Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. nóvember 2020

Styttri vinnuvika glæsileg kjarabót en áhyggjur af útfærslunni

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, er bjartsýnn á að stytting vinnuvikunnar skili árangri. fréttablaðið/valli

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, segir nokkuð marga vinnustaði ekki tilbúna fyrir styttingu vinnuviku hjá dagvinnufólki. Leiðrétta þurfi misskilning um útfærslu neysluhléa. Breytingin sé mikið framfaraskref enda taki hún líka á óhóflegri yfirvinnu.

Um áramótin verður innleidd 36 klukkustunda vinnuvika dagvinnufólks hjá félagsmönnum Sameykis og fjölda annarra stéttarfélag opinberra starfsmanna. Sama gildir síðan um vaktavinnufólk frá 1. maí næsta vor.

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, segir vinnuna við að búa þessari vinnutímastyttingu umgjörð á hverjum vinnustað fyrir sig ekki komna jafn langt á veg og ákjósanlegt hefði verið

„Það verður nú að segjast eins og er að það er ekki búið að skila inn mörgum vinnustaðasamningum sem þarf að gera á hverjum stað fyrir sig. Svo maður er kannski aðeins farinn að verða órólegur; að þetta sé kannski ekki á þeim hraða sem við hefðum kosið okkur. Auðvitað kemur kóvidið inn í þetta og við vitum að á þessum stóru stofnunum eins og Landspítalanum þá hefur það verulega tafið,“ segir Árni.

Að sögn Árna skiptist umræðan um styttingu vinnuvikunnar í tvennt; annars vegar um dagvinnufólk og hins vegar vaktavinnufólk. „Hvað varðar dagvinnufólkið þá er verið að vinna að þeirri styttingu úti á vinnustöðum okkar og á því að vera lokið í síðasta lagi fyrir 1. janúar 2021. Hvað varðar vaktavinnufólkið þá hafa menn frest til 1. maí 2021 vegna þess að það er miklu flóknara verkefni og þarf að breyta forritum og ýmsu. Svo að það er lengra í það en það er svolítið að skríða af stað líka,“ segir hann.

 

Mikilvæg barátta um neysluhlé

Árni útskýrir að í raun sé í gangi ákveðið lýðræðislegt ferli við að skipuleggja styttinguna. „Þetta er vinnustaðalýðræði sem menn eru svona í leiðinni að prufa sig áfram með. Á hverjum vinnustað á að skipa vinnustaðanefnd sem í er fulltrúi frá hverjum heildarsamtökum starfsmanna og svo einn frá stjórnanda viðkomandi stofnunar. Þessi nefnd á að funda með starfsmönnum og fá fram þær hugmyndir sem menn hafa um þessa styttingu,“ segir hann.

Ferlið snýst ekki aðeins um styttingu vinnuvikunnar. „Í leiðinni er verið að fara yfir hvernig menn hafa starfað á viðkomandi stofnun og hver vinnustaðamenningin er. Þarf að breyta henni eitthvað til þess að ná vel þessari styttingu?“ nefnir Árni sem dæmi um spurningar sem menn standi frammi fyrir. Leysa þurfi hvernig styttingin næst án þess að þjónusta skerðist eða laun lækki.

„Þessar vinnustaðanefndir hafa kannski komist of seint af stað og svo hefur kannski borið á einu, sem er að mínu mati kannski stærsta ágreiningsefnið,“ segir Árni og rekur að samið hafi verið um það í fylgiskjali með síðustu kjarasamningum hvernig standa eigi að vinnuvikustyttingu dagvinnufólks. Hægt sé að stytta á mismunandi hátt en markmiðið sé að stytta vinnuvikuna í 36 tíma.

„Til þess að ná þeirri styttingu er samkomulag um það að þá færir maður neysluhléið inn í vinnutímana. Áður stóð matartíminn fyrir utan vinnutímann og þá átti starfsmaðurinn þennan matartíma og gat svo sem gert hvað sem var við þann matartíma; mátti fara út af vinnustöðinni eða hvað sem honum sýndist. Breytingin var hins vegar þessi að þú styttir um fjóra tíma ofan í 36 tíma. Svo er sagt með hefðbundnum neysluhléum,“ segir Árni sem kveður menn dálítið vera að toga og teygja orðalagið „hefðbundinn“ og hvað það merki.

„Við sem sömdum um þetta héldum að það væri nokkuð á ljósu að við vorum bara hreinlega að vitna í það að á hverjum vinnustað þar sem menn hefðu komist upp á eitthvert svona lag á hvernig þeir tóku neysluhléin, að menn myndu bara halda því áfram. Það er hefðbundið neysluhlé,“ segir Árni. Neysluhlé hafi verið mismunandi útfærð á mismunandi vinnustöðum og að það sé í það sem er vitnað.

 

Síðra kerfi ýtt að starfsfólki

Nánar útskýrir Árni að með styttingu dagvinnuvikunnar í 36 tíma með færslu neysluhléa inn í vinnutímann sé matartíminn ekki lengur á forræði starfsmannsins.

„Þú átt þá ekki þennan hálftíma á þínu forræði, starfsmaðurinn, og getur farið út og suður. Þú bara ferð í mat og en getur ekki sagt að nú ætla ég að fara að skreppa út, þú þarft þá að fá extra leyfi frá stjórnendum til þess. Áður þurftir þú þess ekki af því að þú áttir þennan hálftíma,“ segir Árni. Þetta hafi leitt menn inn á óheppilega braut.

„Hinn möguleikinn er að segja; nei, ég vil halda áfram forræðinu yfir hálftímanum. Þá verður þetta nefnilega þannig – og það er dálítið mikilvægt og ég held að menn geri sér ekki alveg grein fyrir stórleikanum í þessu – að í staðinn fyrir að stytta viðveruna á vinnustaðnum í 36 tíma þá verður þú í staðinn með, ef þú ert með forræði yfir matartímanum, næstum 39 tíma viðveru. Styttingin er þá ekki nema 65 mínútur á viku í staðinn fyrir fjórir tímar,“ leggur Árni áherslu á.

Þetta hafi valdið ruglingi og misskilningi. „Okkur finnst stjórnendur vera svolítið að ýta þessu fyrirkomulagi að starfsmönnum. Og telja því þá allt til foráttu að menn eigi ekki forræði á matartímanum og þá að matartímar og neysluhlé verði allt öðru vísi, sem er bara alls ekki rétt – þau verða bara hefðbundin,“ heldur formaðurinn áfram og tekur dæmi.

„Ef starfsmaður sem hefur stytt ofan í 36 tíma byrjar klukkan átta á morgnana þá er hann búinn tólf mínútur yfir þrjú. Hann fær tvo kaffitíma og hádegishlé eins og hann hefur gert áður. Ef hann fer í hitt fyrirkomulagið og byrjar klukkan átta þá er hann ekki búinn fyrr en 15.45. Þá lengist dagurinn. Þetta hefur valdið smá misskilningi og við höfum þurft að reyna að leiðrétta þennan misskilning sem virðist vera úti á vinnustöðum,“ segir Árni.

 

Stór áfangi fyrir vaktavinnufólk

Aðrar leikreglur gilda um vaktavinnufólk og þær breytingar eiga heldur ekki að taka gildi fyrr en 1. maí næstkomandi enda ferlið þar talsvert flóknara að sögn Árna. Þar verða ekki vinnustaðanefndir sem ákveða fyrirkomulagið heldur verður tekin miðlæg ákvörðun. Vaktavinnufólk innan Sameykis eru til dæmis fangaverðir og starfsfólk hjá Reykjavíkurborg.

„Varðandi vaktavinnufólkið þá er það ákveðið að menn stytta allir ofan í 36 tíma á viku, það er að segja 156 tíma á mánuði, en þeir sem eru á erfiðustu vöktunum geta stytt vinnvikuna sína ofan í 32 tíma, sem er náttúrlega alveg glæsilegt. Þannig að þarna hefur náðst alveg gífurlegur áfangi og ofboðsleg kjarabót,“ ítrekar Árni.

Breytingarnar fyrir vaktavinnufólk eru að sögn Árna í mótun. „Dæmi er um ýmsar stéttir sem hafa verið með tólf tíma vaktir. Í þessari umræðu og ferli öllu saman eru menn að draga það líka upp að tólf tíma vaktir eru mjög vafasamar. Samkvæmt nýjustu rannsóknum varðar þetta bæði öryggi starfsmanna og það sem þeir eru að gera. Svo er álagið bara líka alltof mikið á tólf tíma vöktum. Samtímis eru byggðir inn í kerfið hvatar til að fara úr slíku kerfi yfir í styttra kerfi og fá þá meira út úr kerfinu,“ segir hann.

Spurður um aðdraganda þessara breytinga segir Árni umræðuna um styttingu vinnuvikunnar oft hafa komið upp. Til dæmis hafa SFR, sem nú er hluti af Sameyki, tvisvar sett fram slíka kröfu gagnvart ríkinu.

„Menn voru svona að álykta um þetta. Almenni vinnumarkaðurinn sýndi þessu ekki mikinn áhuga, opinberi markaðurinn sýndi þessu miklu meiri áhuga. Fyrir um þremur árum byrjar þetta með því að Reykjavíkurborg ákveður að búa til tilraunaverkefni. Stofnanir borgarinnar gátu sótt um að gera tilraun með styttingu vinnuvikunnar. Með það gátum við pressað á ríkið og ríkið samþykkti líka að fara í svona tilraunaverkefni,“ segir Árni.

Þegar komið var að gerð síðustu kjarasamninga voru áðurnefnd tilraunaverkefni yfirstaðin. Niðurstöður höfðu verið dregnar og skýrslur skrifaðar. „Það var allt í þessu jákvætt. Það voru færri veikindadagar, fólk taldi að fjölskyldulífið hefði batnað. Í staðinn fyrir að koma heim hálf fimm var fólk að koma heim tólf mínútur yfir þrjú, það munar rosalega miklu. Það sem var mikilvægt er að það voru bæði starfsmenn og stjórnendur sem töldu tilraunina hafa skilað því að þetta væri mjög jákvætt skref,“ segir formaðurinn.

 

Þjóðhagslega hagkvæmt

Þannig segir Árni að í þessum tilraunaverkefnum hafi verið mikil ánægja og þegar komið hafi að kjarasamningsgerðinni hafi verið nokkuð gefið að reynt yrði að ganga frá vinnutímastyttingu. „Þetta er mjög flott og stórt skref sem hefur verið stigið í þessum kjarasamningum,“ segir hann.

Árni segir ávinninginn af styttri vöktum vera að renna betur upp fyrir fólki. „Menn voru sniðugir í þessum samningum að búa líka til hvata til að fara úr tólf tíma vöktum – hjá okkur opinberum starfsmönnum. Fyrir vinnustaði hjá ríki og borg þá er þetta ekki bara spurningin um styttingu vinnuvikunnar, sem er náttúrlega mjög stórt mál, heldur líka tækifæri til þess að skoða aðeins vinnumenninguna og ferlið og það allt innan vinnustaðarins. Það þarf að búa til alveg nýtt fyrirkomulag með því að taka svona stórt stökk frá 40 tímum ofan í 36.“

Ýmsar útfærslur koma til greina fyrir dagvinnufólk. „Ef þú byrjar klukkan 8.00 getur þú hætt 15.12 eða byrjað klukkan 8.00 og hætt klukkan 16.00 fjóra daga vikunnar en um hádegi einn daginn. Líka er möguleiki að fá heilan dag hálfsmánaðarlega. En þetta þarf að passa inn í skipulag vinnustaðarins og það er það sem fólk skipuleggur sameiginlega,“ segir Árni.

Þrátt fyrir að skipulagning á styttingu vinnuvikunnar hafi farið hægt af stað kveðst Árni vera mjög bjartsýnn. „Þó að það séu kannski ekki nema um tuttugu sem eru búnir að skila inn hjá okkur eru um 80 prósent að fara þessa leið sem við viljum að sé farin; menn eru að stytta ofan í 36 tíma og að hefðbundin neysluhlé eru innan vinnutímans,“ segir hann.

Til lengri tíma litið segir Árni algerlega öruggt að stytting vinnuvikunnar sé þjóðhagslega hagkvæm. „Í reynd er líka verið að taka á þessari óhóflegu yfirvinnu sem hefur viðgengist á Íslandi. Til hvers er verið að stytta vinnuvikuna nema það sé líka tekið einhvern veginn á því? Það að stytta vinnuvikuna þýðir ekki að menn ætli þá bara að auka við sig yfirvinnu. Þá er ekkert áunnið neitt með því,“ undirstrikar Árni.

Formaður Sameykis tekur undir að Íslendingar séu gjarnir á að leggja á sig mikla yfirvinnu samanborið við það sem gerist hjá nágrannaþjóðunum. „Menn sjá það sem launauppbót, kannski vegna lágra launa. Við erum að fara inn á miklu heilbrigðari brautir hvað varðar vinnutíma heldur en áður, það er nokkuð ljóst.“

Birt með góðfúslegu leyfi Fréttablaðsins.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)