Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. maí 2018

Málþing um mannauð

Í tilefni könnunarinnar um Stofnun ársins héldu SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar nú í fyrsta sinn sameiginlegt málþing um mannauð þann 9. maí síðastliðinn. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að félögin vildu leggja sitt af mörkum til þess að dýpka umræðuna um mannauðsmál hjá stofnunum og vinnustöðum félagsmanna sinna. Yfirskrift málþingsins var Hvað þarf til þess að vera fyrirmyndarstofnun?

 Erindi héldu erindi þau Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri Tjarnarinnar frístundamiðstöðvar sem lagði einkum áherslu á skýra sýn og hlutverk starfsmanna. Hún sagði heiðarleika og hugrekki vera stærstu kosti góðra stjórnanda og mikilvægt væri að stjórnendur virkjuðu starfsmenn sína sem einstaklinga og stuðluðu að þátttökustjórnun. Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala  sem jafnframt er doktor í vinnusálfræði hefur mikla reynslu af því að vinna með kannanir sem stjórntæki. Hún sagði nútíma mannsstjórnun snúast um það að bregðast við áður en í óefni sigldi. Hlutverk kannana væri þar mikið því þær mældu það sem mögulega gætu verið neikvæð viðbrögð starfsmanna áður en afleiðingarnar kæmu fram. Það væri mikilvægt að starfsmenn jafnt sem stjórnendur væru jákvæðir gagnvart könnuninni og nýttu hana sér til hagsbóta með skipulögðum hætti.

Ólafur Þór Hauksson fyrrverandi sérstakur saksóknari og núverandi héraðssaksóknari talaði um góðan framgang sérstaks saksóknaraembættisins í könnuninni. Störf embættisins voru umdeild á erfiðum tímum í íslenskri efnahagssögu, stofnunin flutti oft á stuttu tímabili og miklar sveiflur voru í starfsmannahaldinu á meðan hún starfaði. Þrátt fyrir þetta var stofnunin valin Stofnun ársins af starfsmönnum þrjú ár í röð frá 2011-2013 og í því þriðja árið 2014. Galdurinn sagði Ólafur liggja meðal annars liggja í því stjórnendum tókst að skapa festu í starfseminni og tryggja grunnkröfur þrátt fyrir ólgusjóinn. Óvissu og ótta var markvisst eytt með því að hafa setninguna „Segðu það fljótt, segðu það allt og ljúgðu aldrei“ að leiðarljósi. Þá sagði hann einnig mikilvægt fyrir stjórnendur að vinna vel að ráðningarferlinu og því að skapa góða menningu fyrir samstarf og teymisvinnu. Að loknum erindunum slógust þau Gunnar Björnsson skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og Ragnhildur Ísaksdóttir starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar í hóp fyrirlesara og svöruðu áhugasömum málþingsgestum.

Það var mál manna á málþinginu að mikil þörf hefði verið á þessum vettvangi til fræðslu og skoðanaskipta. Augljóst er að hjá stjórnendum er mikill áhugi á því að nýta könnunina um Stofnun ársins frekar í starfi. SFR og St.Rv. eru afar þakklát fyrirlesurum og þátttakendum í málþinginu fyrir áhugaverðar umræður og hefur þegar verið tekin ákvörðun um að endurtaka málþingið í tengslum við Stofnun ársins á næsta ári.

Hér má finna glærur fyrirlesaranna á málþinginu:

Ásta Bjarnadóttir
Guðrún Kaldal
Ólafur Þór Hauksson



  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)