Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. maí 2021

Ávarp formanns Sameykis 1. maí 2021

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu

Kæru félagar!

Ég vil óska okkur öllum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag launafólks 1. maí! Hann er nú haldinn innandyra af augljósum ástæðum annað árið í röð en við vonum að með fleirum sem fá bólusetningu munum við njóta þess að koma saman aftur á baráttufundum og í kröfugöngum. Þá vil ég þakka fyrir heillaóskir og traustið að fá að leiða Sameyki áfram veginn í baráttu fyrir bættum kjörum launafólks.

Í síðustu kjarasamningum sömdum við hjá Sameyki stéttarfélagi í almannaþjónustu um einhverja mestu kerfisbreytingu sem gerð hefur verið síðustu fimmtíu ár á vinnumarkaði. Stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki tók gildi 1. janúar síðastliðinn og stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki tekur gildi 1. maí 2021. Þessi aðgerð mun leiða til þess að launafólk mun njóta meiri tíma í sínu einkalífi og vinna styttri og heilsusamlegri vaktir en áður. Það má segja, að með styttingu vinnuvikunnar hjá dag- og vaktavinnufólki, sé nýr tími launafólks runninn upp. Þau viðhorf ættu nú að verða sjálfsögð og gild; að betri heilsa og sanngjarnara vinnutímaframlag sé ávinningur fyrir allt samfélagið.

Þann fyrsta maí horfum við til komandi sumars, veturinn er að baki og ný tíð er framundan með blóm í haga. En fyrsti maí er fyrst og fremst alþjóðlegur baráttudagur launafólks, og við minnumst blóðugrar baráttu verkafólks í Bandaríkjunum og Evrópu, gegn kúgun auðvaldsins og fyrir réttlátara samfélagi. Við erum enn í dag að heyja þessa baráttu. Við erum enn að berjast gegn auðvaldinu og standa vörð um réttindi launafólks.

1. maí er þó fyrst og fremst heilladagur í hugum okkar. Dagur til að fagna samstöðu, þétta raðirnar og standa saman gegn óréttlæti. Við lítum til baka yfir farinn veg og lærum hvað betur má fara í framtíðinni.

Í þjóðmálaumræðunni fer ekki fram hjá neinum hvernig auðlindum þjóðarinnar er misskipt. Það óréttlæti blasir við okkur á hverjum degi. Við eigum aldrei að sætta okkur við að fámennur forréttindahópur gleypi sameiginlegar eigur okkar. Auðlindir þjóðarinnar eru ekki ótæmandi og við verðum að huga að komandi kynslóðum. Við verðum að sýna ábyrgð og virðingu, og berjast fyrir réttlátari skiptingu auðsins sem við eigum öll, en ekki ein, heldur með börnum okkar og baráttufólki framtíðarinnar.

Félagsfólk Sameykis, hvar sem það stendur, þekkir vel sín störf og þær kröfur sem gerðar eru til þess á hverjum einasta degi. Á þessum sérstöku Covid-tímum sem við nú lifum hefur starfsfólk í almannaþjónustu, félagsfólk Sameykis, staðið vaktina af þrautseigju og haldið opinberri þjónustu gangandi. Við höldum ótrauð áfram og sinnum okkar fjölþættu og mikilvægu störfum, um land allt.

Að lokum vil ég þakka fráfarandi formönnum, Árna Stefáni Jónssyni og Garðari Hilmarssyni, fyrir farsæl störf við kjara- og réttindabaráttu félagsfólks til margra ára.
Saman vinnum við að því að byggja upp enn öflugra stéttarfélag í almannaþjónustu, Sameyki.

Góðar stundir og gleðilegt sumar.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)