Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

23. október 2020

Framtíðin er núna

Í tengslum við Stofnun ársins stóð Sameyki fyrir málþingi um framtíðarvinnumarkaðinn. Málþingið var að sjálfsögðu einungis rafrænt vegna þeirra aðstæðna sem við búum við núna en opið okkur sem vildu fylgjast með í streymi.  Á málþinginu var fjallað um þær áskoranir sem starfsfólk og stjórnendur standa frammi fyrir vegna tækniþróunar og lýðfræðilegra breytinga. Erindi fyrirlesara áttu það öll sameiginlegt að fjalla um framtíðarvinnumarkaðinn og það hvernig við starfsfólk og stjórnendur gætum tekist á við hann sem best. Hægt er að hlusta á alla fyrirlestrana á vefsíðu Sameykis.

Úr borg í ský
Bergur Ebbi sem oft er titlaður sem framtíðarfræðingur fjallaði um hversu mikilvægt það væri að hlúa að rótunum. Breytingar væru ekkert nýtt fyrirbæri, við hefðum upplifað þær oft áður í gegnum söguna. Sagan endurtekur sig og tíminn er afstæður. „Við upplifðum tímann sem við höfum stundum talað um sem „úr sveit í borg“ en fram undan eru breytingarnar „úr borg í ský“ ef svo má segja. Það hvernig við lítum á okkur sjálf skiptir máli. Það hvernig við sækjum sjálfsmynd okkar hefur áhrif á líf okkar. Meðan við vorum í sveitinni byggðist sjálfsmyndin á staðsetningu á meðan sjálfsmynd borgaranna byggir á starfsheiti. Nú erum við á leiðinni frá borginni í skýið. Störfin eru að breytast og við erum ekki lengur bara á „netinu“ stundum heldur alltaf í skýinu. Við vinnum gegnum skýið, við sækjum þangað afþreyingu, t.d. myndir og tónlist. Þær breytingar sem við erum að upplifa núna munum við ekki skilja til fullnustu fyrr en að nokkrum árum liðnum.“

Félagsfólk jákvætt fyrir framtíðinni

Sólveig Jónasdóttir frá Sameyki fór yfir niðurstöður þemaspurninga úr könnuninni um Stofnun ársins. Þar voru félagar Sameykis meðal annars spurðir um hverjar væru helstu áskoranir framundan á vinnustöðum og hvaða viðhorf þeir hefðu til þeirra. Niðurstöðurnar voru nokkuð skiptar eftir starfshópum. Starfsfólk í félags- og heilbrigðisþjónustu upplifði til dæmis minni tæknibreytingar og bjóst einnig við færri tæknibreytingum í framtíðinni. Flestir félagsmenn voru þó jákvæðir gagnvart tæknibreytingum og flestum fannst þær breytingar sem þegar höfðu orðið á vinnustaðnum hafa haft góð áhrif. Þá bjuggust flestir við meiri tæknibreytingum í framtíðinni. Að lokum fjallaði Sólveig um þörfina fyrir fræðslu en ein af spurningunum fjallaði einmitt um hvers konar símenntun fólk teldi sig þurfa á að halda á næstunni til að takast á við framtíðina. Þörfin er mikil og mun Sameyki vinna úr þeim hugmyndum, sem fram komu í samstarfi við Starfsmennt og Framvegis, á næstunni.

Færnispár og breyttur vinumarkaður
Karl Sigursson frá Vinnumálastofnun fjallaði um það hvernig unnið er með færnispár og færniþörf hjá Vinnumálastofnun. Karl er sérfræðingur um svokallaðar færnispár og það er gaman að segja frá því hér að hann er nýráðinn til starfa hjá BSRB. Karl segir miklar breytingar í gangi núna, ekki bara tæknibreytingar eða breytingar í tengslum við notkun gervigreindar heldur einnig loftslagsbreytingar, fólksflutninga, samþjöppun valds og uppsöfnun auðs og svo þá staðreynd að vestrænar þjóðir eru að eldast. „Allt hefur þetta áhrif á vinnumarkaðinn um allan heim“ segir Karl. Flestir séu nú farnir að sjá að ógn tæknibreytinganna sé kannski ekki eins mikil eins og óttast var. Það eru ákveðin störf sem eru að hverfa en önnur verða til. Vinnufyrirkomulagið er að breytast, fólk skiptir um starf oft. „Við sjáum fleiri hlutastörf, meiri verkefnatengda vinnu og verktakastörf svo starfsöryggið er minna. Þetta eru allt hlutir sem við verðum að hafa í huga þegar við erum að spá fyrir um þróun vinnumarkaðarins. Við reynum að rýna í mynstrin eins og þau eru í dag og þannig sjáum við hvert við erum fara. Sjálfvirknin er orðin meiri en þessu fylgja líka kröfur um aukna menntun og færni. Þessar spár eru því ekki einungis mikilvægar fyrir yfirvöld heldur líka menntastofnanir, námsráðgjafa og einstaklingana sjálfa.“

Þá var sýnt innlegg frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Þar fjallaði Pétur Jónasson meðal annars um hækkandi meðalaldur starfsmanna og áhyggjur af því að þekking og færni tapist þegar þessir starfsmenn fara á eftirlaun. „Nú er verið að leggja af stað með það verkefni að gera mannaflaspá fyrir ríkið og um leið munum við gera heildarskoðun á starfsmenntunarsjóði og fræðslu fyrir starfsmenn. Það er mikilvægt að við séum að bjóða upp á réttu fræðsluna.“ Hann hrósaði því fræðsluúrvali sem stendur Sameykisfélögum til boða í gegnum Gott að vita námskeiðin o.fl.
Auður Björgvinsdóttir skrifstofustjóri ráðninga og mönnunum hjá Mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar sagði síðan nánar frá þeirri vinnu sem Reykjavíkurborg hefur verið að vinna að. Greina þyrfti þörf fyrir mannafla til framtíðar svo Reykjavíkurborg geti mætt lögbundinni þjónustu. Aldursgreining fagstétta er ein aðferðin sem notuð er. Þar má líka til dæmis nefna vinnu við að fjölga menntuðu starfsfólki á leikskólum og jafna kynjahlutföll. Í tengslum við þetta er m.a. rekin afleysingastofa á vegum borgarinnar til að hægt sé að mæta þörfinni fyrir starfsfólk hverju sinni.

Hvernig styðjum við starfsfólk og stjórnendur inn í framtíðina?
Guðfinna Harðardóttir framkvæmdastjóri Fræðslusetursins Starfsmenntar fjallaði um þá þekkingu sem við búum yfir án þess að vita af því. „Hagnýting þekkingar er afar mikilvæg. Það er ekki nóg að sitja námskeið eða fara í nám heldur skipti það meginmáli hvernig við nýtum þekkinguna sem við öflum okkur. Aðstæður kalla á mismunandi hæfni og mikilvægasta hæfnin í dag er aðlögunarhæfnin. Við verðum að taka ábyrgð á eigin færniþróun en það er stjórnanda og yfirvalda að sjá til þess að það framboð sé nægt.“ Í svörum félagsmanna Sameykis í könnun sem einnig var kynnt á málþinginu kom í ljós að 43% félagsmanna sá fram á miklar tæknibreytingar á næstu árum. Þetta kallar á mikla fræðslu og þarna reynir á samstarfsvettvang stéttarfélaga og opinberra vinnuveitenda. Stofnanir ríkis og sveitarfélaga eru þekkingarvinnustaðir og því er afar mikilvægt að þróun hæfni sé markviss og í takti við þarfirnar. Þá var sýnt innlegg þar sem þau Lilja Rós Óskarsdóttir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífisins og Vilmar Pétursson frá Vinnumálastofnun sögðu frá tilraunaverkefni um raunfærnimat á móti viðmiðum starfs sem unnið var í samvinnu við Sameyki, Starfsmennt, Fræðslusmiðstöð atvinnulífsins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Vinnumálastofnun. „Raunfærnimat hefur lengi verið notað, til dæmis færni í iðnmennt á móti námi, en að þessu sinni vorum við að meta færni fulltrúa í opinberum stofnunum á móti viðmiðun starfsins.“ Vilmar sagði frá því að það hefði verið kærkomið að fá tól eins og raunfærnimat til að meta fulltrúana á skrifstofu Mannvirkjastofnunar á Skagaströnd sem sé útibú sem er afar mikilvægt stofnuninni. Þetta hafi gefið þeim tæki til þess að meta færni starfsfólksins og bjóða svo í kjölfarið upp á nám við hæfi. Störf fulltrúa hafa tekið miklum breytingum vegna sjálfvirkni og annarra tæknibreytinga. Því hafi verið afar mikilvægt að geta metið þá miklu færni sem starfsfólk býr yfir og geta boðið upp á þjálfunarprógramm í samræmi við það sem upp á vantaði.

Raunfærnimat er frábært tækifæri
Þórunn Valdís Rúnarsdóttir deildarstjóri á greiðslustofu VMST og Herdís Þórunn Jakobsdóttir fulltrúi tóku þátt í verkefninu og voru mjög ánægðar með framkvæmdina. Þær sögðu svona raunfærnimat vera frábært tækifæri fyrir þá sem eru með minni formlegri menntun en langa starfsreynslu til að sýna hvað í þeim býr. 

Sólborg S. Borgarsdóttir deildarstjóri þjónustuvers HMS og Hrönn Pétursdóttir ráðgjafi í þjónustuveri HMS tóku einnig þátt í verkefni um raunfærnimat. Þær lærðu aðferðir raunfærnimatsins og lögðu það fyrir starfsmenn og fannst allt ferlið virka mjög vel og hafa jákvæð áhrif.

Þóra Kemp deildarstjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Eybjörg Geirsdóttir teymisstjóri skrifstofu sviðstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sögðu einnig frá breytingum á starfi í kjölfar stafrænnar þróunar hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar þar sem þær starfa. Verkefni séu mörg orðin alveg rafæn og enn væri verið að rafvæða fleira. Þóra segir mikilvægt að um leið og verið sé að auka gæði og skilvirkni sé sjálfstæði starfsmanna einnig aukið um leið og þjónustan sé gerð mannlegri.

Við getum stýrt þróuninni
Í lok þessa áhugaverða málþings fjallaði Huginn Freyr Þorsteinsson formaður stýrihóps aðgerðaáætlunar um fjórðu iðnbyltinguna. Hann fór yfir nokkur helstu atriði úr nýrri aðgerðaráætlun stjórnvalda um fjórðu iðnbyltinguna og skýrði nálgun stjórnvalda á innleiðingu aðgerðanna. Hann lagði áherslu á að í öllum svona breytingum hafi verkalýðshreyfingin verið stór aðili í umræðunni og framkvæmdinni. „Tæknibreytingar felast ekki bara í að kaupa inn öll nýjustu tækin, það þarf að þjálfa starfsfólk og innleiða tæknina með réttum hætti inn á vinnustaðina.“ Hann sagði mikilvægt að við værum bílstjórarnir í þessari vegferð en ekki farþegar.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)