Merki Sameykis á smærri skjá

Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-840
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. september 2020

Vertu sérfræðingurinn sem þú ert!

Það voru stoltir nemendur sem útskrifuðust úr nýja Diplómanáminu í opinberri stjórnsýslu frá Bifröst í vor. Sameyki stéttarfélag óskar þeim innilega til hamingju með áfangann og þakkar þeim fyrir að hafa tekið þátt í tilraunahópnum sem gerði það kleift að fara af stað með nýtt nám sem er sérhannað fyrir opinbera starfsmenn

Í síðasta tölubaði Sameykis var fjallað um nýtt diplómanám á Bifröst og meðal annars tekin viðtöl við þrjá félagsmenn okkar sem voru í náminu síðasta vetur. Þau eru ánægð með námið og segja það hafa gagnast sér mikið en námið er sérstaklega sniðið starfsfólki í opinbera geiranum sem þróað var í samvinnu við Starfsmennt og Bifröst. Við vekjum athygli á því að Bifröst hefur framlengt umsóknarfrest í nám í opinberri stjórnsýslu til 19. okt.

 

Grein úr blaði Sameykis - sept. 2020 (3.tbl. 10. árg.).

Háskólinn á Bifröst býður upp á diplómanám í opinberri stjórnsýslu. Námið var kennt í fyrsta sinn í vetur sem tilraunaverkefni. Vel tókst til og útskrifuðust 23 starfsmenn ríkisins úr diplómanáminu frá Háskólanum á Bifröst. Námið er í boði í haust hjá Bifröst og verður það áfram.

Vel heppnað tilraunaverkefni

Þetta er í fyrsta sinn sem boðið var upp á nám í opinberri stjórnsýslu á fagháskólastigi og var það þróað af Fræðslusetrinu Starfsmennt og Háskólanum á Bifröst í samvinnu við Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Um var að ræða tilraunaverkefni sem er liður í úrvinnslu bókunar með kjarasamningi Sameykis og fjármálaráðherra um að fjölga menntunar- og starfsþróunarúrræðum fyrir ríkisstarfsmenn. Það voru 28 starfsmenn frá 23 stofnunum ríkisins sem hófu nám haustið 2018 og afar ánægjulegt að langflestir náðu að fara alla leið en það getur verið átak að fara í nám og samræma það vinnu- og fjölskyldulífi. Áhersla var lögð á að nemendur í tilraunahópnum tækju námið á hálfum hraða, til að dreifa álaginu, þannig að 60 einingarnar dreifðust á tvö ár.

Námið er tilvalið fyrir einstaklinga sem starfa nú þegar eða hafa áhuga á að starfa hjá opinberum stofnunum og innan opinberrar stjórnsýslu, bæði hjá ríki og sveitarfélögum eða á vettvangi stjórnmála, þar með talið innan stjórnmálaflokka. Námið er fullgilt 60 ECTS eininga diplómanám á háskólastigi og nýtast námsþættirnir opinberum starfsmönnum til að dýpka skilning á samhengi opinbers rekstrar og öðlast aukna innsýn í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Diplómanámið getur nýst þátttakendum sem valgrein inn í annað háskólanám á BA/BS stigi. Á námskránni er meðal annars upplýsingatækni, stjórnmál og opinber vinnuréttur og mannauðsstjórnun, siðfræði, skjalastjórnun, rafræn stjórnsýsla og örugg tjáning svo eitthvað sé nefnt.

Markmið námsins er að nemendur kynnist lagaumhverfi ríkisins og stofnana þess, öðlist skilning á pólitísku gangverki ríkisvaldsins og fái hagnýta þjálfun í margvíslegri rekstrarfærni. Námið er sérstaklega hannað með þarfir ríkisins og opinberra starfsmanna í huga. Kennt er í lotum og fyrirlestrum sem eru á rafrænu formi. Einnig er lögð mikil áhersla á verkefnavinnu. Mikil áhersla er lögð á gagnrýna hugsun og hagnýta tengingu við raunhæf verkefni sem eru fjölbreytt og umfangsmikil. Námið er kennt í 6 vikna lotum og nemendur takast á við fjölbreytt viðfangsefni og verkefni tengd raunverkefnum samfélagsins. Mikið er unnið í hópum og eru umræður og samstarf nemenda og kennara m.a. á svokölluðum reglulegum vinnuhelgum mikilvægur þáttur námsins og tryggir nemendum góðan undirbúning fyrir ábyrgðar- og forystustörf.

Bifröst hefur ákveðið að halda áfram með námið að þessu loknu.

Bifröst býður einnig upp á BA nám í opinberri stjórnsýslu og geta þeir sem lokið hafa diplómanáminu haldið áfram og nýtt diplómagráðuna sem hluta af BA gráðu. Blaðamaður Sameykis fór á stúfana og hitti nokkra sem tóku þátt í tilraunaverkefninu og heyrði þeirra hlið á öllu sem viðkom náminu.

Sér starfið með öðrum augum

Egill Björnsson er einn þeirra nemenda sem útskrifuðust með diplóma í opinberri stjórnsýslu síðastliðið vor. Hann tók þátt í tilraunaverkefninu og segist í heildina hafa verið ánægður með námið. Það hafi auðvitað komið upp hnökrar, enda um nýtt nám á tilraunastigi að ræða, en hann var ánægður með námið sjálft. Hann vill hrósa Starfsmennt fyrir sinn þátt í náminu, þar hafi allir verið boðnir og búnir til að aðstoða þau.

Egill starfar sem fangavörður og er með BA próf í heimspeki og lauk fangavarðaskólanum í kringum 2011. Hann segir það hafa verið stökk fyrir sig að byrja í námi aftur. Uppbygging þessa náms hafi verið allt öðruvísi en hann átti að venjast. Allt var kennt í fjarnámi í lotum og svo hist á vinnuhelgum. Það hafi tekið hann tíma að aðlagast því og hreinlega læra að vera í slíku námi. Þá sé hann í fullu starfi með fjölskyldu og stundum hafi verið knappur tími til að sinna verkefnunum í skólanum. Hann hafi samt lofað sér því í byrjun að sitja aldrei næturlangt yfir verkefnum, þetta segist hann hafa ákveðið eftir að hafa setið í ótæpilegan tíma yfir erfiðu Excel verkefni í byrjun annar. Egill hlær þegar hann rifjar þetta upp en ítrekar að það sé mikilvægt fyrir þá sem eru í svona námi með vinnu og fjölskyldu að afmarka tímann sem námið má taka. Vinnuhelgarnar voru að hans mati langbestar. „Það var mikill kostur að geta hist á vinnuhelgum og hitt samnemendur og kennara augliti til auglitis. Eftir slíkar helgar var ég fullur af orku og með miklu betri sýn á námið.“

Hann segir að þótt sum verkefnin hafi verið snúin og ólík því sem hann er að fást við dagsdaglega þá hafi mesti slagurinn í náminu verið við hann sjálfan. Það hafi alveg komið tímabil þar sem hann var við það að hætta, en er ánægður í dag að hann gerði það ekki. Egill segist hafa fengið mikið út úr því að takast á við þessar áskoranir og komast upp úr ákveðnum farvegi. Námið nýtist honum bæði beint og óbeint eins og allt nám. En starfið sér hann nú með öðrum augum, það sé mikilvægt að þekkja lagaumhverfi í opinberum störfum, t.d. stjórnsýslulögin og persónuverndina.

Ætti að vera skylda fyrir opinbera starfsmenn

Eva Agata Alexdóttir starfar á réttindasviði Tryggingastofnunar ríkisins sem ráðgjafi. Hún segir það mjög góðan vinnustað, samstarfsfélagarnir séu frábær hópur og samstaðan sé mikil. Hún segist hafa verið að leita sér að skemmtilegu og gagnlegu námi þegar hún rakst á diplómanámið í opinberri stjórnsýslu. Eva er fædd og uppalin í Póllandi og lærði þar og starfaði sem ljósmóðir. Hún fékk námið ekki metið hér á landi og ákvað að finna sér annan starfsvettvang. Hún hefur sinnt skrifstofu- og ráðgjafastarfi síðastliðin ár. Hún segir diplómanámið hafa verið draumanám fyrir hana þar sem hún þurfi að hafa mikla þekkingu á stjórnsýslulögun, persónuvernd og slíku í sínu starfi. Hún segist hafa tekið aukalega stjórnskipunarréttinn sem valnámskeið, það hafi verið mjög fróðlegt og gaman. Eva segir að það vanti oft þekkingu á þessum atriðum og svona nám sé því afar mikilvægt hjá opinberum starfsmönnum, hún segist jafnvel vilja ganga svo langt að hafa það sem skyldunám. Að minnsta kosti þurfa allir að hafa grunnþekkinguna á opinberri stjórnsýslu. „Ef við þekkjum stjórnsýslu- og persónuverndarlögin getum við leiðbeint fólki betur,“ segir Eva og bætir við að það sem þau hafi til dæmis lært um vinnurétt nýtist henni bæði persónulega og í starfi. Skipulag námsins hafi verið gott, hún segir að það hafi verið gott að læra svona í nokkurra vikna lotum og geta fókuserað á eitt fag í einu.

Aðspurð að því hvort hún ætli að halda áfram í námi segist hún líklega ætla að láta þetta duga í bili þó að sannarlega hafi kviknað áhugi á að öðlast meiri þekkingu. Hún segir samt að það hafi verið mikið álag að sinna bæði vinnu og námi þótt börnin séu uppkomin. Henni fannst hvað erfiðast að fara í munnlegu prófin því þótt hún tali íslenskuna mjög vel þá hafi orðaforðinn í náminu stundum verið henni framandi. Munnlegu prófin voru því mjög stressandi fyrir hana. „Ég svaf stundum ekki fyrir stressi“ segir hún og hlær.

Eins og erfið fæðing

Gréta Björk Ómarsdóttir starfar á innheimtu- og skráasviði hjá Skattinum. Hún hefur starfað þar í tæp níu ár og líkar vel. Gréta segir að námið í opinberri stjórnsýslu hafi nýst henni gífurlega vel í starfinu. Hún hafði áður lokið einu ári í viðskiptalögfræði en hætt þar sem hún hafi fundið að hún hefði meiri áhuga á lögfræðinni en viðskiptafræðinni. Þá hafi hún einnig lokið háskólagáttinni hjá Bifröst.

Gréta er mjög ánægð með námið í opinberu stjórnsýslunni og segist vel geta hugsað sér að bæta við sig námi til að ná BA prófinu í opinberri stjórnsýslu og nýta þá námstyrki félagsins til þess. Grétu fannst fyrirkomulag námsins mjög gott.Hún var ánægð með námið í heildina þótt nokkrir hnökrar hafi komið upp sem er eðlilegt í tilraunaverkefni eins og þessu. Henni finnst þeir kúrsar sem fjalla beint um stjórnsýsluna nýtast sér einna best en stjórnmálafræðin kannski síst. Hún telur að hún myndi hafa nýst betur ef nálgunin hefði verið önnur og meira miðuð við íslenska stjórnmálafræði þótt auðvitað sé alltaf áhugavert og mikilvægt að bera saman stjórnmál frá ólíkum löndum. Það hefði mátt fara meira inn í íslensk stjórnmál og áhrif þeirra á stjórnsýsluna.

„Álagið var auðvitað svolítið en þó ekkert of mikið“ segir Gréta, en hún var auk námsins í fullri í vinnu með fjölskyldu. Hún segist hafa nýtt sér möguleika á námsleyfisdögum í prófatímabilum, það hafi munað miklu. Það hafi líka skipt miklu máli að það hafi verið velvilji á vinnustaðnum. „Þetta var auðvitað stundum erfitt og mikið álag að sinna námi með vinnu og fjölskyldu en líklega sé þetta eins og með erfiða fæðingu. Strax á eftir segir maður aldrei aftur en svo nokkrum vikum síðar er maður alveg til í meira“, segir hún og hlær.

Lesu meira í blaðinu okkar

Þau Egill, Eva og Gréta voru meira en til í að lofa blaðamanni að smella af sér mynd í sólinni á svölum Grettisgötunnar.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)