Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. september 2020

Aðalfundur mótmælir uppsögnum

Aðalfundur félagsins var haldinn í gær í Gullhömrum. Sú nýbreytni var á fundinum að einnig var hægt að sækja fundinn í gegnum svokallað streymi og nýttu það sér margir. Þessi nýbreytni þótti takast afar vel og talaði formaður félagsins um það að þessi háttur skyldi hafður á framvegis þar sem þetta fyrirkomulag nýttist ekki einungis í Covid ástandi heldur gætu félagsmenn okkar sem dreifðir eru víða um land nýtt sér þetta. Fyrir fundinum lágu fyrir hefðbundin aðalfundarstörf, skýrsla stjórnar og ársreikningar voru samþykktir og einnig voru samþykktar lagabreytingarvegna hins nýstofnaða Fræðslusjóðs sem ætlunin er að hjálpi okkur að jafna réttindi félagsmanna til starfsmenntunar.

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á fundinum en fundurinn mótmælti meðal annars nýafstöðnum uppsögnum ríkisstarfsmanna hjá bæði Landspítala og Fangelsismálastofnun.

 

Ályktun um uppsagnir á Landspítalanum
Á þessu ári hefur íslenskt samfélag staðið frammi fyrir áður óþekktum áskorunum. Kórónaveiran hefur sett samfélagið á annan endann með vondum afleiðingum fyrir einstaklinga og stóra hópa á vinnumarkaði. Í þessum faraldri hafa starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar staðið í framlínunni þar sem mestur þunginn hefur verið. Landspítalinn hefur staðið í brjóstvörn aðgerða og allir starfsmenn og starfseiningar sýnt ótrúlega fórnfýsi og fagmennsku.

Undir þessu kringumstæðum sér Landspítalinn sóma sinn í því að sækja að stjórnendateymi sínu í eldhúsi spítalans, í matargerð og í uppþvotti, þeim tveimur starfseiningum sem sjá um að framleiða heilbrigt og næringarríkt fæði, og sóttvörn mataráhalda allra þeirra þúsunda sem njóta þjónustu eldhússins.

Síðastliðinn föstudag þá var félagsmönnum Sameykis og Eflingar, sem hafa gengt starfi stjórnenda á þessu starfsvettvangi, sagt upp störfum. Þar á meðal eru starfsmenn með áratuga reynslu sem sýnt hafa spítalanum og íslensku samfélagi hollustu og fórnfýsi, þrátt fyrir erfiðar vinnuaðstæður og lág laun.

Aðalfundur Sameykis stéttarfélags fordæmir þessa aðför að því fólki sem haldið hefur heilbrigðiskerfi okkar gangandi, á tímum þar sem nauðsyn þess að byggja á fagmennsku hefur aldrei verið meiri. Íslensk stjórnvöld hafa þá siðferðilegu skyldu að sýna gott fordæmi og standa í vegi fyrir vanhugsuðum og óásættanlegum brottrekstri trúfastra starfsmanna.

 

Áhersla á að vera á að vernda störf en ekki leggja þau niður
Á óvissutímum er nauðsynlegt að verja stöðugleika. Á Akureyri hefur fangelsinu verið lokað og öllum fangavörðum sagt upp störfum. Fullyrt er að það eigi að nýta fjármuni betur, á sama tíma og vitað er að fangelsiskerfi landsins hefur verið fjársvelt svo árum og áratugum skiptir. Lokunin mun einnig hafa bein áhrif á útgjaldaaukningu lögreglunnar á Akureyri. Aðgerðir sem þessar eru ekki nauðsynlegar á óvissutímum. Aðalfundur Sameykis stéttarfélags leggur áherslu á að hið opinbera eigi að vinna að stöðugleika á vinnumarkaði en ekki skapa ringulreið og óvissu.

 

Umhverfis og loftlagsmál
Aðalfundur Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu lýsir yfir ánægju með að fyrir liggur metnaðarfull aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Sameyki leggur ríka áherslu á að núverandi og komandi ríkisstjórnir sjái til þess að öll þau markmið sem fram koma í aðgerðaráætluninni náist. Í ljósi þeirrar gríðarlega alvarlegu stöðu sem komin er upp í loftslagsmálum duga engin vettlingatök.

Nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi munu hafa áhrif á störf. Fundurinn gerir þá kröfu að verkalýðshreyfingin sé höfð með í ráðum við mótun aðgerða til að tryggja að þær komi ekki niður á lífskjörum launafólks.


Tökum framtíðinni fagnandi - Öllum breytingum fylgja tækifæri
Vinnumarkaður framtíðarinnar stendur frammi fyrir miklum áskorunum vegna tæknibreytinga og breytinga á samsetningu þjóðarinnar. Þessar áskoranir fela í sér bæði tækifæri og ógnanir. Störf eru að breytast, sum hverfa og ný koma í staðinn. Þannig eru hæfniskröfur morgundagsins aðrar en gærdagsins og við því þarf að bregðast með aukinni áherslu á fjölbreytta möguleika í endurmenntun og þjálfun starfsmanna.

Ljóst er að áhrifin á vinnumarkað opinberra starfsmanna verða mikil. Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar verður fjölgun í hópi þeirra sem þurfa á þjónustu hins opinbera að halda. Fjöldi erlendra starfsmanna mun aukast og því er mikilvægt að hlúa að þeim hópi. Áherslan þarf að vera á að viðurkenna hæfni fólks og auðvelda því að byggja ofan á þá hæfni sem þegar er til staðar. Raunfærnimat mun skipa stóran sess í endurmenntun framtíðarvinnumarkaðarins.

Lykilatriðið til að takast á við þessar áskoranir er að til staðar sé samstarf starfsmanna, trúnaðarmanna og stjórnenda á vinnustöðum, allir verða að vera virkir í breytingaferlinu. Ljóst er að gera þarf átak í að efla stafræna hæfni og auðvelda þarf starfsfólki að bæta við starfshæfni sína. Vinnustaðir þurfa að skilgreina sig sem lærdómssamfélag. Við skorum á stjórnendur vinnustaða félagsmanna að setja þetta í forgang.

Aðalfundur Sameykis fagnar því að markvisst skref hefur verið tekið í því að koma á fót færnispá fyrir íslenskan vinnumarkað með ráðningu sérfræðings hjá Hagstofu Íslands. Vonandi kemst skriður á þá vinnu þannig að fólk geti menntað sig til þeirra starfa sem raunveruleg þörf er fyrir.

Breytingar geta verið tækifæri og leggja þarf áherslu á að hugsa í lausnum með velferð félagsmanna að leiðarljósi.

 

Kjara- og efnahagsmál
Aðalfundur Sameykis tekur undir þau sjónarmið að skynsamlegasta leiðin sé að vaxa úr kreppunni. Fundurinn hafnar því frekari niðurskurði hjá hinu opinbera með fækkun starfa eða frestun umsamdra launhækkana, sem náðust í gegn eftir meira en árs samningaþref. Aðalfundur Sameykis fagnar vaxalækkunum Seðlabankans og telur brýnt að haldið sé áfram á þeirri braut.


Hækkun á atvinnuleysisbótum
Aðalfundur Sameykis krefst þess að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Hærri atvinnuleysisbætur örva hagkerfið og koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi. Hlutfall þeirra sem hafa verið atvinnulausir í 6 mánuði og lengur mun næstu vikur og mánuði hækka töluvert, því er mikilvægt að stjórnvöld beiti sér með markvissum hætti til þess að tryggja afkomu þessa fólks. Það má gera með sköpun nýrra starfa. Fundurinn telur lengingu á tekjutengdum atvinnuleysisbótum og hækkun grunn-atvinnuleysisbóta eitt stærsta hagsmunamál þessa hóps. Það velur sér enginn að missa vinnuna.

Sameyki hafnar því að hækkun atvinnuleysisbóta leiði til þess að fólk velji sér að lifa á bótum.

 

Styttum vinnuvikuna í 36 stundir
Aðalfundur Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu brýnir fyrir vinnuveitendum að standa við markmið um styttingu vinnuvikunnar í 36 stundir og að vinnuvika vaktavinnufólks geti farið allt niður í 32 stundir án launaskerðingar eins og kjarasamningar gera ráð fyrir. Rannsóknir sýna að styttri vinnuvika leiðir til aukinnar ánægju í starfi og aukinna afkasta. Stytting vinnuvikunnar leiðir einnig til bættrar heilsu og aukinnar vellíðunar fólks, minnkar líkur á kulnun í starfi og stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna.

 

Jafnréttismál
Aðalfundur Sameykis hvetur stjórnvöld til þess að vera vakandi fyrir þeim kynjaáhrifum sem aðgerðir stjórnvalda í atvinnumálum geta haft í kjölfar Covid-19 faraldursins. Fundurinn varar við því að brugðist sé við auknu atvinnuleysi með því að fjármagna einungis steypu og malbiksframkvæmdir. Tölur vinnumálastofnunar sýna okkur að atvinnuleysi kvenna er meira en atvinnuleysi karla. Á ákveðnum svæðum og þá sérstaklega á Suðurnesjum er atvinnuleysi kvenna 20.9% á móti 16.1% hjá körlum. Því er brýnt að þær mótvægisaðgerðir sem stjórnvöld grípi til séu í samræmi við þarfir þeirra hópa sem mest þurfa á þeim að halda.

Á tímum sem þessum er mikilvægt að fjárfesta í félagslegum innviðum og nota almannafé til þess að styrkja velferðarkerfið. Heilbrigðis- og félagsþjónusta skapar fleiri störf en byggingaframkvæmdir og eru um leið mikill ávinningur fyrir samfélagið til lengri tíma.

 

Hagur öryrkja
Aðalfundur Sameykis fagnar samkomulagi heildarsamtaka launafólks og Öryrkjabandalags Íslands um að krefjast þess að hagur öryrkja verði bættur, öllum til hagsbóta.

Kröfurnar eru skýrar:

  1. Lágmarksframfærsla öryrkja verði hækkuð þannig að fólki sé gert kleift að lifa mannsæmandi lífi.
  2. Skerðingar verði endurskoðaðar þannig að þær standi ekki í vegi fyrir þátttöku á vinnumarkaði, hvort sem er að hluta eða tímabundið og að dregið verði úr tekjuskerðingum vegna lífeyristekna.
  3. Störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma verði tryggð fyrir fólk með skerta starfsgetu.

 

Samgöngur 
Aðalfundur Sameykis stéttafélags í almannaþjónustu fagnar því að niðurgreiðslur á innanlandsflugi fyrir fólk af landsbyggðinni séu loksins í höfn. Ferðakostnaður heimilanna á landsbyggðinni vegna náms, læknis- og sérfræðiþjónustu getur verið afar íþyngjandi og þetta er stórt skref í átt til jöfnuðar. Þær niðurgreiðslur sem Loftbrú veitir, eru mikilvægur stuðningur við eflingu og uppbyggingu landsbyggðarinnar.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)