Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. janúar 2019

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu verður til

Á aðalfundum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (St.Rv.) og SFR stéttarfélags í almannaþjónustu sem nú lauk fyrir stundu voru ný lög og heiti sameinaðs félags samþykkt. Félagið heitir Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu og er félagssvæði þess allt landið. Ákvörðum um sameiningu félaganna lá fyrir að lokinni allsherjaratkvæðagreiðslu í byrjun nóvember síðastliðinn en þar samþykkti meirihluti félagsmanna í báðum félögum að félögin skyldu sameinast í eitt félag.

Höfuðmarkmið sameiningarinnar er að verða enn sterkari í kjara- og hagsmunabaráttunni og auka þjónustu við félagsmenn. Eftir sameiningu eru félagsmenn um ellefu þúsund og starfa við almannaþjónustu hjá ríki, borg, sveitarfélögum og fyrirtækjum í meirihlutaeigu opinberra aðila. Sameyki stéttarfélag er því langfjölmennasta stéttarfélagið á opinberum markaði og mun gera kjarasamninga við 18 viðsemjendur, flestir samninganna eru lausir í lok mars. Formaður Sameykis stéttarfélags er Árni Stefán Jónsson áður formaður SFR og varaformaður er Garðar Hilmarsson áður formaður St.Rv.

Alls barst 291 tillaga að heiti félagsins frá næstum rétt rúmum 200 félagsmönnum. Dómnefndin sem skipuð var tveimur fulltrúum frá hvoru félagi auk ráðgjafa frá auglýsingastofu sem einnig er íslenskufræðingum. Dómnefndin skilaði nokkrum tillögum til stjórna félaganna sem lagði eina tillögu, Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu fyrir aðalfund. Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða og var höfundi heitisins Margréti Högnadóttur afhent verðlaun og blómvöndum. Margrét hlaut í verðlaun gjafabréf í flug frá Icelandair og vikudvöl á Spáni í orlofshúsum félagsins.

Ályktun Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu
Stærsti hluti félagsmanna Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu starfar á opinberum vettvangi við almannaþjónustu. Kjarasamningar meirihluta félagsmanna eru lausir í lok mars og munum við á næstu dögum setja okkur í samband við okkar stærstu viðsemjendur. Krafan um að vinnandi fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum er grundvallar mannréttindakrafa. Jöfnun launa á milli vinnumarkaða er eitt af okkar mikilvægu málum sem við leggjum ríka áherslu á að verði lokið eins fljótt og auðið er. Auk þess viljum við tryggja að launaþróunartryggingin haldi sér.
Við sem störfum í almannaþjónustu þekkjum best hversu mikilvægt er að hlúa að innviðum velferðarkerfisins og búa þannig um hnútana að það sé tryggt og öllum opið. Starfsmenn í almannaþjónustu hafa búið við mikið álag og stytting vinnuvikunnar er því mikilvæg til þess að koma til móts við vaxandi álag og streitutengda sjúkdóma og mun stytting skipta miklu máli fyrir opinbera starfsmenn.

Við fögnum tillögum átakshóps um húsnæðismál sem hefur verið baráttumál lengi en leggjum áherslu á að þeim þurfi að fylgja eftir. Tillögur ASÍ um skattkerfisbreytingar tóna við stefnu BSRB í skattamálum meðal annars um fjölgun skattþrepa og tökum við þeim því fagnandi. Sameyki stéttarfélag óskar þeim félögum sem nú standa í eldlínunni í kjarasamningsviðræðunum góðs gengis og við fylgjumst vel með þróun mála.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)