Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. ágúst 2021

Styrkja þarf heilbrigðiskerfið og greiða fyrir álag

Læknir á næturvakt hraðar sér milli deilda á Landspítalanum við Hringbraut. Ljósmynd/Axel Jón

Bregðast verður við álagi á heilbrigðiskerfið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar með auknum fjárframlögum auk þess sem umbuna verður framlínufólki með álagsgreiðslum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði sem BSRB sendi stjórnvöldum í gær.

Bandalagið leggur þunga áherslu á að áfram verði tekist á við faraldurinn þannig að áherslan sé á líf og heilsu og að tekið verði mið af bestu sérfræðiþekkingu hverju sinni í stað þess að sóttvarnaraðgerðir verði að pólitísku bitbeini í aðdraganda þingkosninga.

Brýnt er að bregðast við gríðarlega erfiðri stöðu heilbrigðiskerfisins. „Undanfarna 18 mánuði hefur verið mikið álag á almannaþjónustunni. Starfsfólk hefur tekið að sér aukin, flóknari og breytt verkefni sem hafa krafist mikils af þeim. Bregðast verður strax við gríðarlegu álagi á heilbrigðiskerfið, sem er nú komið yfir þolmörk, með auknum fjárveitingum svo hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks og halda uppi viðunandi þjónustustigi,“ segir meðal annars í minnisblaði BSRB.

Þá er kallað eftir því að stjórnvöld viðurkenni mikilvægt framlag framlínustarfsfólks í baráttunni gegn heimsfaraldrinum. Þar sé til dæmis um að ræða fólk sem sé í nánum samskiptum við skjólstæðinga sína og því í aukinni smithættu. „Mikill fjöldi launafólks hefur lagt sitt af mörkum til að vernda heilsu og líf, veita velferðarþjónustu og halda skólakerfinu gangandi. Langvarandi álag hefur verið á fólk í þessum störfum og hefur það lagt heilsu sína í hættu og þurft að sæta ýmsum takmörkunum umfram aðra í samfélaginu vegna náinna samskipta við viðkvæma hópa í störfum sínum. Mjög mikilvægt er að fólk í þessum störfum finni fyrir hvatningu og stuðningi frá stjórnvöldum bæði í orði og borði. BSRB vill að framlínustarfsfólki verði veitt fjárhagsleg viðurkenning fyrir framlag sitt til samfélagsins í störfum sínum með sérstökum álagsgreiðslum sem ákvarðaðar verði í samráði við stéttarfélögin,“ segir í minnisblaðinu.

Skima þarf fyrir kulnun
Þar er einnig varað við langtímaafleiðingum sem framlínustarfsfólk gæti glímt við í kjölfar faraldursins. BSRB kallar eftir því að skimað verði fyrir sjúklegri þreytu og kulnun hjá þessum hópi, sem hafi í 18 mánuði borið hitann og þungann af baráttunni gegn faraldrinum í sínum störfum. Grípa verði sem fyrst inn í ef geðheilbrigði starfsfólks fari hrakandi bæði til að tryggja lífsgæði og lífskjör starfsfólksins og til að koma í veg fyrir langvarandi fjárhagslegar samfélagslegar byrðar og tap á mikilvægri sérfræðiþekkingu.

Minnisblað um áherslur BSRB vegna 4. bylgju COVID-19.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)