Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. apríl 2020

1. maí - með breyttu sniði

Baráttudagur launafólks um allan heim verður svo sannarlega með öðru sniði í ár en við eigum að venjast. Engar fjölmennar baráttugöngur um bæi og borgir vegna samkomubanns en slíkt hefur ekki gerst síðan fyrsta baráttugangan var farin hér á landi árið 1923.

Yfirskriftin í ár er "Baráttan fyrir betra þjóðfélagi" og er þar vísað í baráttusöng launafólks Internationallann. Við ásamt öðrum stéttarfélögum á landinu höfum reynt að aðlaga okkur ástandinu og munum við vera ofur virk á samfélagsmiðlum, blöðum og í sjónvarpi í staðinn. Því við viljum fyrir alla muni senda okkar frábæra félagsfólki baráttukveðjur í tilefni dagsins. Við munum sýna samstöðu með öðrum hætti en áður - en ekkert minni!

Föstudagskvöldið 1. maí mun sjónvarpsdagskrá á RÚV vera helguð baráttunni. Heildarsamtök launafólks hafa tekið höndum saman og bjóða til sérstakrar skemmti- og baráttusamkomu í Hörpu sem sjónvarpað verður á RÚV föstudaginn 1. maí klukkan 19:40. Á þeim sögulega viðburði munu landsþekktir tónlistarmenn og skemmtikraftar koma saman auk þess sem flutt verða hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar. Meðal listamanna sem koma fram eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.

Þá verður N4 einnig með glæsilega dagskrá kl. 14:00 þann 1. maí.

Þrátt fyrir að ekki verði hægt að fara í kröfugöngu þetta árið verður áfram hægt að búa til sín eigin kröfuspjöld. Að þessu sinni verður það gert í gegnum Facebook, og verður það kynnt nánar þegar nær dregur. Þá mun Sameyki efna til teiknisamkeppni fyrir börn í tilefni dagsins sem einnig verður kynnt síðar.
Þeir sem eru virkir á samfélagsmiðlinum Facebook geta svo sýnt stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmynd sína 1. maí.

Við hvetjum alla til þátttöku á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins á Facebook og til að horfa á skemmtidagskrána á RÚV um kvöldið. 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)