9. september 2021
Formaður Sameykis leiðréttir rangtúlkanir í pistli

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis ritar pistil í dag undir fyrirsögninni, Villandi umræða um laun á milli markaða, og bregst við umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið um laun á milli opinbera markaðarins og almenna markaðarins. Þar segir Þórarinn m.a.: "Því hefur einnig verið haldið fram undanfarið að opinberir starfsmenn hafi hækkað í launum mun meira en starfsmenn á almenna markaðnum. Þeir sem halda þessu fram hafa ef til vill ekki nægjanlega haldgóðar upplýsingar. Staðreyndin er sú að kjarasamningsbundnar launahækkanir á öllum vinnumarkaðnum eru byggðar á Lífskjarasamningnum sem almenni vinnumarkaðurinn samdi um í byrjun árs 2019. Þar var samið um krónutölur en ekki prósentur. Vegna þess þá hækka lægri launin um töluvert hærri prósentu en hærri launin. Allir fá þó sömu hækkun í krónum talið og það var áherslan í kjarasamningunum. Þetta er ekki flókið reikningsdæmi."
Hann bendir á það að opinberir starfsmenn gáfu eftir lífeyrisréttindi sín til að koma á móts við jöfnun launa á milli markaða. "Á móti gáfu opinberir starfsmenn eftir réttindi sín í lífeyriskerfinu. Stéttarfélögin hafa þannig staðið við sinn hluta samkomulagsins en ekki er enn komin niðurstaða í hvernig leiðréttingar á launum opinberra starfsmanna verður háttað. Ljóst er að leiðréttingin mun að minnsta kosti kalla á um 16 prósent leiðréttingu að meðaltali." segir Þórarinn.