Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

5. maí 2021

Covid og atvinnuleysi: Tvíþætt ógn við heilsu

Atvinnuleysi hefur leikið stærra hlutverk í Covid-kreppunni en í kjölfar hrunsins. Þróun fjölda atvinnulausra hefur líka verið með öðru móti en í kjölfar hrunsins.

Atvinnuleysi er ein af stóru áskorununum sem við stöndum frammi fyrir í tengslum við COVID-19. Atvinnuleysið er auðvitað afleiðing af faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum en það er ögn villandi að hugsa um það sem hluta af Covid-vandanum. Sem eitthvað sem leysist af sjálfu sér um leið og við höfum náð tökum á bévítans veirunni. Staðreyndin er nefnilega sú að veiran sjálf er ekki eina heilsufarsógnin sem við stöndum frammi fyrir í tengslum við þennan faraldur. Honum fylgir nefnilega önnur heilsuvá. Jamm, einmitt, ég á augljóslega við atvinnuleysi.

 

Atvinnuleysi og heilsa
Nýlega framkvæmdi Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins könnun á meðal meðlima aðildarfélaga ASÍ og BSRB. Í gögnunum má finna vísbendingar um áhrif atvinnuleysis á heilsufar. Þannig mátu til dæmis 16,6% atvinnulausra líkamlega heilsu sína slæma, samanborið við 12,1% þeirra sem voru starfandi. Það er öllu meira sláandi að bera saman andlega heilsu þessara hópa. Rúm 23% atvinnulausra mældust með þunglyndiseinkenni á PHQ-9 skalanum samanborið við 7,6% launafólks.

Það kemur varla á óvart að áhrifin af heilsu aukast því lengur sem fólk er atvinnulaust. Þannig mátu tæp 15% þeirra sem höfðu verið atvinnulaus í skemur en þrjá mánuði líkamlega heilsu sína slæma samanborið við 18.6% þeirra sem höfðu verið atvinnulaus lengur en í ár. Aftur eru niðurstöðurnar þó meira sláandi þegar kemur að andlegri heilsu. Tæp 15% þeirra sem höfðu verið atvinnulaus skemur en þrjá mánuði mældust með slæma andlega heilsu en tæp 29% þeirra sem höfðu verið atvinnulaus lengur en ár. Atvinnuleysi skaðar fólk og skaðinn verður meiri og meira langvarandi því lengur sem fólk er án vinnu.

Atvinnulaust fólk var einnig líklegra til að hafa neitað sér um hvers kyns heilbrigðisþjónustu á undangengnum sex mánuðum. Þannig höfðu 12,5% neitað sér um læknisþjónustu (samanborið við 5,3% launafólks), 22,6% um tannlæknaþjónustu (samanborið við 14,9% launafólks) og 13,3% um geðheilbrigðisþjónustu (samanborið við 7,2% launafólks). Algengasta uppgefna ástæðan fyrir því að hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu var kostnaður, eða upp í um 70% tilfella. Kostnaður við ýmsa heilbrigðisþjónustu er klárlega fyrirstaða og meiri fyrirstaða því lægri og ótryggari sem tekjurnar eru. Þannig nefndu 87,6% atvinnulausra kostnað sem ástæðu fyrir því að hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu en hlutfallið var einnig hátt, en þó lægra á meðal launafólks sem hafði neitað sér um slíka þjónustu, eða 76,6%.

Það er því tvennt í þessu sem ber að hafa í huga. Það fyrra er jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu þegar kostnaður við að minnsta kosti hluta hennar valda því að fólk neiti sér um þjónustu. Hið seinna er að aðgengis vandamálið er stærra þar sem þörfin er jafnvel meiri, það er á meðal atvinnulausra.

 

Öðruvísi en eftir hrun
Atvinnuleysi hefur leikið stærra hlutverk í Covid-kreppunni en í kjölfar hrunsins. Þróun fjölda atvinnulausra hefur líka verið með öðru móti en í kjölfar hrunsins. Í mynd 4 ber ég saman þróun fjölda atvinnulausra í þessum tveimur efnahagskreppum. Upphafspunktarnir eru september 2008 og febrúar 2020, sem má líta á sem síðustu mánuðina áður en að kreppurnar brustu á.Það fyrsta sem er vert að nefna er að staðan var mun betri á vinnumarkaði þegar íslensku bankarnir hrundu en þegar Covid-kreppan hófst enda hafði áður dregið úr fjölgun ferðafólks til landsins og hægt á hjólum atvinnulífsins. Aftur á móti var aukning atvinnuleysis hraðari í upphafi Covid-kreppunnar en í kjölfar hrunsins. Á fyrstu tveimur mánuðum Covid-kreppunnar bættust tæplega 6.700 á atvinnuleysisskrá en rúmlega 3.800 í kjölfar hrunsins.

Eftir fyrstu tvo mánuði kreppunnar jókst atvinnuleysi hins vegar hraðar í kjölfar hrunsins en í Covid-kreppunni og í mars 2009 voru nærri jafn margir á atvinnuleysisskrá og voru í ágúst 2020. Það sem gerðist næst á hrunsárunum er að það fór að draga úr atvinnuleysi. Fjöldaþróunin frá mánuði til mánaðar litaðist auðvitað af árstíðabundnum sveiflum en leitnin var niður á við. Það sem gerðist hins vegar eftir ágúst 2020 er að fjöldi fólks á atvinnuleysisskrá hélt áfram að vaxa fram í desember 2020. Síðan þá hefur fækkað lítillega á atvinnuleysisskrá. Guð gefi að á gott viti, eins og sagt er, en á þessum tímapunkti liggja ekki fyrir nægilega góðar upplýsingar um hvort fækkunin sé tilkomin vegna þess að fólk hafi færst af atvinnuleysisskrá yfir í vinnu.

 

Framtíðarvandi í mótun
Í lok janúar síðastliðinn voru um 21 þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Af þeim höfðu tæplega 65% verið atvinnulaus lengur en hálft ár og 29,5% lengur en ár. Því lengur sem fólk er atvinnulaust, því alvarlegri verða afleiðingarnar og þeim mun líklegra að þær verði langvarandi eftir að atvinnulífið hefur tekið við sér. Fólk er ekki einhvers konar vara sem er hægt að geyma á lager þar til eftirspurnin tekur við sér. Atvinnuleysi skaðar fólk. Löngu eftir að Covid og kreppan verða komin í baksýnisspegilinn verður margt af því fólki sem missti vinnuna í henni enn að kljást við afleiðingarnar, fjárhagslegar, félagslegar og heilsufarslegar sem þýðir verri lífsgæði fyrir það sjálft og umtalsverðan kostnað fyrir þjóðfélagið.

 

Höfundur er Dósent á félagsvísindasviði Háskóla Íslands.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)