Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. maí 2021

Félagsfólk Sameykis í sterkari stöðu samkvæmt könnun Vörðu

Haydeé Adriana Lira Nunez aðstoðarforstöðumaður í frístundaheimilinu Frostheimar

Sameyki vill vekja athygli félagsfólks á skýrslu sem Varða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins gerði um stöðu launafólks á Íslandi. Um er að ræða niðurstöður spurningakönnunar meðal aðildarfélaga ASÍ og BSRB. Þar kemur m.a. fram að félagsfólk Sameykis er í sterkari stöðu en annað launafólk meðal aðildarfélaga sambandanna þegar litið er til atvinnuöryggis. Könnunin er jafnframt fyrsta stóra rannsóknaverkefni Vörðu. Efnahagskreppan í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar hefur valdið víðtækum breytingum á vinnumarkaði og daglegu lífi fólks og rík ástæða að rannsaka afleiðingarnar hjá launafólki.

 

Upplýsingar um stöðu launafólks
Í ljósi breyttrar stöðu á vinnumarkaði þótti ástæða til að leggja fyrir spurningakönnun meðal launafólks innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB til að afla upplýsinga um fjárhagslega, andlega og líkamlega heilsu launafólks á tímum COVID-19. Auk þess var sérstaklega horft til þess að ná til atvinnulausra og afla upplýsinga um stöðu þeirra í samanburði við launafólk.

Markmið könnunarinnar er að veita upplýsingar um stöðu:

1. Launafólks út frá fjárhagsstöðu og heilsu.
2. Atvinnulausra út frá fjárhagsstöðu, heilsu og atvinnuleit.
3. Innflytjenda út frá fjárhagsstöðu, heilsu og stöðu á vinnumarkaði.
4. Ungs fólks út frá fjárhagsstöðu, heilsu og stöðu á vinnumarkaði.

Könnunin var lögð fyrir í lok nóvember og byrjun desember 2020. Skýrslan sem Sameyki hefur fengið senda greinir frá niðurstöðum könnunarinnar innan Sameykis og er hún sett fram í samanburði við stöðu annarra félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB.

 

Hærra hlutfall háskólamenntaðra innan Sameykis
Áhugavert er að sjá Sameykisfélaga í samanburði við heildarniðurstöður. Hlutfall kvenna, fólks yfir þrítugu, innfæddra og háskólamenntaðra er hærra innan Sameykis en meðal viðmiðunarhóps. Marktækur munur er á vinnumarkaðsstöðu Sameykisfólks og heildarhópsins. Atvinnuleysi er mun minna (1,2% á móti 11%), færri eru á uppsagnarfresti (0,8% á móti 1,6%) og í annarri stöðu á vinnumarkaði (2,8% á móti 10,3%). Mun færra Sameykisfólk hefur verið á hlutabótaleiðinni (5,4% á móti 23%). Með öðrum orðum þá hefur atvinnuöryggi Sameykisfélaga á tímum kórónuveirunnar verið meira en atvinnuöryggi félagsfólks innan ASÍ og BSRB almennt.

 

COVID-19 faraldurinn ekki bitnað harðar á félögum Sameykis
Niðurstöðurnar sýna að efnahagsþrengingarnar af völdum faraldursins hafa ekki bitnað eins hart á atvinnuöryggi félagsfólks innan Sameykis og á atvinnuöryggi félagsfólks aðildarfélaga ASÍ og BSRB almennt. Á það hvoru tveggja við meðal kvenna og meðal karla. Atvinnuleysi mælist 1,2% meðal Sameykisfólks en 11% meðal heildarhópsins, færra Sameykisfólk er á uppsagnarfresti (0,8% á móti 1,6%) og mun færri hafa verið á hlutabótaleiðinni (5,4% á móti 23%). Hins vegar er ekki munur á milli Sameykisfólks og annarra á því hvort starfshlutfall á hlutabótaleið hafi verið í samræmi við þá vinnu sem inn var af hendi. Starfshlutfallið var í samræmi við vinnuframlagið hjá ríflega tveimur þriðju hlutum Sameykisfólks á hlutabótaleið.

Lesa má skýrsluna í heild á vef Sameykis.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)