Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

22. febrúar 2019

Skattatillögur ganga ekki nægilega langt

Formannaráð BSRB ályktaði um tillögur stjórnvalda að breytingum á skattkerfinu, sem kynntar voru nýlega. Formannaráðið telur að tillögurnar gangi ekki nægilega langt í átt að jöfnuði og réttlæti í samfélaginu og harmar hversu litlar lækkanir séu skammtaðar þeim lægst launuðum og hversu seint þær koma til framkvæmda. „Tillögur ríkisstjórnarinnar fela í sér að á næstu þremur árum verði skattbyrði einstaklinga lækkuð sem nemur alls 6.760 krónum mánaðarlega. Breytingarnar eiga að koma í þremur áföngum og á sá fyrsti ekki að koma til framkvæmda fyrr en í byrjun árs 2020 þegar skattbyrðin á að lækka um 2.253 krónur. Það veldur vonbrigðum hve lítil lækkunin er og enn meiri vonbrigðum hversu seint hún á að koma til framkvæmda,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins.

Í tillögunum eru skattar á þá lægst launuðu eru ekki einungis lækkaðir heldur einnig á þá sem hærri tekjur hafa. Formannaráðið ítrekar að bandalagið sé andvígt því að skattar séu lækkaðir á hátekjufólk og harmar að ekki sé lagt til að dregið verði úr tekjutengingum í barnabótakerfinu og bent á leiðir til að auka svigrúmið til þess. Nýta eigi það svigrúm sem stjórnvöld telji til staðar til skattalækkana til að lækka álögur á tekjulægstu hópana í samfélaginu.

„Samfélagið hefur kallað eftir réttlæti í skiptingu tekna og ekki síst í umræðu um ofurlaun. Ein leið til að mæta því ákalli er að innleiða hátekjuþrep í skattkerfið. Samanborið við hin Norðurlöndin er Ísland með færri skattþrep, hærri grunnprósentu og lægri hámarksprósentu. Með því að taka upp hátekjuskatt nýtist skattkerfið betur sem tekjujöfnunartæki,“ segir í ályktuninni.

Lestu ályktun formannaráðs BSRB um skattatillögur stjórnvalda í heild sinni á vef BSRB.

 

 

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)