaklingsbundnum ákvörðunum. SFR vekur athygli á því að við vörpunina breytist númerið á launaflokknum og ekki er hægt að lesa beint á milli eldri töflunnar og þeirrar nýju.

Nú þegar hefur verið lokið við hluta stofnanasamninga og má sjá þá á vefsíðu félagsins sfr.is undir kaup-og-kjor/kjarasamningar/rikid og eru þeir settir þar inn jafnóðum og vinna við þá klárast. Unnið er að því að fullum krafti að ljúka öðrum samningum og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki í byrjun júní enda munu júnílaun félagsmanna verða greidd út samkvæmt nýrri launatöflu.

Almennar spurningar og svör vegna vörpunar, nýrrar launatöflu og launahækkana 1. júní næstkomandi.

Hvað er stofnanasamningur?
Í stofnanasamningi kemur fram launasetning starfa og starfsheita hjá stofnun. Tækifæri innan stofnunar til launa- og starfsþróunar koma einnig fram í stofnanasamningum. Þá er útlistað hvernig fara skal með þætti eins og starfsaldur, menntun, bæði formlega eða sí- og endurmenntun, og aðra þætti bæði, persónulega- og tímabundna. Stofnanasamningur hefur því bæði að geyma grunn starfsheita og nánari útfærslu á möguleikum starfsmanna til þróunar í starfi.

Af hverju ný launatafla?
Launataflan sem skipta á út er orðin talsvert skökk. Vegna þess er launaflokkur ekki það sama og launaflokkur nú fyrir upptöku nýju töflunnar. Þessi skekkja er lagfærð með nýju launatöflunni þar sem 2,5% eru milli bæði flokka og þrepa. Launaflokkar í töflunni sem horfið er frá skila frá tæpu 1% til tæpra 3%. Auk þess að lagfæra bil milli þrepa og flokka er fallið frá því að fastsetja þrep við lífaldur. Í stofnanasamningum verður nú samið um útfærslu á hvaða atriði telji til launahækkana út í þrepin og hvað fari niður flokkana.

Hvar raðast ég í nýja launatöflu?
Í nýju töflunni eru bil milli flokka 2,5% og þrepa 2,5%. Þegar félagsmaður færist í nýja töflu er miðað við að hann fari í grunnlaunaflokk sem er jafn að krónutölu eða næsti flokkur fyrir ofan. Númer grunnlaunaflokks í gömlu töflunni er alltaf hærri en í nýju töflunni þó krónutalan í þeirri nýju sé hærri

Hvaða forsendur liggja að baki röðun í nýju töfluna?
Hver og einn fær a.m.k. 4,5% kjarasamningsbundna launahækkun. Því til viðbótar er vörpunarkostnaður milli launatafla (2,5%) sem dreifast misjafnt vegna ólíkra tafla. Hækkunin kemur á einstaklinginn ekki starfsheiti. Launagrunnur starfsheita (upphæð) á ekki að lækka.

Er launaflokkur X sami og X í nýju launatöflunni?
Númer á flokkum og þrepum í nýju töflunni eru ekki þau sömu og í eldri.
Hvernig verður með þrepin?
Nú er fallið frá því að fastsetja þrep við lífaldur og tækifæri gefin til launaþróunar í þrepum og flokkum, ekki einungi flokkum eins og var í gömlu töflunni. Um útfærslu er verið að semja í samstarfsnefndum á því hvaða viðbótarforsendur telji eins og áður til launaflokkahækkana og hvaða fari í hækkun þrepa.

Hvenær fæ ég að vita hvar ég raðast?
Laun fyrir störf í júnímánuði eiga að greiðast m.v. nýju launatöfluna, og skv. nýjum stofnanasamningi, þannig að launaseðillinn fyrir júní segir til um nýja röðun. Laun fyrir júní koma til greiðslu hjá flestum um mánaðarmótin júní/júlí og launaseðillinn kemur einnig þá.

Fæ ég tilkynningu um nýju röðunina?
Það verður ekki send út sérstök tilkynning. Nýir stofnanasamningar við hverja og eina stofnun ríkisins verða birtir á heimasíðu SFR um leið og þeir verða undirritaðir. Þar fram ný grunnröðun starfa og hvernig viðbótarforsendur raðast í nýju launatöfluna.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)