Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. júlí 2020

Við vorum heppin

Í nýafstöðnu neyðarástandi vegna Covid-19 faraldursins stóðu opinberir starfsmenn svo sannarlega vaktina og þurftu margir hverjir að vinna undir miklu álagi. Við sjáum það skýrt á þessum viðsjárverðu tímum hvernig okkar fólk nýtir krafta sína og þekkingu til að halda uppi sterku velferðarkerfi. Um það snúast störfin sannarlega alla daga en það er hins vegar á tímum sem þessum að almenningur sér hversu mikilvæg störfin eru, hversu stórt hlutverk opinberra starfsmanna í að varðveita og halda utan um fólkið í landinu er í raun og veru. Það voru margir sem upplifðu miklar breytingar á sínum störfum meðan á þessu stóð og aukið álag eins og fram hefur komið í könnun BSRB. Í blaði Sameykis sem kom út á dögunum var birt viðtal við nokkra félagsmenn og fengum smá innsýn í það hvernig þeirra störf breyttust og hvernig þeim leið á meðan á neyðarástandinu stóð. Við munum birta þessi viðtöl hér á síðunni næstu daga.

Helga G. Hjörleifsdóttir hefur starfað með fólki með fötlun í 40 ár, fyrst hjá Lyngási og nú á leikskóladeild Bjarkaráss sem einnig ber nafnið Lyngás. Helga er félagsliði sem vinnur á deild með börnum sem hafa mikla fötlun, öll eru þau á forskólaaldri. Þar er pláss fyrir 6 börn og sum þeirra eru allan daginn og önnur hluta úr degi. Á Bjarkarási fá þau m.a. þroskaþjálfun, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun og þar er einnig unnið með tónlistarþerapíu. Auk þess hafa þau aðgang að heitum potti sem er að sögn Helgu afar mikilvægur í þjálfuninni. „Markmið okkar er að gera bæði fullorðnum og börnum kleift að útskrifast héðan og verða virkari í samfélaginu með því að stunda vinnu eða skóla. Börnin fara flest inn á leikskóla og grunnskóla og þeir fullorðnu í margs konar vinnu með stuðningi.“

Í Grófinni þar sem Bjarkarás er staðsett eru fjórar starfsstöðvar og þar starfa alls 76 starfsmenn með fötlun auk barnanna á Lyngási. Bjarkarási, var eins og öðrum sambærilegum stofnunum, alveg lokað í upphafi faraldursins í byrjun mars. Það var þó ekki lokað nema í um vikutíma því fljótlega voru gefnar undanþágur fyrir þá sem þurftu nauðsynlega að koma. Það er því ljóst að starf Helgu og samstarfsfólks hennar er afar mikilvægt. Margir héldu sig þó heima á þessum tíma þrátt fyrir undanþágurnar, enda viðkvæmir fyrir. „Það eru ekki allir komnir til baka og margir eru enn með skerta þjónustu, sumir sem eiga vistun allan daginn en koma til dæmis bara hálfan daginn. Mér skilst að þannig verði það, að minnsta kosti út maí,“ segir Helga. Húsið er tvískipt og starfshópnum var skipt upp í nokkra hópa sem gættu þess að hittast ekki. Helga segist ekki hafa hitt sumt af samstarfsfólkinu nú í margar vikur. Þau hafi til dæmis ekki hitt neina frá Lækjarási sem er í næsta húsi, en þangað fara þau þó með börnin í heita pottinn, enda sérinngangur þar sem betur fer. Allflestir á vinnustaðnum hafa mætt til vinnu alla dagana og eldhúsið var opið. Skammtað var á diskana og ekki leyfilegt að borða í matsalnum heldur varð fólk að taka matinn með sér inn á deildirnar.

Allir starfsmenn jákvæðir

Á leikskóladeildinni þar sem Helga vinnur starfa alls fjórar konur sem mættu alla daga til vinnu. Þeir dagar sem börnin komu ekki voru notaðir til þess að þrífa vel, sótthreinsa og taka til á milli þess sem þær fóru heim til barnanna sinna til að veita þjálfun. „Við erum fjórar á minni deild og við hittumst alla dagana, nema þegar við vorum að fara heim til barnanna. Svo var fljótlega farið að veita undanþágur og fólk hefur verið að tínast inn aftur smátt og smátt. Sá munur var þó á að aðstandendur keyrðu fólk hingað en notuðu ekki ferðaþjónustu fatlaðra. Það var mjög rólegt hjá þeim á þessum tíma. Þetta var auðvitað talsverð breyting á starfinu“ segir Helga. „En það voru allir starfsmenn mjög jákvæðir og við löguðum okkur bara að breyttu vinnulagi. Það tóku bara allir mjög vel í þessar breytingar og það voru held ég engin vandamál sem komu upp. Við skiptum milli okkar heimsóknunum, vorum tvær sem sinntum einu barni til skiptis. Það voru samt ekki allir sem vildu fá þjónustuna heim. Nú eru börnin öll komin til baka en þeir fullorðnu eru enn með skerðingar á tíma.“ Aðspurð um það hvernig stjórnendur hefðu staðið sig gagnvart starfsfólkinu á þessum erfiða tíma, segir hún að stjórnendur Áss hafi sent póst á starfsmenn daglega og tilkynnt um ástandið þann daginn, hvort eitthvað væri breytt varðandi starfsemina o.s.frv. Helga segir að það hafi verið gott að fá þessa pósta. Auðvitað hafi hún verið áhyggjufull en það hafi hjálpað að geta mætt í vinnuna og haldið sinni rútínu. „Við vorum heppin“ segir Helga. „Það kom ekki upp neitt smit og starfsfólkið vann mjög vel saman í þessum breyttu aðstæðum.“ Hún viðurkennir að þetta hafi verið hálf undarlegur tími, hún hafi sjálf verið í nokkurs konar sjálfskipaðri einangrun. „Ég mætti í vinnuna og sinnti mínu en gerði ekkert meira. Hélt mig mest heima og fór ekkert annað nema rétt í búðina. Það var bæði vegna þess að ég sjálf er ekkert unglamb lengur og svo er ég að vinna með viðkvæmum hópi. Ég hitti enga utan vinnunnar. Það var auðvitað stundum einmanalegt en ég held það hafi bjargað miklu fyrir mig að ég mætti í vinnuna á hverjum degi og þurfti ekki að fara í sóttkví. Það gerði þennan tíma auðveldari.“

Bjarkarás og Lækjarás bjóða upp á val um vinnu og virkni fyrir fullorðið fólk með þroskahömlun. Lögð er áhersla á fjölbreytta einstaklings- og hópmiðaða starfsemi þar sem haft er að leiðarljósi að gera vinnu, afþreyingu og umhverfi aðgengilegt hverjum og einum. Starfsemin spannar vítt svið og má þar nefna þroskaþjálfun, félagsstarf, virknihópa, heitan pott, vettvangsferðir, tölvur og skapandi starf. Áhersla er lögð á óhefðbundin tjáskipti, tákn með tali, Boardmaker og stafrænar myndir. Í Grófinni er sömuleiðis starfrækt leikskóladeild sem ber nafnið Lyngás og vísar til fyrsta dagheimilisins sem Ás styrktarfélag setti á laggirnar árið 1961. Húsnæðið í Safamýrinni sem áður hýsti Lyngás var selt í maí 2018 og þjónusta við börn flutt í Stjörnugróf. Í Lyngási, sem er staðsett í Bjarkarási, er lögð áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu með fjölbreytt viðfangsefni, þar sem snemmtæk íhlutun og þroskaþjálfun er höfð að leiðarljósi.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)