Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. september 2021

Þjóðin kýs almannaþjónustu!

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB setti 46. þing BSRB í dag klukkan tíu og stendur það til klukkan eitt í dag. Þingið er haldið með breyttu sniði vegna COVID-19 því ekki er tekin sú áhætta að sitja þing með mörg hundruð manns með tilheyrandi áhættu á smiti og slæmum afleiðingum í kjölfar þess. Því er það nú haldið með lágmarksfjölda í sal og í gegnum fjarfundabúnað.

 

Fjársvelt almannaþjónustuna óskiljanleg stefna
Sonja Ýr sagði í ávarpi sínu á þinginu að almannaþjónustan sé grunnurinn sem íslenskt samfélag byggir grunn sinn á og að ekki megi fjársvelta almannaþjónustuna með niðurskurði þó að talsmenn einkaframtaksins haldi því fram að hún sé dagbítur á samfélaginu.

„Almannaþjónustan er grunnurinn sem allt okkar samfélag byggir á. Talsmenn einkaframtaksins virðast stundum halda að hún sé nokkurskonar dragbítur á samfélaginu. Raunin er sú að án öflugrar almannaþjónustu, þar með talið frábæru heilbrigðiskerfi, gæti samfélagið ekki virkað enda byggir hún undir alla verðmætasköpun og nýsköpun í landinu. Í stað þess að fjársvelta almannaþjónustuna og skera niður þurfum við að einblína á að skapa tækifæri og þekkingu sem nýtist vinnumarkaðinum í heild sinni til að skapa verðmæt störf. Það er í raun óskiljanlegt að atvinnurekendur kalli ekki eftir því að almannaþjónustan verði sem öflugust.,“ sagði Sonja Ýr, formaður BSRB.

 

Verðum að grípa strax til aðgerða til að jafna kynbundin launamun
Sonja Ýr sagði að jafnrétti á vinnumarkaði væri eitt af stóru baráttumálum BSRB og það kæmi lítið á óvart enda um tveir þriðju hlutar félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins konur. Konur sem fá að meðaltali umtalsvert lægri laun en karlar. Hún sagði að í gegnum tíðina hafi gengið erfiðlega að útrýma kynbundnum launamun á vinnumarkaði.

„Ein af stærstu ástæðunum fyrir kynbundnum launamuni er hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn er þegar litið er til atvinnugreina. Vanmat á störfum kvennastétta byggir ekki á ásetningi um að mismuna heldur er það til komið vegna sögulegra, menningarlegra og kerfisbundinna þátta. En hvernig sem ójafnréttið er til komið er ljóst að við verðum að breyta kerfinu. Við getum ekki beðið þolinmóð eftir því að breytingarnar gerist af sjálfu sér. Við verðum að grípa til aðgerða til að knýja þær fram. Næsta skrefið á þeirri leið er að fara að tillögum starfshópsins og þróa samningaleið um jafnlaunakröfur, koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa og stuðla að frekari þekkingaruppbyggingu og vitundarvakningu,“ sagði Sonja Ýr.

 

Stöðugleika þarf að skilgreina út frá félagslegum þáttum
BSRB hefur lagt mikla áherslu á að það sé ekki hægt að skilgreina stöðugleika í samfélaginu út frá efnahagslegum stærðum eingöngu. Það verður ekki síður að líta til þess að launafólk hafi félagslegt öryggi svo það geti til dæmis mætt afleiðingunum af slysum, veikindum eða atvinnumissi, eignast börn og komið þaki yfir höfuðið.

„Við megum heldur ekki gleyma þörfinni fyrir að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og bæta kjör öryrkja, sem eru til háborinnar skammar. Við megum með öðrum orðum ekki einblína eingöngu á efnahagslegan stöðugleika án þess að tryggja um leið félagslegan stöðugleika,“ sagði Sonja Ýr.

 

Ávinningurinn deilist með sanngjörnum hætti
Loftslagsmálin eru brýnasta viðfangsefni samtímans og nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin fyrir hönd launafólks í landinu sé þátttakandi í þeirri vinnu sem framundan er. Þar leggjum við höfuðáherslu á réttlát umskipti. Í því felst að sköpuð verði góð og græn störf sem veita vinnumarkaðstengd réttindi.

„Ekki er síður mikilvægt að kostnaðurinn og ávinningurinn af þeim breytingum sem óhjákvæmilegar eru deilist með sanngjörnum hætti. Í dag er staðan sú að þeir efnameiri fá skattaívilnanir vegna orkuskipta í samgöngum á meðan bættar almenningssamgöngur eru á 15 ára áætlun. Þetta er dæmi um forgangsröðun sem við teljum alls ekki í anda réttlátra umskipta. Það er augljóst að það verður engin sátt um aðgerðir í loftslagsmálum án aðkomu samtaka launafólks og við hjá BSRB erum tilbúin til að leggja okkar af mörkum í þessari vinnu,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB að lokum.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)