Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. júlí 2020

Einmanalegur tími

Í nýafstöðnu neyðarástandi vegna Covid-19 faraldursins stóðu opinberir starfsmenn svo sannarlega vaktina og þurftu margir hverjir að vinna undir miklu álagi. Við sjáum það skýrt á þessum viðsjárverðu tímum hvernig okkar fólk nýtir krafta sína og þekkingu til að halda uppi sterku velferðarkerfi. Um það snúast störfin sannarlega alla daga en það er hins vegar á tímum sem þessum að almenningur sér hversu mikilvæg störfin eru, hversu stórt hlutverk opinberra starfsmanna í að varðveita og halda utan um fólkið í landinu er í raun og veru. Það voru margir sem upplifðu miklar breytingar á sínum störfum meðan á þessu stóð og aukið álag eins og fram hefur komið í könnun BSRB. Í blaði Sameykis sem kom út á dögunum var birt viðtal við nokkra félagsmenn og fengum smá innsýn í það hvernig þeirra störf breyttust og hvernig þeim leið á meðan á neyðarástandinu stóð. Við munum birta þessi viðtöl hér á síðunni næstu daga.

Ágústa Sigurðardóttir er vagnstjóri hjá Strætó og hefur starfað þar í rúm fjögur ár. Áður segist hún hafa starfað í sjoppunni á Hlemmi og þegar henni var lokað skellti hún sér í meiraprófið og hóf störf hjá Strætó. Henni líkar starfið vel en í Covid faraldrinum breyttist starf þeirra töluvert. „Það var gripið tiltölulega snemma til forvarnaraðgerða hjá Strætó“ segir hún. Það var fyrst ákveðið að loka framdyrunum svo fólk þurfti að koma inn að aftan. En það var ekki nóg því þá kom bara fólk fram í til að borga og fá skiptimiða. „Það var í raun bara enn verra“ segir hún, „þá kom fólk aftan að manni og alveg ofan í hálsmálið.“ Að lokum var svo ákveðið að loka fremsta hluta vagnsins með teipi eða bandi svo fólk kæmist ekki nálægt vagnstjóranum. Til þess að borga þurfti að veifa símanum með rafrænni borgun eða leggja miðann á fremsta sætið. „Það var ekki hægt að gefa skiptimiða svo við bentum fólki sem þurfti að taka annan vagn á að nota miðann sinn þar. Þetta var auðvitað mjög sérstakt og það voru mögulega einhverjir sem ekki borguðu en við urðum bara að treysta fólki“ segir Ágústa. „Ég held samt að það hafi verið minnihlutinn því það voru margir sem höfðu mjög einbeittan vilja til að borga og aðfarirnar voru stundum kúnstugar“ segir hún og hlær. Auk þessara ráðstafana var ákveðið að skerða þjónustuna verulega. Í hópi vagnstjóra voru eins og annars staðar nokkrir sem ekki gátu sinnt vinnu á tímabilinu vegna undirliggjandi sjúkdóma og þeir fengu að fara heim á launum. „Allir „stubbabílarnir“ voru teknir úr umferð og það þýddi að margir vagnstjórar voru verkefnalausir. Því var ákveðið að skipta vöktunum milli þeirra. Ágústa segir að þau hafi verið fegin að gripið var svona fljótt til aðgerða hjá Strætó. Stjórnendur hafi verið í samstarfi við almannavarnir og það hafi verið gott því auðvitað hafi þau öll verið orðin óörugg. Ágústa segir að þetta hafi verið rólegur tími, hún hafi tekið 10 vöktum færra en vanalega á tímabilinu. „Launin lækkuðu þess vegna því við vorum með minni vinnu og misstum til dæmis álag og yfirvinnu. Við héldum samt föstu laununum og vorum ekki á bótum eða neinu svoleiðis. En þetta hefði getað komið á verri tíma. Þann fyrsta apríl fengum við greitt samkvæmt nýjum samningum og þá kom líka eftirágreiðsla launanna og svo kom orlofið á yfirvinnuna í maí. Svo þetta reddaðist alveg.“ segir hún glaðlega. „Ég held að starfsmannahópurinn hafi bara verið sáttur við þessar breytingar. Það voru flestir frekar jákvæðir að deila þessum vöktum á milli fólks og mikil samstaða í hópnum.“ Þegar þetta er skrifað er Strætó enn með skerta þjónustu og næturstrætó ekki farinn að ganga. Það er líka enn þá band í kringum bílstjórana og fólk er beðið um að fara inn að aftan. Ágústa segist vona að þetta verði til þess að það verði sett einhvers konar vernd fyrir framan bílstjórana sem myndi þá vera til framtíðar. Vagnstjórar eru auðvitað að hitta fólk í alls konar ástandi og verða gjarnan fyrir áreiti. Hún segist reyndar sjálf vera heppin og ekki hafa lent í miklum vanda enda keyri hún til dæmis aldrei næturstrætóinn, en þar segir hún oft vera læti og vagnstjórar hafi lent í leiðinlegum atvikum.

Einmanalegur tími

Mér fannst þetta einmanalegur tími segir Ágústa aðspurð um hvernig henni hafi liðið á meðan á þessu stóð. „Ég bý ein en á bæði börn og barnabörn. Ég hitti þau ekki í langan tíma og upplifði mig einangraða. Ég fór í vinnuna og stundum út í búð. Það var alltof sumt. Ég pantaði líka stundum af netinu því mér fannst óþægilegt að þurfa að forðast fólk í verslunum. Það var mjög skrítið andrúmsloft þar stundum. Aðspurð um hvort hún haldi að við höfum lært eitthvað á þessum tíma segir hún að kannski hefðum við lært að standa í biðröð og gefa fólki rými. „Vonandi helst það. Svo kom eitt gott út úr þessu. Við erum hætt að taka endalaust í hendurnar á fólki. Mér hefur alltaf fundist það algjör óþarfi og frekar óþægilegt. Ég er bara fegin að við séum hætt því,“ segir hún hlæjandi.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)