Merki Sameykis á smærri skjá

Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. mars 2021

Sameyki fundar með félögum um land allt

Sameyki fundaði með félagsfólki sínu á Vestfjörðum og Vesturlandi.

Sameyki hóf fundarherferð með félagsfólki sínu á Vesturlandi og Vestfjörðum í gær. Haldnir verða fjórir fundir eftir landshlutum þar sem félagsfólki Sameykis er boðið á kynningu á ákveðnum málefnum stéttarfélagsins sem varðar þá.

Árni Stefán Jónsson formaður Sameykis bauð félagsmenn velkomna á fyrsta félagsfundinn fyrir Vesturland og Vestfirði sem haldinn var í fyrsta sinn í gegnum fjarfundarbúnað. Um 40 félagar sóttu fundinn, eða þar um bil, því sumir félagar sátu saman í mynd á fundinum. Árni Stefán kynnti dagskrá fundarins sem fjallaði um orlofsmál, fræðslumál og kjaramál.

Þórarinn Eyfjörð framkvæmdastjóri kjara- og reksturs hjá Sameyki fór yfir orlofsmál stéttarfélagsins og kynnti félagsmönnum þá orlofskosti sem þeim stendur til boða á orlofsárinu. Þá sagði hann frá nýjungum og kynnti fyrir fundargestum ný hús í Munaðarnesi og nýja orlofskosti sem í boði eru. Þórarinn fræddi gesti hvernig orlofskerfið er byggt upp og endaði sitt erindi með því að fara yfir almennar reglur sem snúa að umgengni við orlofshúsin o.fl.

 

Svo lengi lærir sem lifir

Jóhanna Þórdórsdóttir Fræðslustjóri Sameykis fór yfir stafræna hæfni og hvað hún er. Hún sagði frá nýjum hugtökum vegna stafrænnar hæfni kynslóðanna og hversu ólíkar þær eru að því leyti. Í dag er rætt um fólk, sem má segja að séu innfæddir (native) í stafrænan veruleika, og innflytjendur sem eru eldri kynslóðir, og þurfa að aðlagast nýjum stafrænum veruleika. Hún benti á stafræna hæfnihjólið þar sem hægt er að meta eigin hæfni á vefnum í framhaldi.

Jóhanna hvatti félagsmenn að uppfæra hæfni sína og benti á þá möguleika sem þeim stendur til boða. Í fyrsta lagi er um að ræða símenntun hjá Starfsmennt og í öðru lagi Gott að vita námskeiðin sem má finna í janúarblaði Sameykis og á vef stéttarfélagsins. Þá geta félagar fengið náms og starfsráðgjöf hjá Starfsmennt því gott er að fá álit sérfræðinga hvað hentar manni best miðað við stöðu og hæfni.

Jóhanna nefndi aðgerðaáætlun ríkistjórnarinnar og þar kemur fram að það sé á ábyrgð samfélagsins að fræða og upplýsa um hvað stafræn hæfni er. Sameyki lætur það sig varða.

Þá kynnti hún fundargestum styrkjamál, hvaða styrkir eru í boði til náms o.s.frv. Sameyki stéttarfélag hefur jákvætt viðhorf til símenntunar og hvetur til jákvæðs viðhorfs félagsmanna sinna til að byggja upp áframhaldandi hæfni sína. Þá hvatti Jóhanna fundargesti að lokum að tileinka sér hugarfar grósku sem felur í sér að horft er á möguleikana en ekki hvað skortir.

 

Stytting vinnuvikunnar

Guðmundur Freyr Sveinsson deildarstjóri í Kjaradeild fór yfir kjaramálin og styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki og dagvinnufólki. Fór hann yfir tölur frá BSRB og benti á að 122 ríkisstofnanir eða hátt í 80% hefur skilað niðurstöðum til ráðuneytanna um styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki. 75% þeirra hafa stytt í 36 klukkustundir en 5% stofnanna ekki náð niðurstöðu í umbótasamtali og eru því aðeins með lágmarksstyttingu, þ.e. sem nemur 13 mín. á dag.

Sömuleiðis hafa flestir vinnustaðir hjá Reykjavíkurborg gert vinnustaðasamkomulag um fulla styttingu en breytileiki virðist vera meiri meðal sveitarfélaga sem gera kjarasamninga í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar hefur ekki náðst full stytting og virðist umræðan allt of oft hafa snúist um kaffitíma í stað umbótaferla sem er miður, enda kom skýrt fram í fylgiskjali um styttinguna að hefðbundin neysluhlé eiga að vera hluti af vinnutímanum.

Stytting vinnuvikunnar í vaktavinnu er að því leyti öðruvísi en í dagvinnu að nýtt vinnutímaskipulag gengur í garð 1. maí nk. þar sem vinnuvikan er skilgreind 36 klst. en getur farið allt niður í 32 klst. hjá þeim sem vinna mest utan dagvinnumarka. Þær breytingar kalla á töluverðan undirbúning sem nú er unnið eftir samkvæmt samþykktri tímalínu samningsaðila.

Stytting vinnuvikunnar er mikið hagsmunamál og nú þegar eru margir félagsmenn farnir að upplifa kosti þess að hafa meiri tíma fyrir sig og sína í hverri viku. Núverandi samningar hafa því oft á tíðum verið kallaðir lífsgæðasamningar.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)